Katrín Júl.: Ekki unnt að sitja undir árásum SA

Það er ekki hægt að sitja undir þessu lengur, þegar maður er í góðri trú og góðri samvinnu við aðila á vinnumarkaði um góð mál til uppbyggingar í samfélaginu, að sitja linnulaust undir svona árásum frá þeim,“ segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra um ásakanir forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins (SA) um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar.

Vilmundur Jósefsson, formaður SA, sagði á fundi samtakanna í gær að ríkisstjórnin hefði ekki staðið við eigin yfirlýsingar í tengslum við stöðugleikasáttmálann og því væri henni ekki treystandi lengur.

Katrín segir forsvarsmenn SA aldrei hafa lagst jafn lágt og með þessum ummælum sínum. „Þegar formaður SA heldur því fram að ekki hafi verið staðið við neitt í yfirlýsingu okkar frá því í vor, í tengslum við kjarasamning, þá eru það hrein og klár ósannindi og hann veit það vel.“

Katrín segir öll verkefni umræddrar yfirlýsingar ýmist vera í framkvæmd eða lokið, að undanskildum ákveðnum vegaframkvæmdum, en mótmælalistar vegna vegtolla hafi tafið þær.

Hún bendir á að framkvæmdir séu í gangi í fjórum virkjunum sem samanlagt muni framleiða 345 megavött af orku. Það jafngildi hálfri Kárahnjúkavirkjun, en framleiðslugeta hennar nemur 690 MW.

Virkjanirnar sem Katrín vísar til eru Búðarhálsvirkjun (80 MW) sem sé komin í framkvæmd, fimmti áfangi Hellisheiðarvirkjunar (85 MW) sem verði tekinn í gagnið um helgina og virkjanir við Bjarnarflag (90 MW) og Þeistareyki (90 MW), en búið sé að bjóða út hönnun á mannvirkjum við þær virkjanir.

„Það hentar þeim [forsvarsmönnum SA] ekki að sjá þessar staðreyndir vegna þess að þeir eru komnir á bólakaf í flokkapólitík. Þeir geta ekki unað því að eiga ekki lengur nein handbendi inni í ríkisstjórn.“

Katrín segir forsvarsmenn SA blindaða af flokkapólitík og geta ekki tínt til það sem þó er verið að gera. „Það getur ekki þjónað hagsmunum þeirra umbjóðenda, ég bara trúi því ekki. Við í iðnaðarráðuneytinu erum í mjög góðu samstarfi við ýmis aðildarsamtök þeirra að miklum framfaramálum. Ég trúi því ekki að þeir hafi talað í þeirra
nafni.“(visir,is)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband