Fimmtudagur, 2. desember 2010
Kostnaður við stjórnlagaþing 380 millj.kr.
Stjórnlagaþingið kemur saman í húsnæði sem áður hýsti Háskólann í Reykjavík, ekki síðar en 15. febrúar og kýs sér þá forseta sem stýrir störfum þingsins. Vinna þingsins verður ólík vinnu Alþingis að því leyti að það mun eingöngu fjalla um þetta eina mál. Það verða haldnir þingfundir en mesta vinnan fer fram í þremur nefndum sem fjalla um afmarkaða hluta stjórnarskrárinnar. Ein fjallar um undirstöður stjórnskipunarinnar, önnur um alþingi og stjórnsýsluna og þriðja um kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur.
Tíu til 15 starfsmenn verða væntanlega ráðnir til stjórnlagaþings, þar á meðal sérfræðingar til að starfa með nefndum þingsins. Mikil áhersla er lögð á gegnsæi í störfum þingsins.
Allar umræður á þingfundum verða sendar út á vef stjórnlagaþings. Fundargerðir nefndanna verða birtar á vefnum sem og öll erindi og skjöl sem berast nefndunum.
Forsætisnefnd Alþingis setur stjórnlagaþingi starfsreglur, sem þingið getur breytt í samráði við Alþingi. Fulltrúar á stjórnlagaþingi eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína. Verði menn ósammála um einstök atriði í frumvarpi að stjórnarskrá ræður meirihluti stjórnlagaþingsmanna för.
Þau sem setjast á stjórnlagaþing fá þingfararkaup þann tíma sem þingið starfar, það eru fimmhundruð og tuttugu þúsund krónur á mánuði. Forseti stjórnlagaþings fær sömu laun og forseti Alþingis.
Mánaðarlaun fulltrúa á stjórnlagaþingi verða 520.000 krónur en laun
þingforsetans 855.000 krónur á mánuði.(ruv.is)
Þetta er talsverður kostnaður við stjórnlagaþingið.En lýðræðið kostar peninga.Við verður að verja nokkrum fjármunum til þess að endurbæta lýðræðið.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.