Lífeyrir aldraðra og öryrkja hækki um 20 % strax

Björgvin Guðmundsson skrifar grein í Morgunblaðið í dag:Lífeyrir aldraðra og öryrkja hækki um 20% strax.Þar segir svo:

Ein helsta krafa eldri borgara í kjaramálum í dag er krafan um, að kjaragliðnun sú,sem aldraðir og öryrkjar urðu fyrir á krepputímanum, verði leiðrétt. Með kjaragliðnun er átt við það, að lífeyrir aldraðra og öryrkja hækkaði minna en lægstu laun.En samkvæmt lögum á lífeyrir að hækka til jafns við hækkun  neysluvísitölu og taka mið af hækkun launa.
Á kreppuárunum eftir bankahrunið var lífeyrir aldraðra og öryrkja fra Tryggingastofnun frystur.Lægstu laun hækkuðu hins vegar um 16% árin 2009 og 2010.En á sama tímabili hækkaði lífeyrir aldraðra og öryrkja frá almannatryggingum ekki um eina krónu.Síðan hafa lægstu laun hækkað mun meira en lífeyrir.Lífeyrir aldraðra og öryrkja er ígildi launa.Þess vegna er það ósvífið að frysta kaup lífeyrisþega á sama tíma og önnur laun hækka.
 
Mikil kjaragliðnun
 
Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík telur, að kjaragliðnunin sé það mikil sl. 5 ár, að hækka þurfi lífeyri strax um a.m.k. 20% til þess að jafna metin.Flokksþing Framsóknarflokksins ályktaði  á þessa leið um þetta mál  fyrir þingkosningarnar 2013: Lífeyrir aldraðra og öryrkja verði hækkaður vegna kjaraskerðingar þeirra (og kjaragliðnunar) á krepputímanum.Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn var fyrir kosningarnar 2013, fjallaði einnig um málið.Þar var eftirfarandi samþykkt: Ellilífeyrir sé leiðréttur strax til samanburðar við þær hækkanir, sem orðið hafa á lægstu launum síðan í ársbyrjun 2009. Hér var um alveg skýr kosningaloforð að ræða hjá báðum stjórnarflokkunum. Þeir lofuðu að leiðrétta kjaragliðnunina.En efndir hafa engar orðið enn.Ekki er að finna eina krónu í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2015 til leiðréttingar á kjaragliðnun krepputímans.Svo virðist því sem stjórnarflokkarnir ætli að humma þetta kosningaloforð fram af sér.Eða með öðrum orðum: Svo virðist sem stjórnarflokkarnir ætli að svíkja þetta kosningaloforð.
 
Engar nýjar kjarabætur í fjárlagafrv.
 
Ekki eru í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2015 nein framlög til nýrra kjarabóta aldraðra og öryrkja.Aðeins er í frumvarpinu eðlileg leiðrétting vegna fjölgunar bótaþega lífeyristrygginga milli ára,  vegna endurmats útgjalda  og vegna  hækkunar á frítekjumarki lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega samkvæmt samkomulagi, sem stjórnvöld gerðu við  Landssamtök lífeyrissjóða 2010.
Bætur hækka um næstu áramót um 3,5% í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs.Lægstu laun hækkuðu um 5% við gerð síðustu kjarasamninga.Talið er að laun muni hækka um 5-6% næsta ár.Það er því ljóst, að 3,5% hækkun lífeyris  nær ekki hækkun lægstu launa.Er þetta í samræmi við afstöðu stjórnvalda fyrr og  nú gagnvart öldruðum og öryrkjum, þ.e. þá stefnu að klípa alltaf af bótum aldraðra og öryrkja og halda kjörum þeirra  niðri.
 
Matarskattur stórhækkaður
 
Mestu tíðindi fjárlagafrumvarpsins og tekjuöflunarfrumvarps í tengslum við það eru tillögur um hækkun virðisaukaskatts á matvæli.Lagt er til, að virðisaukaskattur,sem lagður er á matvæli, hækki úr 7% í 12%. En á móti lækki almennur virðisaukaskattur úr 25,5% í 24%.Vörugjöld falla  niður. Alþýðusamband Ísland gagnrýnir hækkun á matarskatti og telur,að hún bitni verst á  þeim lægst launuðu.Hagfræðingur ASÍ bendir á, að þeir lægst launuðu noti tvöfalt meira af tekjum sínum í matarkaup en þeir hæst launuðu eða 21% af tekjum sínum en þeir hæst launuðu noti aðeins 10% tekna sinna til matarkaupa.Hækkun barnabóta sem mótvægisaðgerð gagnast ekki eldri borgurum og öryrkjum.Aðeins 30% öryrkja hefur börn á framfæri sínu. Vegna hækkunar matarskattsins hefði verið eðlilegt að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja á móti.Góð mótvægisaðgerð hefði einnig verið sú ráðstöfun að hækka skattleysismörkin eins og LEB og FEB hafa farið fram á. Hækkun skattleysismarka hefði gagnast öldruðum og öryrkjum vel og láglaunafólki yfirleitt.
 
Stjórnin hefur lítið sem ekkert gert
 
Fulltrúar stjórnarflokkanna tala mikið um það, að ríkisstjórnin hafi gert einhver ósköp fyrir aldraða og öryrkja.En það eina,sem ríkisstjórnin hefur gert fyrir þessa hópa er eftirfarandi: Frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra var hækkað úr 40 þús.á mánuði í 110 þús. kr. á mánuðu.Það kostar 275 mill.kr.á ári. Og útreikningi grunnlífeyris var breytt á ný og hætt að reikna lífeyrissjóðsgreiðslur með tekjum.Það kostar 1575 mill. kr.á ári.Alls  eru þetta 1850 mill.kr.á ári.Annað gerði stjórnin ekki að eigin frumkvæði fyrir lífeyrisþega. Skerðing tekjutryggingar rann út af sjálfu sér, þar eða lögin þar um voru tímabundin og giltu til sl. áramóta.Minni skerðing tekjutryggingar kostar 2,5 milljarða á ári.En 3 aðrar skerðingar frá 1.júlí 2009 hefur stjórnin ekki leiðrétt.Og mesta kjaraskerðingin,kjaragliðnunin, er óleiðrétt.Stjórnin getur því hætt að guma af afrekum sínum í málum aldraðra og öryrkja.Hún valdi að gera það sem kostaði lítið sem ekki neitt.T.d. má búast við að kostnaður við breytt frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra komi allur til baka í ríkiskasssann í auknum sköttum af vinnu aldraðra.

 

Vonandi leiðréttir þingið fjárlagafrumvarpið  lífeyrisþegum  í hag.
 


Björgvin Guðmundsson


www.gudmundsson.net 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband