Hækka þarf verulega lágmarkslaun verkafólks og lífeyri aldraðra og öryrkja

Þingi Alþýðusambands Íslands er tiltölulega nýlokið. ASÍ kaus sér nýja forustu. Gylfi Arnbjörnsson lét af störfum sem forseti eftir tíu ára starf í því embætti en áður hafði hann verið starfsmaður sambandsins. Gylfi var öflugur forseti og lét mikið að sér kveða, en síðustu árin hlaut hann talsverða gagnýni fyrir að vera ekki nógu róttækur í baráttu fyrir hærra kaupgjaldi launafólks. Nýir verkalýðsleiðtogar stóðu einkum fyrir þessari gagnýni og áttu stóran þátt í að Gylfi dró sig í hlé og gaf ekki kost á sér til forsetaembættis á ný á síðasta þingi. Í stað Gylfa var Drífa Snædal kosin forseti ASÍ. Þau áttu það sameiginlegt, Gylfi og Drífa, að bæði höfðu þau verið starfsmenn verkalýðshreyfingarinnar áður en þau voru kosin til æðstu metorða í hreyfingunni.

Verður stefna Drífu róttækari?

Það verður fylgst vel með því hvort nýr forseti ASÍ breytir stefnu ASÍ í kjaramálum, þ.e. hvort hún tekur upp róttækari stefnu í þeim málum en Gylfi hafði. Nokkru áður en þing ASÍ var haldið hafði náðst samkomulag í Starfsgreinasambandinu um launakröfur verkalýðsfélaganna í kjaradeilu þeirri sem fram undan er. Sú kröfugerð er mjög hliðstæð þeirri kröfugerð sem lögð var fram 2015. Krafan nú er hækkun í  425 þús. kr. á mánuði á þremur árum. Brúttólaun eru í dag 300 þús. kr. á mánuði. Fyrsta hækkun taki gildi um næstu áramót, eða um 42 þús. kr. Það er 14% hækkun. (Til samanburðar má geta þess að fyrsta hækkun í maí 2015 var 14,5%.) Laun hækki síðan ári síðar um 14% á ný og tveimur árum síðar um önnur 14% en þá verði þau komin í 425 þús. kr. á mánuði (fyrir skatt). Margir fulltrúar atvinnurekenda og hægrimanna telja þessar kröfur alltof háar og segja að atvinnulífið standi ekki undir þeim. En það sama var sagt 2015. Þá var sagt að óðaverðbólga mundi hljótast af svo mikilli hækkun og atvinnulífið ekki rísa undir henni. En engin verðbólga hlaust af hækkuninni og atvinnulífið hefur dafnað vel síðan.

Nú er eftir að sjá hvernig semst á milli verkafólks og atvinnurekenda. Ríkisstjórnin hefur tekið sér stöðu með atvinnurekendum. Forsætisráðherra fékk Gylfa Zoëga hagfræðing til þess að meta hvað svigrúm atvinnulífsins fyrir launahækkanir væri mikið. Hann sagði 4%. Í fjárlagafrumvarpinu er þó aðeins gert ráð fyrir 3,4% hækkun. Ljóst er að forsætisráðherra berst gegn launahækkunum umfram mat Gylfa Zoëga og margt bendir til þess að fjármálaráðherra vilji halda launahækkunum enn meira niðri (sbr. fjárlagafrv.) Það verður því á brattann að sækja hjá Starfsgreinasambandinu og verkalýðsfélögunum.Þau fara með saningsumboðið. Þau eiga ekki aðeins í höggi við atvinnurekendur heldur einnig ríkisstjórnina. Það fer ekki á milli mála að ríkisstjórnin vill heldur veita verkafólki félagsmálapakka. Verkalýðshreyfingin vill fá skattaívilnanir, t.d. skattfrelsi lægstu launa (300 þús. á mánuði) og ráðstafanir í húsnæðismálum sem hald er í. Vandinn er aðeins sá hvernig tryggja á að pappírar frá ríkisstjórninni um ráðstafanir í þessum málum og fleirum haldi. Síðan þarf auk þess að lyfta lágmarkslaunum svo unnt sé að framfleyta sér á þeim. Það er ekki unnt í dag. Lágmarkslaun eftir skatt eru í dag 235 þús. kr. á mánuði. Þetta er ótrúleg tala. Engin leið er að lifa af þessari hungurlús. Ég heyrði að Drífa Snædal, nýr forseti ASÍ, sagði í umræðum nokkru fyrir þing ASÍ að engin leið væri að lifa af 300 þús. kr. á mánuði fyrir skatt; það væri ef til vill mögulegt að lifa af 425 þús. kr. á mánuði fyrir skatt. Ég er sammála því. Það er lágmark. Margir eldri borgarar telja að laun láglaunafólks séu eldri borgurum óviðkomandi. En það er ekki rétt. Hagsmunir eldri borgara og lægst launuðu launþeganna eru samofnir. Nokkrir stjórnmálaflokkar vilja að hækkanir á lífeyri aldraðra og öryrkja séu tengdar launahækkunum láglaunafólks. Þegar laun hækki eigi lífeyrir að hækka en ekki meira en launin. Samkvæmt þessu er ljóst að það skiptir miklu máli fyrir eldri borgara hvernig launamálin leysast á almennum markaði. Ef launin hækka verulega má búast við að lægsti lífeyrir hækki verulega. Ef launahækkanir verða mjög litlar, kjarabætur fremur veittar í formi félagslegra ráðstafana, mun lífeyrir einnig hækka mjög lítið. Um stefnuna í þessu efni er nú tekist milli aðila vinnumarkaðarins og í viðræðum þeirra við ríkisvaldið. Raunhæfar ráðstafanir í skatta- og   húsnæðismálum geta gagnast þessum aðilum. Lágmargslaun þurfa að hækka það mikið, að þeir lægst launuðu geti lifað mannsæmandi lífi.Það er ekki unnt í dag.Lífeyrir þarf að vera það hár,að eldri borgarar geti lifað með reisn síðustu æviárin og geti veitt sér eitthvað.Öryrkjar  þurfi ekki að kviða morgundeginum.

 

Björgvin Guðmundsson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband