Þriðjudagur, 1. júní 2010
Hvernig þarf að breyta stjórnmálaflokkunum?
Nú er mikið rætt um breytingar á flokkum og flokkakerfi.Það er vinsælt að gagnrýna svokallaðan "fjórflokk"Og það er vinsælt að gagnrýna stjórnmálamenn og "stjórnmálastétt". Fólk kemur fram í umræðuþáttum og segir:Við erum bara venjulegir borgarar.Við erum ekki aldir upp á flokkunum.Við komum ekki úr ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkanna.Og þá á allt að vera gott,aðeinn ef menn hafi ekki verið of lengi í flokkunum.( Dagur B.Eggertsson kom beint úr læknisstarfi í pólitíkina)
En er þetta svona einfalt? Ég held ekki. Það hefur áður verið ráðist gegn flokkunum og beitt svipuðum aðferðum og Besti flokkurinn gerir. Vilmundur heitinn Gylfason gerði þetta.Hann boðaði nýja tíma í stjórnmálum.Hann kallaði þá skítapakk,sem unnu mikið í stjórnmálaflokkum.Þetta féll í góðan jarðveg þá og þetta fellur í góðan jarðveg núna.Þó hafði ekkert hrun átt sér stað þegar Vilmundur boðaði sínar kenningar.
Flokkarnir þurfa vissulega að breyta sér,aðlaga sig nýjum tímum.Þeir þurfa að opna sig meira,starfa meira fyrir opnum tjöldum. Flokkarnir þurfa að fara til fólksins úr því að fólkið kemur ekki til þeirra. Dagur B.Eggertsson og Samfylkingin gerði þetta nú fyrir kosningar. Dagur fór ásamt fleiri frambjóðendum, inn á heimili fólks og hélt þar fundi. Þannig færði hann starfið inn á heimilin. Ég gerði þetta árið 1970 þegar ég var í framboði fyrir Alþýðuflokkinn til borgarstjórnar.Þá hélt ég marga fundi á heimilum fólks. Það var þá nýjung. Ekkert er nýtt undir sólinni.
Það tekur tíma að breyta flokkunum og breyta stjórnmálastarfi.Og það þarf að breyta vinnubrögðum,afnema prókjör,taka upp persónukjör og banna styrki frá fyrirtækjum og fjársterkum einstaklingum til flokkanna.Það er mikið verk að vinna.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.