Getum tryggt öllum öryggi og mannsæmandi kjör

 

Eldhúsdagsumræður fóru fram á alþingi í fyrrakvöld. Þær fóru fram með hefðbundnum hætti. Mörgum finnst þetta fyrirkomulag orðið úrelt og að taka ætti upp nýtt form á þessum umræðum.Að þessu sinni þóttu tvær ræður bera af, samkvæmt skoðunarkönnun,þ..e. ræða Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar og ræða Katrínar Jakobsdóttur,formanns VG.Hér fer á eftir kafli úr ræðu Loga:

 Við fimm til sex ára aldurinn gerist svolítið ótrúlega fallegt í þroskaferli barnsins. Það byrjar að finna til samúðar með öðrum. Það lærir að setja sig inn í aðstæður annarra og finna til með öðrum. Hver hefur ekki reynt að stöðva grát barns sem uppgötvar og skynjar sorglega atburðarás í teiknimynd eða barnabók? En þegar við fullorðnumst öðlumst við hins vegar hæfileikann til að setja hluti í samhengi, horfa á heildarmynd hlutanna, en líka að hugsa abstrakt og brynja okkur fyrir tilfinningum gagnvart einstökum atburðum. Þá grípum við gjarnan til þess að réttlæta alla mögulega og ómögulega hluti út frá heimi meðaltalsins og vísitölunnar.

En við lifum ekki í þannig heimi. Við erum öll af holdi og blóði, fólk sem á rétt að lifa með reisn. Þótt almenn lífskjör Íslendinga hafi batnað gríðarlega og ójöfnuður sé minni en víðast hvar er markmiðum okkar hvergi nærri náð. Við verðum að stefna að því að skapa samfélag þar sem allir eru þátttakendur, hver á sínum forsendum. Ísland er nógu ríkt land, nógu auðugt af auðlindum, til að hægt sé að tryggja öllum ásættanleg kjör. Til þess þarf aðeins að jafna gæðunum betur og deila byrðum eftir getu hvers og eins.

Við getum auðvitað aldrei blandað pólitíska mixtúru sem gerir alla ánægða og hamingjusama, komið í veg fyrir sjúkdóma eða jafnvel mannlega breyskleika. En við getum tryggt öllum öryggi og mannsæmandi kjör. Meðaltölin fletja ekki bara út veruleikann heldur draga athygli okkar stundum frá aðsteðjandi vanda. Þau geta jafnvel leitt okkur á villigötur. Nýverið birti Menntamálastofnun tölfræði sem sýndi að nemendur á höfuðborgarsvæðinu stæðu sig betur í samræmdum prófum en börn utan af landi. Draga mátti jafnvel þá ályktun að börn landsbyggðarinnar væru verri námsmenn og hefði lélegri kennara. Eflaust eru einhverjir skólar í fámenninu verr búnir og í verri færum. En þegar niðurstöður eru krufnar má sjá að einkunnir ráðast miklu fremur af félagslegri stöðu barns en búsetu þess. Þau börn sem búa við lakari félagsleg skilyrði, hafa veikara bakland, minni hvatningu, þeim gengur verr. Og til að bregðast við þessu væri því nærtækast að auka jöfnuð, laga búsetuskilyrði, styrkja velferðarkerfið og ráðast gegn fátækt.

Fyrir þá sem ekki skilja eða viðurkenna þá mannfyrirlitningu sem felst í miklum ójöfnuði er kannski allt í lagi að tefla fram efnahagslegum rökum. Vegna breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar þarf framleiðni að aukast ef við eigum að halda áfram að bæta almenn lífskjör. Tæknibyltingin fram undan mun kalla á vel menntaða, hugmyndaríka einstaklinga með mikið frumkvæði. Af þeim ástæðum einum höfum við ekki efni á að skilja nokkurt barn eftir. Við þurfum að þróa menntakerfi sem mætir ólíkum þörfum hvers og eins, byggir á styrkleikum þeirra en ekki veikleikum. Og það er sorglegt að þessi ríkisstjórn setji ekki menntamál í algeran forgang. Í því felst bæði virðingarleysi og skammsýni. — .

 

 Björgvin Guðmundsson

 www.gudmundsson.net

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband