Sunnudagur, 3. apríl 2011
Eigum við að borga Icesave?
Mál varðandi Icesave hafa nú skýrst mikið. Umræður í fjölmiðlum hafa verið fremur málefnalegar og innlegg sérfræðinga hafa hjálpað mikið.Í dag var Lee Bucheit, formaður íslensku samninganefndarinnar,gestur Egils Helgasonar í Silfri Egils.Bucheit er mjög skýr í framsetningu og það var mikið gagn af því að hlusta á hann.
Fyrst eftir hrun var ég þeirrar skoðunar,að íslenska ríkið ætti ekki að greiða neitt vegna Icesave.Í hlut ætti einkabanki,sem ríkið bæri enga ábyrgð á.En ég snérist. Ég komst á þá skoðun,að íslenska ríkið bæri hér vissa ábyrgð,þar eð eftirlitsstofnanir með bönkum og þar með Icesave hefðu brugðist.Einnig taldi ég,að betra væri að semja við grannþjóðir okkar um Icesave en að hafa það óafgreitt árum saman og standa í ófriði við grannþjóðir. Sá hagstæði samningur sem Bucheit og samninganefnd hans náði við Breta og Hollendinga hjálpar okkur að fallast á Icesave.Nú er talið að 32 milljarðar geti fallið á ríkið. Það getur orðið minna og það getur orðið meira. En þó þessi upphæð sé há er hún minni en gjaldþrot Seðlabankans kostaði okkur,hún er mun minni en endurreisn bankanna hefur kostað okkur, hún er einnig minni en endurreisn Íbúðalánasjóðs kostar okkur og þannig mætti áfram telja. Allt þetta,sem ég hefi hér talið upp er afleiðing hrunsins.Icesave reikningurinn er hvergi nærri stærsti reikningurinn,sem fellur á okkur vegna hrunsins.Ég tel,að það verði Íslandi til góðs,ef Icesave verður samþykkt n.k. laugardag.Við getum þá farið að snúa okkur að öðrum verkefnum,ef varða endurreisn og uppbyggingu þjóðfélagsins.Icesave er búið að tefja okkur nægilega mikið og valda okkur skaða.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.