Dómsmálaráðherra verður að skipa í embætti dómara þann sem metinn er hæfastur

Alþingi samþykkti skömmu eftir miðnætti í gær frumvarp um breytingar á lögum um dómstóla. Dómsmálaráðherra er hér eftir óheimilt að skipa umsækjanda í embætti dómara sem ekki er metinn hæfastur af dómnefnd og er hann því bundinn af áliti nefndarinnar. Frá því má þó víkja, en aðeins ef Alþingi samþykkir tillögu dómsmálaráðherra.

Í frumvarpinu er jafnframt kveðið á um breytingar á skipan dómnefndarinnar sem fjallar um hæfni umsækjenda. Áður skipaði dómsmálaráðherra þrjá menn í dómnefnd, einn tilnefndan af Hæstarétti, annan af Dómarafélagi Íslands og þann þriðja tilnefndan af Lögmannafélagi Íslands.

Eftir breytingarnar munu hins vegar fimm manns skipa dómnefndina, tveir tilnefndir af hæstarétti, einn af dómstólaráði, einn af Lögmannafélaginu og sá fimmti af Alþingi.

Frumvarpið var samþykkt með 29 atkvæðum, tveir þingmenn Borgarahreyfingarinnar greiddu atkvæði gegn því en 12 þingmenn sjálfstæðisflokks og þingmaður Vinstri grænna sátu hjá við atkvæðagreiðslu.

Í nefndaráliti meirihluta Allsherjarnefndar segir að frumvarpið sé til þess fallið að styrkja sjálfstæði dómstólanna gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það sé mikilvægt til að unnt sé að skapa sátt í samfélaginu og koma til móts við gagnrýni sem komið hefur fram síðustu misseri vegna skipunar í embætti dómara.( visir.is)

Hér er um mikið framfaraspor að ræða og bindur vonandi endi það  að stjórnmálamenn skipi vini og vandamenn í dómarastöður og gangi framhjá hæfasta umsækjanda.

 

Björgvin Guðmundsson



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband