Sunnudagur, 10. febrúar 2008
Skemmtilegt viðtal við Össur á Bylgjunni
Valdís Gunnarsdóttir átti skemmtilegt viðtal við Össur Skarphéðinsson,ráðherra,á Bylgjunni í morgun. Össur ræddi um uppvöxt sinn,nám og hjónaband og pólitíkina.Össur var uppreisnargjarn á unglingsárum og fór snemma að heiman.Hann kynntist konu sinni í Menntaskólanum. Hann sagði skemmtilega frá því þegar þau hjón ættleiddu dætur sínar tvær frá Kolombíu en eldri dóttirin,Birta,á að fara að fermast. Össur sagði frá samskiptum sínum við Davíð Oddsson og fleiri skemmtilegum hlutum úr pólitíkinni.Össur sagði,að það væri mjög gaman á ríkisstjórnarfundum. Andrúmsloftið væri afslappað og menn gerðu að gamni sínu.Össur hefur verið duglegur sem iðnaðarráðherra. Hann ,sem hefur samið frumvarp um orkumál,sem bannar framsal orkuréttinda,sem eru eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Þau eiga áfram að veru í eigu opinberra aðila.Aðrir ráðherrar hafa ekki verið eins duglegir. Það kemur lítið sem ekkert frá sumum þeirra.
Björgvin Guðmundsson
Sunnudagur, 10. febrúar 2008
Er afstaða atvinnulífsins til fatlaðra að verða jákvæðari?
Eitt af einkennum græðgisþjóðfélagsins var það,að atvinnulífið varð mun óvinsamlegra en áður þeim,sem hafa skerta starfsorku.Þess vegna ber að fagna sameiginlegu átaki hins opinbera og atvinnulífsins í þá átt að breyta þessu.
Straumhvörf, fimm ára átaksverkefni í þjónustu við geðfatlaða á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins, stóðu fyrir opnum morgunverðarfundi í samvinnu við Samtök atvinnulífsins um félagsleg fyrirtæki og samfélagslega ábyrgð á Hilton Reykjavík Nordica 5. febrúar síðastliðinn.
Í þessu verkefni hafa orðið straumhvörf í lífi margra þeirra sem búa við geðfötlun og hafa verið lokaðir inn á stofnunum, sagði Ásta R. Jóhannesdóttir, alþingismaður og formaður verkefnistjórnar straumhvarfa. Ítarleg stefnumótun hefur verið unnin í félagsmálaráðuneytinu um hvernig búið skuli að geðfötluðum. Stefnan snýst meðal annars um það að fólk geti búið í sérbýlum og farnar séu nýjar leiðir með fjölbreyttri endurhæfingu og stuðningi við fatlaða á almennum vinnumarkaði. Einnig að styrkja tengslanet við fjölskyldu og vini og efna til umræðu um málefni, sagði Ásta einnig á fundinum.
Í máli frummælenda kom fram að mikilvægt er að vinna frekar að því að fá geðfatlaða til þátttöku á vinnumarkaði og til þess væru nokkrar leiðir.
Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr, lýsti því hvernig hægt væri að skapa forsendur til þess að geðfatlaðir geti notið sín í starfi. Benti hann meðal annars á mikilvægi þess að fræða starfsfólk um geðraskanir.
Þess er að vænta að stefnubreyting sé að verða hjá atvinnulífinu í afstöðu til fatlaðra. Alla vega kom fram mjög jákvæð afstaða hjá Þórólfi Árnasyni forstjóra SKÝRR. Væntanlega fylgja aðrir forstjórar í kjölfar hans.
Björgvin Guðmundsson
Sunnudagur, 10. febrúar 2008
Eru kjarasamningar að nást?
Samtök atvinnulífsins kynntu Starfsgreinasambandinu og Flóabandalaginu víðtækar tillögur á fundi í Karphúsinu í gær. Þar eru útlínur nýs samnings kynntar og gert ráð fyrir að laun hækki um fjögur prósent til þeirra sem hafa farið á mis við launaskrið síðustu ára. Samningurinn er hugsaður til þriggja ára og er gert ráð fyrir að lágmarkslaun verði 165 þúsund krónur að þeim tíma loknum.
Landssambönd innan ASÍ, þar á meðal iðnaðarmanna og verslunarmanna, hafa ákveðið að semja á sömu nótum og Starfsgreinasambandið og Flóabandalagið. -
Það er mikill áfangi,að landssamböndin,þar á meðal iðnaðarmanna og verslunarmanna skuli hafa ákveðið að semja á svipuðum nótum og Starfsgreinasambandið og Flóabandalagið.Reynt verður í byrjun vikunnar að berja saman samning á þessum grundvelli. Gera má ráð fyrir,að ríkisstjórnin þurfi að koma að málinu á lokasprettinum.
Björgvin Guðmundsson
Sunnudagur, 10. febrúar 2008
Hver eru völd borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins?
Um langt skeið voru borgarstjórar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík dýrkaðir af flokksmönnum eins og hálfguðir.Þeir voru settir á stall og höfðu nokkurs konar alræðisvald. Það,sem þeir sögðu og ákváðu, gilti eins og lög.Þannig var þetta þegar Davið var borgarstjóri og þannig var þetta hjá þeim borgarstjórum Sjálfstæðisflokksins,sem ríktu á undan honum.Það var því eðlilegt,að Vilhjálmur teldi sig geta haft þetta eins. En þessir nýju og ungu borgarfulltrúar íhaldsins höfðu einhverjar aðrar hugmyndir um vald borgarstjóra en gilt höfðu meðan Davíð var borgarstjóri. Og Morgunblaðið hefur einnig aðrar hugmyndir um vald borgarstjóra en áður,ef marka má Reykjavikurbréf í dag.
Þegar Davíð Oddsson var forsætisráðherra taldi hann ekki nauðsynlegt að bera öll mál undir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Hann ákvað einn að láta Ísland styðja innrás Bandaríkja og Bretlands í Írak,hafði um það samráð við Halldór Ásgrímsson,þá utanríkisráðherra. Morgunblaðið gagnrýndi ekki þessi vinnubrögð Davíðs og kvartaði ekki yfir því að hann hefði ekki haft nægilegt samráð við sína flokksmenn um svo stórt mál. Málið var ekki einu sinni borið' undir ríkisstjórnina og þaðan af síður undir utanríkismálanefnd. En nú hamast Mbl. á Vilhjálmi vegna þess að hann hafi ekki haft nægilegt samráð við sína samflokksmenn um REI og vegna þess,að umboð hans hafi ekki verið nægilega skýrt. Hvert var umboð Davíðs?
Björgvin Guðmundsson