Fimmtudagur, 21. febrúar 2008
Guðni skrifar Seðlabankanum um efnahagsmál
Guðni Ágústsson,formaður Framsóknar hefur skrifað Seðlabankanum og lagt fyrir bankann nokkrar spurningar um efnahagsmál. Spurningarnar eru þessar:
1. Hvaða áhrif telur Seðlabankinn að breytingar á fjármálamörkuðum hér heima fyrir og erlendis síðustu vikur hafi á tekjuöflun ríkisins?
2. Hvaða áhrif telur Seðlabankinn að nýloknir kjarasamningar hafi á þróun efnahagslífsins og tekjuöflun ríkisins?
3. Hvaða áhrif telur Seðlabankinn að nýkynntar tillögur ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir kjaramálum hafi á þróun efnahagslífsins, ríkisútgjöld og tekjuöflun ríkisins?
4. Hvað telur Seðlabankinn mikið svigrúm til frekari útgjaldaaukningar hjá ríkissjóði í tengslum við þá kjarasamninga sem ólokið er?
5. Hvort telur Seðlabankinn að fjárlög ársins 2008 hafi haft jákvæð eða neikvæð áhrif á það ójafnvægi sem við búum við í efnahagsmálum nú um stundir?
6. Telur Seðlabankinn að ríkisstjórn Íslands hafi gengið nógu langt í þá átt að draga úr þenslu í samfélaginu?
Guðni setur Seðlabankann í nokkurn vanda með spurningum sínum.Hætt er við að ágreiningur geti orðið milli Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar um nokkur þeirra atriða sem Guðni spyr um. Fróðlegt verður að sjá svör Seðlabankans.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 21. febrúar 2008
Á að reka alla ellilífeyrisþega út á vinnumarkaðinn?
Þess verður vart hjá mörgum,að þeir telja miklar kjarabætur fyrir aldraða felast í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um að greiða fyrir því að eldri borgarar geti verið á vinnumarkaðnum,þ.e. með því að draga úr skerðingu tryggingabóta vegna atvinnutekna. Rétt eins og reka eigi alla eldri borgara
út á vinnumarkaðinn.Að vísu eru önnur atriði í þessu frumvarpi svo sem afnám skerðingar bóta vegna tekna maka og að þeir,sem ekki eru í lífeyrissjóði fái ei að síður 25 þúsund krónur úr lífeyrissjóði. Þeir eru að vísu aðeins 300,sem mundu verða þess aðnjótandi og eftir skatta og skerðingar verða aðeins 8 þús. kr.. eftir af þessum 25 þúsund kr.
Guðbjartur Hannesson,þingmaður Samfylkingarinnar sagði við umræðu um frumvarpið, að stórt skref væri stigið í kjaramálum aldraðra og öryrkja með þessum frumvarpi. Hann sagði raunar,að mest allt í stjórnarsáttmálanum um þessi mál væri með frumvarpinu komið til framkvæmda!Það er misskilningur. Það er ekkert í frumvarpinu um hækkun á lífeyri þeirra eldri borgara,sem ekki eru á vinnumarkaði. Aðgerðir til þess að hækka lífeyri aldraðra hljóta fyrst og fremst að beinast að þeim ellilífeyrisþegum,sem hættir eru að vinna. Það er um 70% eldri borgara. Þau 3oo manns,sem fá munu 25 þúsund krónur í lífeyri ( les: 8000 kr.) skipta litlu máli í þessu sambandi.
Það er vissulega gott að draga úr tekjutengingum eldri borgara en það dugar ekki til þess að bæta stöðu eldri borgara nægilega.Aðalatriðið er að hækka lífeyri eldri borgara það mikið, að hann dugi fyrir neysluútgjöldum og sómasamlegu lífi á efri árum.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 21. febrúar 2008
Vilja afnema skerðingu tryggingabóta vegna lífeyrissjóðstekna
Alþingi ræddi í dag frumvarp félagsmálaráðherra um að lögfesta ýmis atriði úr yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5.desember sl. Urðu miklar almenningar umræður um almannatryggingar af því tilefni. Töldu margir þingmenn,að alltof stutt skref væri stigið með þessum aðgerðum. Meðal þess sem var gagnrýnt við umræðuna var ,að ekki væri afnumin skerðing á tryggingabótum vegna lífeyrissjóðstekna.Þingmennirnir Guðjón Arnar og Ellert B. Schram gagnrýndu þetta atriði báðir.Guðjón Arnar sagði,að talað væri um, að lífeyrissjóðstekjur væru atvinnutengdar tekjur og þess vegna væri skattur af þeim 35,7% í stað 10 % eins og af fjármagnstekjum. En ef fallast ætti á að lífeyrissjóðstekjur væru atvinnutengdar ættu sömu reglur að gilda um þær og atvinnutekjur varðandi skerðingu tryggingabóta. Á sama hátt og afnumin væri skerðing bóta vegna atvinnutekna ætti að afnema skerðingu vegna lífeyrissjóðstekna.
Jóhanna Sigurðardóttir ráðherra sagði ,að frumvarpið fæli í sér fyrsta skref lagfæringa fyrir eldri borgara og öryrkja. En gera þyrfti miklu betur. 130 þús. kr. ellilífeyrir til þeirra,sem ekki væru í lífeyrissjóði væri skammarlega lágur.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 21. febrúar 2008
Danir níða niður íslensku bankana
Skuldatryggingarálag íslensku bankanna heldur áfram að hækka og hið sama á við um íslenska ríkið en álag á skuldabréf þess hefur nær þrefaldast frá áramótum. Í upphafi árs var álagið 64,7 punktar (100 punktar jafngilda einu prósentustigi) en í fyrradag var það 185 punktar.
Þessi þróun er athyglisverð í ljósi þess að ríkissjóður er nánast skuldlaus auk þess sem komið hefur fram að ekki verði ráðist í neina skuldabréfaútgáfu á alþjóðlegum markaði á árinu. Verður því að gera ráð fyrir að hér sé um smitáhrif að ræða, t.d. að fjárfestar óttist að lendi íslensku bankarnir í vandræðum gæti ríkið þurft að grípa til skuldabréfaútgáfu til þess að koma þeim til hjálpar.
Skuldatryggingaálag íslensku bankanna hélt áfram að hækka í gær og var það komið í 625 punkta hjá Kaupþingi, 570 punkta hjá Glitni og 350 hjá Landsbankanum.Börsen vitnaði í gær í aðalhagfræðing Saxo Bank í Danmörku sem hafði sagt,að líkurnar á því að Kaupþing yrði gjaldþrota á árinu hefðu aldrei verið meiri. Sigurður Einarsson stjórnarformaður KAUPÞINGS fordæmdi skrif Börsen og sagði,að lausafjárstaða Kaupþings væi mjög góð eða 13,5 milljarðar evra en uppgreiðslur á þessu ári næmu 3,5 milljörðum.Hann sagði því að staða Kaupþings væri sterk.
Ljóst er þó að skrif eins og þessi í Börsen geta skaðað
islensku bankana. Forsætisráðherra hefur ráðið Finn Sveinbörnsson,sem ráðgjafa en hann var áður framkvæmdastjóri sambands sparisjóða og þekkir vel bankakerfið. Er ljóst,að ríkisstjórnin hefur mál bankanna til athugunar.
Ljóst er ,að staða bankanna hefur versnað mikið. Þeir verða að taka sér tak og skera niður. Glitnir sýnir gott fordæmi með því að skera niður laun stjórnenda. Aðrir bankar ættu að fylgja fordæmi þess banka.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Bankarnir smita ríkið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 21. febrúar 2008
Aldraðir fá hungurlús
Nýgerðir kjarasamningar munu hafa áhrif á bætur almannatrygginga til hækkunar. Að sögn Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, munu bætur almannatrygginga hækka um 3-4% fljótlega, til viðbótar við þá hækkun sem varð á bótum almannatrygginga um síðustu áramót.
Það er þannig að ákvörðun um hina árlegu hækkun tekur alltaf mið af launaþróun, en þó þannig að þær hækka aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Það sem mun gerast núna í framhaldi af kjarasamningum er að þetta verður uppreiknað vegna kjarasamninga, þannig að nýjar greiðslur taki mið af launaþróun í þessum nýju kjarasamningum, segir Jóhanna og tekur fram að miðað verði við launaþróun frá 1. febrúar.
Samkvæmt þessu er ljóst,að aldraðir munu fá algera hungurlús.Ætlunin er að skammta þeim mikið minna en verkafólki,þar eð verkafólk,sem fékk 18000 kr. hækkun fékk a.m.k. 15 % hækkun en ætlunin er að láta aldraða fá aðeins 3-4%. Ég tel,að það sé brot á lögum,þar eð lögum samkvæmt eiga bætur að hækka og taka mið af launaþróuun en aldrei að hækka minna en nemur verðlagshækkunum.Þegar slitin voru tengsl á milli bóta aldraðra og lágmarkslauna sagði Davíð Oddsson þá forsætisráðherra,að bótaþegar mundu ekki tapa á þessari breytingu,þeir yrðu tryggðir bæði með belti og axlaböndum. En það fór á annan veg. Það er búið að hafa af öldruðum tugi milljarða í bótum síðan.
Um áramót fengu aldraðir einnig hungrulús. Þá hækkuðu bætur um 4000 kr. vegna samkomulags Landssambands eldri borgara og þáverandi ríkisstjórnar,sem gert var 2006. Stefna fyrri stjórnar og núverandi virðist vera að láta eldri borgara fá eins lítið og mögulegt er. Það er enginn rausnarskapur þegar eldri borgarar eiga í hlut.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Bætur hækka um 3 til 4% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 21. febrúar 2008
Hanna Birna vill verða borgarstjóri
Ég gef kost á mér að sjálfsögðu," sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir í viðtali við Ísland í dag . Þar sagðist hún ekki skorast undan yrði til hennar leitað sem borgarstjóri. Hún sagðist styðja Vilhjálm sem oddvita borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins
Yfirlýsing Hönnu Birnu kemur ekki á óvart. Það hefur verið vitað síðan hún og Gísli Marteinn gerðu uppreisn gegn Vilhjálmi,oddvita,sl. haust ,að þau stefndu bæði að leiðtogasæti og borgarstjórastól.
Gísli Marteinn sagði í kastljósi fyrir skömmu ,að það væri ekkert sjálfsagt, að Hanna Birna yrði borgarstjóri þó hún hefði skipað annað sætið. hann hefði sjálfur stefnt að leiðtogasæti í prófkjörinu og hlotið mjög mörg atkvæði í fyrsta sæti. Það er ljóst,að það stefnir í harðan slag,ef Vilhjálmur ákveður að stíga til hliðar.
Björgvin Guðmundsson