Þurfum þáttaskil í málefnum aldraðra og öryrkja!

 

Það er eitthvað mikið að í íslensku samfélagi.Ár eftir ár, þing eftir þing, er það látið dankast, að kjör aldraðra og öryrkja séu við fátæktarmörk.Á alþingi hreyfir enginn legg né lið í málinu.Þegar lagt var til á alþingi,að aldraðir og öryrkjar fengju afturvirkar kjarabætur eins og flestar aðrar stéttir bundust þingmenn samtökum um að fella það! Hvað er til ráða? Hvernig á að knýja það fram, að aldraðir og öryrkjar, sem eingöngu hafa lífeyri frá almannatryggingum, fái mannsæmandi kjör.Það er ekki auðvelt verkefni.En það verður að ráðast í það og það verður að takast.Sómi Íslands liggur við.

Hætta á smáskammtalækningum

Það er kominn tími til þess að það verði þáttaskil í málefnum aldraðra og öryrkja.Það er tímabært að hætta smáskammtalækningum og kominn tími á að bæta kjör þessara aðila það myndarlega, að þeir finni fyrir breytingunni og geti lifað með reisn í framhaldinu. Um síðustu áramót fengu aldraðir í hjónabandi og í sambúð 12 þúsund króna hækkun á mánuði og voru eftir breytinguna áfram með lífeyri undir 200 þúsund kr á mánuði eftir skatt.Skammarleg upphæð.Sú upphæð átti að duga fyrir mat,fatnaði,húsnæðiskostnaði,samgöngukostnaði ( rekstri biðfreiðar eða strætisvöngnum),síma,fjarskiptakostnaði,hreinlætisvörum,lækniskotnaði,lyfjakostnaði o.fl Hver maður sér, að enginn leið er að láta þetta dæmi ganga upp.Enda er það svo í reynd, að eldri borgarar, sem eru á þessum kjörum,verða að neita sér um að fara til læknis,eða láta vera að leysa út lyf og mörg dæmi eru um að eldri borgarar hafi hringt í Félags eldri borgara í Reykjavík í lok mánaðar og sagt, að þeir ættu ekki fyrir mat.Hvernig má það vera, að velferðarþjóðfélagið Ísland svelti sína eldri borgara með því að skammt þeim svo naumt, að þeir eigi ekki fyrir mat.

Uppsafnaður vandi aldraðra

Það er búið að draga það svo lengi að lagfæra kjör aldraðra og öryrkja, að það er orðinn uppsafnaður vandi. Það verður um leið og nýtt alþingi kemur saman að leysa vanda þessa fólks og ekki með smáskömmtum, heldur með myndarlegum aðgerðum sem dugi og leysi vanda fólksins. Ísland hefur efni á því. Hér eru nokkur atriði til leiðbeiningar í því sambandi: Þegar þing kemur saman á að samþykkja myndarlega hækkun á lífeyri aldraðra og öryrkja.Þessi hækkun á að taka gildi strax. Það á ekki að segja, að lífeyrir muni hækka um næstu áramót. Það er of seint. Það hefur verið viðtekin venja að fresta alltaf aðgerðum fyrir aldraða og öryrkja.En hjá öðrum stéttum koma hækkanir alltaf strax og oft eru þær einnig afturvirkar. Til greina kemur að hækkun til aldraðra og öryrkja yrði afturvirk.Hækkun lífeyris aldraðra og öryrkja þarf að vera það mikil, að hún dugi. Ég hef sett fram þá tillögu, að lífeyrir aldraðra einhleypinga hækki í 425 þúsund kr fyrir skatt á mánuðien það jafngildir 320 þúsund kr eftir skatt. Þetta er lágmarksbreyting. Ef til vill þyrfti hækkunin að vera meiri.En samhliða mætti auka húsnæðisstuðning við þá eldri borgara,sem ekki eiga eigið húsnæði. Staða þeirra eldri borgara,sem þurfa að leigja eða eiga skuldsett húsnæði er miklu verra en hinna,sem eiga skuldlaust eða skuldlítið húsnæði.Á öllum hinum Norðurlöndunum er mikill húsnæðisstuðningur við eldri borgara.-Ég skora á frambjóðendur til alþingis að taka mál aldraðra og öryrkja upp og leiðrétta mál þeirra á alþingi.

Björgvin Guðmundsson
 
Birt í Mbl. 20.oktober 2017
 
www.gudmundsson.net

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband