Starfsmannafélag ríkisstofnana bregst illa við hugmyndum Árna Páls

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, spyr hvort að Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra ætli í stríð við opinbera starfsmenn í tilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum nú síðdegis. Árni Páll sagði í viðtali við Fréttablaðið í morgun að ein aðferðin til sparnaðar fyrir ríkið sé að frysta laun opinberra starfsmanna í þrjú ár.

Árni Stefán segir að frysting launa opinberra starfsmanna gangi einfaldlega ekki upp sem sparnaðarleið. Nú þurfi að efla efnahagskerfið en hugmyndir félagsmálaráðherra gangi þvert á það. Frysting launa myndi kalla á samdrátt í hagkerfinu og það sé algjörlega út í hött að ræða launamál á þessum nótum, án allrar tengingar við aðra þróun í samfélaginu.

Hann segir það reyndar vekja furðu að þessi orð séu látin falla núna mitt í umræðum milli aðila um fjárlög næsta árs. Stéttarfélög opinberra starfsmanna og ríki séu nú að undirbúa umræðu um fjárlagagerð og svona hótanir séu alveg úr takti við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar.

„Það er á mörkunum að það sé hægt að taka mark á svona gaspri," segir Árni Stefán og bætir við að það sé með öllu forkastanlegt að nota orð eins og þjóðarsátt um frystingu launa opinberra starfsmanna.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að rétt sé að benda á að samkvæmt nýlegri frétt frá Hagstofu Íslands hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 1,3% að meðaltali á fyrsta ársfjórðungi 2010 en laun opinberra starfsmanna hækkuðu einungis um 0,3% á sama tíma. Ef teknar eru tölur frá fyrra ári má sjá að laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 4,4% en laun opinberra starfsmanna hækkuðu um 1,4% á sama tíma (visir.is)

Ég er ekki hissa á viðbrögðum formanns SFR við ummælum félagsmálaráðherra um frystingu launa ríkisstarfsmanna. Ummæli ráðherra  eru mjög óheppileg. En þó tillagan um frystingu launa mæti mikilli andstöðu er ástæða til þess að bregðast enn harðar við hugmyndum ráðherra um frystingu lífeyris,að ég tali nú ekki um hugmyndir um lækkun lífeyris.

Björgvin Guðmundsson 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband