Fimmtudagur, 4. mars 2010
Samfylkingin setur atvinnumálin á oddinn í Reykjavík
Fulltrúaráðsfundur Samfylkingarinnar í Reykjavík samþykkti einróma framboðslista flokksins vegna komandi borgarstjórnarkosninga í síðustu viku. Nýtt fólk úr atvinnulífinu er áberandi í væntanlegum borgarstjórnarflokki, í sætunum sem raðast neðan þeirra sem þátt tóku í nýafstöðu prófkjöri. Og það er jafnframt áberandi hversu mikil breidd einkennir hópinn, fjölbreytt reynsla og fólk sem býr og þekkir til í öllum hverfum borgarinnar. .: það er komin tími til að Reykjavík taki forystu í endurreisninni.
Dagur B.Eggertsson skipar efsta sætið á framboðslista Samfylkingarinnar.
Gallup birti skoðanakönnun um fylgi við flokkanna í borginni. Sjálfstæðisflokkurinn lækkar - Samfylkingin hækkar, en báðir flokkar fengju 6 borgarfulltrúa gengi könnunin eftir. VG fengi þrjá menn kjörna. Það er því ljóst að það stefnir í spennandi kosningar í vor - þar sem enginn má láta sitt eftir liggja.
Línur í aðdraganda borgarstjórnarkosninga skírðust verulega á fundi borgarstjórnar í dag. Á næstu þremur árum hyggst meirihlutinn draga úr framkvæmdum um 70% og skera viðhald við nögl. Þetta þýðir framkvæmdastopp. Samfylkingin talar fyrir því að forgangsraða framkvæmdafé í þágu viðhaldsverkefna og halda uppi framkvæmdastigi í kreppunni. Við viljum atvinnumálin númer eitt.
Heildarfjárfestingar á vegum Reykjavíkurborgar næstu þrjú árin dragast saman um 70% samkvæmt framlagðri þriggja ára áætlun sem lögð var fram af borgarstjóra og meirihluta borgarstjórnar. Áætlunin felur nánast i sér framkvæmdastopp en heildarfjárfesting A-hluta borgarinnar á tímabilinu á að vera 6,6 milljarðar sem er minna en framkvæmt hefur verið á meðalári að undanförnu.
Þá vekur sérstaka athygli að í þriggja ára áætlun Orkuveitu Reykjavíkur er ekki gert ráð fyrir fjármögnun eða framkvæmdum við Hverahlíðarvirkjun en góð sátt hefur verið um þá framkvæmd frá umhverfissjónarmiðum. Skýringanna er að leita í því að meirihlutinn hefur keyrt fjárhag fyrirtækisins út á ystu nöf með því að fjórfalda skuldir þess á á fjórum árum, þrátt fyrir viðvaranir. Ljóst er að leita þarf nýrra leiða við fjármögnun Hverahlíðavirkjunar. Virkjunin er lykilforsenda fyrir orkuöflun til álvers í Helguvík.
Rétt er að minna á að til viðbótar niðurskurði í framkvæmdum hefur meirihlutinn þegar skorið niður í viðhaldi fasteigna úr 1.323 milljónum 2008 í 734 milljónir á yfirstandandi fjárhagsáætlun eða um nær 50%. Enn meiri niðurskurður er í viðhaldi í umhverfi borgarinnar eða úr 1.323 milljónum árið 2008 í 611 milljónir króna á yfirstandandi ári. Þá er ótalið að sumarstörfum fækkar hjá umhverfissviði og framkvæmdasviði auk íþrótta- og tómstundasviðs eða samtals um 300 störf.
Samfylkingin mun leggja sérstaka áherslu atvinnumál í aðdraganda borgarstjórnarkosninga og boðar breytingartillögur við framlagða þriggja ára áætlun þegar hún verður tekin til afgreiðslu í borgarstjórn 16. mars nk. Þá minnir Samfylkingin á ítrekaðar tillögur flokksins um átak í viðhaldsverkefnum, mótun atvinnustefnu, nýtingu á tómu húsnæði í þágu nýsköpunar og atvinnueflingar auk annarra tillagna flokksins um atvinnumál í borgarstjórn.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.