Miðvikudagur, 26. ágúst 2009
Sigmundur Ernir hafði fengið sér léttvín með mat
Sigmundur Ernir Rúnarsson, alþingismaður, segist á heimasíðu sinni hafa fengið sér léttvín með kvöldmatnum síðastliðið fimmtudagskvöld en ekki fundið til áfengisáhrifa í þingumræðu síðar um kvöldið. Eftir á að hyggja hafi það þó verið mistök að mæta í þingið eftir að hafa bragðað áfengi og biðst Sigmundur Ernir velvirðingar á því.
Að kvöldi fimmtudagsins 20. ágúst sl. flutti ég ræðu á Alþingi um Icesave-málið. Svo sem sjá má af vefupptökum Alþingis var ræðan fyrirfram skrifuð og vel undirbúin. Fyrr um daginn hafði ég tekið þátt í golfmóti og setið kvöldverð að því loknu, þar sem ég fékk mér léttvín með matnum. Áður en kvöldverði lauk yfirgaf ég samkvæmið til þess að vera við umræðu í þinginu. Ég flutti ræðu mína seint um kvöldið og tek fúslega fram að þar var ég þreyttur og reiður vegna linnulausra frammíkalla stjórnarandstöðu, en vil leggja áherslu á að ég kenndi ekki áhrifa af því víni sem ég hafði drukkið fyrr þennan dag. Þess vegna hef ég svarað því neitandi þegar það hefur verið borið upp á mig að ég hafi verið ölvaður þetta kvöld.
Eftir á að hyggja voru það engu að síður mistök af minni hálfu að mæta í þingið eftir að hafa bragðað áfengi. Á því biðst ég velvirðingar.
Að ósk eins þingmanns úr stjórnarandstöðu verður þetta mál til umfjöllunar í forsætisnefnd og mun ég bíða afgreiðslu hennar áður en ég tjái mig frekar um málið," segir Sigmundur Ernir á heimasíðu sinni.(mbl.is)
Hörð hríð hefur verið gerð að Sigmundi Erni vegna umræddrar ræðu hans.Eru sumir mjög harðorðir af þeim sökum. Ég er sammála því,að þingmenmn flytji ekki ræður undir áhrifum áfengis.Ég hygg þó að við umræddan ræðuflutning hafi þreyta haft eins mikil eða meiri áhrif en neysla léttvínsins.Hér áður voru þingmenn oft við skál og ekki gert mál úr því.En það er nýtt,að þingmenn í þessu tilviki stjórnarandstaðan noti tilvik sem þetta til þess að gera árás á þingmann. En tímarnir eru greinlega breyttir. Sigmundur Ernir hefur gert hreint fyrir sínum dyrum. Hann hefur beðist afsökunar og þar með er málinu lokið.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.