"Réttlætinu verður ekki frestað"

Ríkisstjórn undir forustu VG er eins árs um þessar mundir.Auk VG eru í stjórninni Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur.Ríkisstjórnin var mynduð í lok nóvember 2017.Margir verkalýðssinnar,aldraðir og öryrkjar bundu miklar vonir við forustu VG fyrir ríkisstjórninni, þar eð VG gaf kosningaloforð fyrir kosningar 2017 um að bæta ætti kjör aldraðra með hækkun ellilífeyris. Og VG er afsprengi Alþýðubandalagsins, sem var verkalýðsflokkur. En þessir aðilar  hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum.VG eða rikisstjórnin hefur ekki hækkað lífeyri um eina krónu að eigin frumkvæði.Sú litla hækkun,sem varð á lífeyri um síðustu áramót var ákveðin af ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks 2016.Verkalýðshreyfingin samdi 2015  um hækkun lægstu launa í  300 þúsund á 3 árum og Landssamband eldri borgara fór fram á hliðstæða hækkun lífeyris 2016. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks varð við því eða taldi sig verða við því 2016.Lífeyrir átti að hækka í 300 þusund 2017.En   að eigin frumkvæði hefur VG ekkert gert til þess að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja ennþá.

 

Lífeyrir aldraðra og öryrkja mjög lágur

 

 Lífeyrir aldraðra og 0ryrkja frá almannatryggingum er í dag 204 þúsund kr á mánuði eftir skatt  hjá giftum og sambúðarfólki (eingöngu lífeyrir frá TR) og 243 þúsund kr á mánuði eftir skatt hjá einhleypym (eing.lífeyrir frá TR).

Fyrir skatt er lífeyrir sem hér segir: Sambúðarfólk og giftir: 239 þúsund  á mánuði,einhleypir 300 þús.á mánuði.Einhleypir aldraðir eru um 25% svo loforðið um 300 þúsund á mánuði nær  aðeins til lítils hluta eldri borgara Og sama er að segja um öryrkja.Aðeins 29% þeirra fær 300 þúsund á mánuði; hinir fá 239 þúsund á mánuði.

 

Ráðgerð hækkun lífeyris minni en verðbólgan!

 

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 3,4% hækkun lífeyris 2019.Bankarnir spá 3,5% verðbólgu næsta ár svo ekki er verið að lofa neinni raunhækkun.3,4% dugar ekki   einu sinni fyrir verðbólgunni.

 

Hvað þarf lífeyrir að vera  mikill til þess að dugi til mannsæmandi lífs; eldri borgarar geti átt áhyggjulaust ævikvöld og öryrkjar þurfi ekki að kvíða morgundeginum?Ég mun nú svara því. Að mínu mati þarf lífeyrir þeirra,sem eingöngu hafa lífeyri frá almannatryggingum að vera 420 þúsund kr fyrir skatt á mánuði, 311 þúsund  kr.eftir skatt.Ég tel þetta algert lágmark til þess að hafa fyrir framfærslukostnaði og til þess að eldri borgarar geti gefið barnabörnum og barnabarnabörnum smágjafir.Það er ekki forsvararlegt að skammta eldri borgurum minna en þetta,  Ísland hefur efni á þessu.-Afgreiðsla meirihluta fjárlaganefndar á fjárlagafrumvarpi gefur ekki góðar vonir.Meirihlutinn leggur til,að framlög til öryrkja verði skorin niður um 1,1 milljarð.Vonir stóðu til,að framlög til öryrkja yrðu aukin,m.a. til þess að afnema krónu móti krónu skerðinguna.-Þær vonir brugðust.Ríkisstjórnin stendur á bak við afgreiðslu meirihlutans.

 

Margir skrifuðu undir kröfu um bætt kjör!

 

Nýlega var efnt til undirskriftasöfnunar til stuðnings kröfu eldri borgara og öryrkja um bætt kjör.Einn eldri borgari,kona yfir áttrætt,stóð fyrir undirskriftasöfnuninni.Á 6 vikum skrifuðu tæp 8000 undir.Það var stærsta undirskriftasöfnun á vegum þjóðskrár. Upphafsmaður og ábyrgarmaður undirskriftasöfnunarinnar var Erla Magna Alexandersdóttir.Hún gerði þetta nokkurn veginn ein síns liðs; hafði ekkert félag eða fyrirtæki á bak við sig,ekkert fjármagn en samt skrifuðu svona margir undir.Það sýnir,að eldri borgarar,öryrkjar og stuðningsmenn  þeirra vilja knýja fram kjarabætur enda kjörin hjá þeim lægst launuðu óásættanleg.

 

"Réttlætinu verður ekki frestað"

 

 Væntanlega tekur Katrín Jakobsdóttir,forsætisráðherra sig á í kjaramálum aldraðra og öryrkja.Hún hefur ekki gert það enn.En það hlýtur að vera orðið ljóst ráðherrum og þingmönnum,að  204-243 þúsund kr eftir skatt á mánuði dugar ekki til framfærslu, þegar ekki er um aðrar tekjur að ræða.Katrín verður að hafa forustu fyrir því í ríkisstjórninni,að þessi smánarkjör verði leiðrétt.Það þolir enga bið.Réttlætinu verður ekki frestað. 

Björgvin Guðmundsson

 

Mbl. 24nóv 2018

 

 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband