Fimmtudagur, 8. mars 2007
Makkað um auðlindina
Makkað um auðlindina
Stjórnarflokkarnir róa nú lífróður til þess að bjarga ríkisstjórninni en líf hennar hangir á bláþræði vegna auðlindamálsins.Og um hvað er deilt í auðlindamálinu? Jú,það er deilt um það hvort standa eigi við það ákvæði stjórnarsáttmálans að setja í stjórnarskrá það lagaákvæði að auðlindin í sjónum sé sameign þjóðarinnar. Þarf að deila um það? Ef stjórnarflokkarnir væru heilir í málinu þyrfti ekki að deila um það. En báðir flokkarnir sitja á svikráðum við þetta stefnumál sitt. Þeir segja,að þjóðin eigi auðlindina en vilja ekki standa við það þegar til kastanna kemur. Margir Framsóknarmenn vilja þó standa við þetta ákvæði en ef það kostar ráðherrastólana renna á þá tvær grímur. En um hvað snýst deila stjórnarflokkanna? Hún snýst um það hvernig megi þynna út auðlindaákvæðið án þess að allt verði vitlaust í þjóðfélaginu og án þess að stjórnarandstaðan rísi upp á afturlappirnar.Íhaldið liggur nú yfir orðalagi auðlindaákvæðisins og reynir að þynna það sem mest út þannig að ekki verði unnt að skilja það þannig, að útgerðarmenn eigi ekki sjávarauðlindina og þar með kvótana heldur þjóðin. Ef ákvæðið verður þynnt of mikið út leggst stjórnarandstaðan gegn því en ef auðlindaákvæðið verður skýrt eins og í lögunum óttast ríkisstjórnin um afdrif fiskveiðistjórnarkerfisins. Stjórnarflokkarnir makka því um auðlindina og reyna að finna útfærslu sem þýði helst ekki neitt.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.