Auka þarf lýðræði við stjórnun lífeyrissjóða

Það er sorgleg staðreynd að lítil sem engin breyting hafi orðið á stjórnum sex stærstu lífeyrissjóða landsins eftir efnahagshrunið segir Eygló Harðardóttir þingmaður framsóknar. Val á stjórnarmönnum í lífeyrissjóðina sé ólýðræðislegt og það þurfi að endurskoða sem fyrst.

Fréttablaðið greinir frá því í dag að þrír af hverjum fjórum stjórnarmönnum í sex stærstu lífeyrissjóðum landsins sátu í stjórn sjóðanna fyrir hrun efnahagslífsins haustið 2008 og sitja þar enn. Aðeins rúmur fjórðungur stjórnarmanna hefur komið nýr inn í kjölfar hrunsins. Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir í viðtali við blaðið að nauðsynlegt sé að endurnýjun verði í stjórnum lífeyrissjóðanna.

 

Eygló Harðardóttir þingmaður Framsóknar segir sjóðina mjög valdamikla núna og hafa yfir miklum fjármunum að ráða. Hún segir sorglegt að stjórnir lífeyrissjóðanna hafi lítið breyst eftir hrun.

 

„Það þarf algjörlega að endurskoða hvernig er valið í stjórnir lífeyrissjóða. Það er mjög ólýðræðislegt hvernig staðið er að því vali núna. Við sem erum að borga í lífeyrissjóðina höfum ekkert um það að segja hverjir taka sæti í stjórnunum"

 

Eygló hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lífeyrissjóðunum, ásamt Samfylkingu og Hreyfingunni.

 

„Ég vil að þeir sem borga iðgjöld í lífeyrissjóði velji í beinni kosningu fulltrúana sem taka sæti í stjórninni. Það er einn maður eitt atkvæði. Ég vil líka að stjórnir sjóðanna endurspegli þá staðreynd að iðgjöldin koma frá launþegum og þetta séu fjármunir þeirra. Þannig að atvinnurekendur eigi að vera með minnihluta í stjórnum sjóðanna. Með þessu frumvarpi er líka verið að kalla eftir því að fá betri upplýsingar um nákvæmlega hvað er verið að gera með þessa peninga."

 

Hrafn Magnússon framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða vildi ekki tjá sig um þetta mál þegar fréttastofa leitaði eftir því. Hann sagði það ekki í höndum Landssamtakanna að velja í stjórnir lífeyrissjóðanna. Ekki náðist í Arnar Sigurmundsson formann samtakanna.

(visir.is)

 

Hér er um gott frumvarp að ræða,sem vonandi nær fram að ganga. Það er tími til kominn,að aukið lýðræði verði innleitt í stjórnir lífeyrissjóðanna.

Björgvin Guðmundsson

 

  •  
    •  

     

    •  
      •  
      •  
        •  

        « Síðasta færsla | Næsta færsla »

        Bæta við athugasemd

        Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

        Innskráning

        Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

        Hafðu samband