Hvers vegna er kjörum aldraðra og öryrkja haldið niðri?

Vinur minn einn á Facebook skrifaði eftirfarandi færslu þar: Af hverju þurfa öryrkjar og aldraðir alltaf að berjast með kjafti og klóm fyrir lífi sínu? Hvers vegna eiga stjórnvöld aldrei frumkvæði að (kjara) leiðréttingum? Ég tek undir þessi orð. Eftir að ég hafði unnið í mörg ár fyrir kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík, fór ég einmitt að undrast það hvað stjórnvöld hér voru neikvæð í garð aldraðra og öryrkja. Þessu er öfugt farið í grannlöndum okkar. Þar eru stjórnvöld jákvæð i garð eldri borgara og öryrkja. Þetta breytist ekkert hér þó uppsveifla sé í hagkerfinu, hagvöxtur í hæstu hæðum og afkoma ríkissjóðs hafi stórbatnað. Stjórnvöld haga sér áfram í samskiptum við lífeyrisfólk eins og kreppa sé í landinu! Nógir peningar fyrir aðrar stéttir. Launahækkanir til annarra en aldraðra og öryrkja eru hins vegar ekki skornar við nögl. Stöðugt berast fréttir af nýjum kjarasamningum embættismanna og miklum launahækkunum þeirra. Áður höfðu verið birtar fréttir af miklum launahækkunum ráðherra og alþingismanna. Það er athyglisvert við launabreytingar embættismanna og stjórnmálamanna, að þeir fá yfirleitt allir hækkanir langt aftur í tímann allt upp í 18 mánuði! Hvers vegna fá aldraðir og öryrkjar ekki afturvirkar hækkanir á sínum lífeyri? Með hliðsjón af öllum þessum miklu launahækkunum er vissulega tímabært að endurskoða lífeyri aldraðra og öryrkja og hækka hann það myndarlega að þessir aðilar geti lifað mannsæmandi lífi og þurfi ekki að kvíða morgundeginum. Í umræðunni um kjaramál aldraðra og öryrkja er vert að halda eftirfarandi til haga: Greiddir eru fullir skattar af lífeyri aldraðra og öryrkja. Lífeyrir úr lífeyrissjóði veldur skerðingu lífeyris frá almannatryggingum. Ég tel að lífeyrir aldraðra og öryrkja eigi að vera skattfrjáls. Þannig er það í Noregi. Þegar stjórnvöld birta upplýsingar um kjaramál aldraðra og öryrkja láta þau gjarnan í té upplýsingar um heildartekjur allra lífeyrisþega (og þar á meðal lífeyrissjóðstekjur). Með því að taka hæst launuðu eldri borgara með hækkar meðaltal tekna verulega og það lítur út fyrir að tekjur allra eldri borgara séu ágætar. En svo er ekki. Margir eldri borgarar og öryrkjar hafa mjög lágan lífeyri og óviðunandi kjör. Bæta þarf kjör þeirra, sem verst eru staddir Kjarabarátta eldri borgara snýst um að bæta kjör þeirra, sem verst eru staddir; þannig að þeir hafi sómasamleg kjör. Einnig er barist gegn skerðingu tryggingalífeyris vegna greiðslna úr lífeyrissjóði. Þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir var gert ráð fyrir því, að þeir yrðu viðbót við almannatryggingar en að þeir yllu ekki skerðingu tryggingalífeyris.

Björgvin Guðmundsson

Fréttablaðið 15.júní 2017


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gæti það verið vegna hins mikla fjölda vel vinnufærs fólks sem gerir sér upp vanmátt til vinnu og fær uppáskrift hjá læknum um að það séu öryrkjar. Þessir þykjustu öryrkjar munu farnir að teljast í þúsundum. Í núverandi uppgripa atvinnuástandi þar sem fólk vantar alstaðar. Þetta er að verða hrikalegt vandamál sem vel getur sett félagslega kerfið á hliðina ef aldraðir og öyrkjar eru áfram tengdir við þetta fólk.

Þetta sama ástand á Bretlandseyjum er orðið þar til stórvandræða. Heilu fjölskyldurnar, kynslóð fram af kynslóð, fara í þetta óheilla far og eru að sliga félagslega kerfið. Var þetta ekki líka svona í Danmörku fyrir nokkrum árum og er kannski enn er Íslendingar flykktust þangað til að komast á framfæri hjá hinum góðu  Dönum frændum okkar. Það þótti bara sjálfsagt og eðlilegt af mörgum landanum sem latur var til vinnu.

Mig langaði aðeins að benda á þetta við mann eins og þig, sem leggur sig fram af öllum kröftum við að hjálpa öldruðum og öryrkjum. En ef þúundir svona vandræðafólks leggst á kerfið án þess nokkuð sé aðgert fer það á hliðina. Mig grunar að stjórnmlamennirnir við völdin í dag vilji ekki stuðla að slíku og þess vegna vilja þeir lagfæringar á kerfi því sem notað er til starfsmats öryrkja við endanlegan úrskurð um örorku og þannig útiloka þennan hóp vinnufærra. Ég þekki persónulega til lítils hóps vinnufærs fólks sem hefur fengið sig listað sem öryrkja og lifr ágætu lífi af bótunum og vinnur svart með þeim. Líklega eru þúsundir slíkra nú þegar í gangi. Þetta gengur auðvitað alls ekki og verður að stoppa það. Öryrkjabandalagið verður að fallast á nýjar leiðir til að meta ástand öryrkja og starfsgetu og koma í veg fyrir þessa misnotkun á miljörðum af almannafé. Annars verður ómögulegt að lagfæra nokkuð að ráði til handa aldraðra og reynverulegra öryrrkja.

Með bestu kveðju

Reynir Oddsson

Reynir Oddsson (IP-tala skráð) 16.6.2017 kl. 10:14

2 Smámynd: Björgvin Guðmundsson

EKKI BER AÐ RÉTTLÆTA 197-229 ÞÚSUND KRÓNA LÍFEYRI ELDRI BORGARA Á MÁNUÐI!

Sæll Reynir! Þú  gerir athugasemd við grein mína: : Hvers vegna er kjörum aldraðra og öryrkja haldið niðri.Þú segir::Gæti það verið vegna hins mikla fjölda vel vinnufæra fólks,sem gerir sér upp vanmátt til vinnu og fær uppáskrift hjá læknum um að það sé öryrkjar.Ég tel ekki.Ekki má
 réttlæta það,að kjörum aldraðra sé haldið niðri með því að öryrkjar séu of margir og einhverjir þeirra misnoti kerfið.Af þeim sökum megi halda lifeyri aldraðra,sem eingöngu verða að treysta á TR í 197 þús-229 þúsund kr á mánuði eftir skatt..Auðvitað geta stjórnvöld ekki skammtað eldri borgurum hungurlús í lífeyri vegna þess að þau telji að öryrkjar misnoti kerfið.Það stenst ekki.- Auk þess tel ég,að gegndarlaus áróður gegn öryrkjum hér á landi eigi ekki við rök að styðjast.Alltaf   eru einhverjir,sem misnota öll hjálparkerfi. En það er ekki meira um það hér á landi en á hinum Norðurlöndunum..Athugun,sem Stefan Ólafsson prófessor gerði á þessu leiddi í ljós,að það voru færri öryrkjar hér en á hinum Norðurlöndunum,Samt heldur áróðurinn gegn öryrkjum áfram og nú á "fjöldi" öryrkja að réttlæta það að lífeyri aldraðra sé haldið niðri.Við skulum ekki réttlæta aðgerðarleysi stjórnvalda.Þvert á móti verður að herða baráttuna og ekki linna látum fyrr en aldraðir...OG ÖRYRKJAR. fá viðunaandi lífeyri sem dugar til sómasamlegrar framfærslu.

Bestu kveðjur

Björgvin

Björgvin Guðmundsson, 18.6.2017 kl. 08:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband