Þriðjudagur, 20. apríl 2010
Það dregur úr öskufalli
Gosmökkurinn yfir eldstöðvunum í Eyjafjallajökli hefur greinilega minnkað en öskufall er undir Eyjafjöllum. Að sögn Ómars Ragnarssonar, sem flaug yfir eldstöðvarnar í ljósaskiptunum kl. fimm í morgun, hefur gosið greinilega minnkað. Mökkurinn nær í 15 til 16.000 feta hæð. Miklar öskusprengingar eru í gígnum sem mynda 500 metra háa stróka og um kílómetra breiða. Eldur er ekki mikill í gígnum. Í morgun var öskufall undir vestanverðum Eyjafjöllum. Norðaustanátt og sandfok var á Markarfljótseyrum.
Veðurstofan gerir ráð fyrir öskufalli allt umhverfis Eyjafjallajökul í dag í hægri norðanátt. Síðdegis fer að rigna eftir að hann snýst í sunnanátt. Í kvöld verður vestanátt og færist þá öskufall til austurs. Norðanátt á morgun og öskufall til suðurs.
Stjórnstöð almannavarna segir að kleprar úr sprengingum í gígnum hafi náð um 1,5 - 3 km hæð í morgun. Sunnar náðu öskuskýin í um 5-6 km hæð. Ekki sé hægt að merkja hraunrennsli frá gosinu, hvorki til norðurs né suðurs. Ekki er hætta á hlaupi, vegna sírennslis vatns niður jökulinn.
Lögreglumenn á tveimur bílum vöktuðu svæðið undir Eyjafjöllum í nótt. Klukkan hálf sjö var 500 metra skyggni við Ásólfsskála.(ruv.)
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.