Laugardagur, 26. júní 2010
Deilt um ESB á flokksráðsfundi VG
Flokksráð Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs tekur í dag afstöðu til þess hvort samþykkja eigi ályktun um að Ísland dragi umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka. Ályktunin verður flokknum erfið og má eiginlega segja að hann geti hvorki hafnað henni né samþykkt.
Heimildarmenn Fréttablaðsins segja að hafni flokkurinn ályktuninni muni þeir sem harðast eru á móti Evrópusambandinu líta á það sem stuðning við aðild. Verði ályktunin hins vegar samþykkt mun það fara illa í samstarfsflokkinn í ríkisstjórn; en í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að Ísland skuli sækja um aðildina. Stjórnarsáttmálinn var samþykktur í flokksráði á sínum tíma.
Katrín Jakobsdóttir, varaformaður flokksins og formaður flokksráðsins, segir að góður andi ríki á fundinum. Vissulega séu skoðanir skiptar, en það sé eðlilegt þegar kemur að jafn umfangsmiklum málum. Kosið verður um ályktanirnar í dag.
Þá er ljóst að breytingar á Stjórnarráðinu munu koma til umræðu, en skiptar skoðanir eru um þær innan flokksins.
Heimildarmenn blaðsins telja ólíklegt að til mikilla átaka muni koma á fundinum; stemningin sé í þá veru að fólk muni frekar semja sig í gegnum deilurnar. Hins vegar þykir líklegt að á næsta fundi flokksráðsins, sem verður í haust, muni ýmis deilumál verða útkljáð. -(visir.is)
Ef VG samþykkir að draga eigi umsókn um aðild að ESB til baka nálgast það yfirlýsingu um stjórnarslit þar eð það var í stjórnarsáttmálanum að sækja ætti um aðild.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.