Skrípaleikur um stjórnarskrá

 

Auðlindaákvæði í stjórnarskrá var rætt í kastljósi sjónvarpsins í gær. Þingmennirnir Össur Skarphéðinsson og Einar OddurKristjánsson tókust á um málið. Össur sagði, að mikið væri af mótsögnum og þverstæðum í frumvarpi ríkisstjórnarinnar að  stjórnskipunarlögum.Frumvarpið væri haft þannig, að Framsókn gæti haft eina  túlkun á frumvarpinu og Sjálfstæðisflokkurinn aðra. Einar Oddur sagði, að frumvarpið væri marklaust. Þetta væri flutt til  þess að þóknast Framsókn svo þeir gætu ekki sagt, að Sjálfstæðiflokkurinn hefði ekki staðið við ákvæði stjórnarsáttmálans í þessu efni.

 Ríkisstjórninni ekki alvara  

 Það kom skýrt fram í umræddum kastljósþætti, að  umfjöllum stjórnarflokkanna um auðlindaákvæðið hefur verið alger skrípaleikur. Ríkisstjórninni var aldrei nein alvara með það að setja skýr ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindinni í sjónum í stjórnarskrá.Hugmynd ríkisstjórnarinnar var alltaf sú að hafa ákvæðið loðið og óljóst svo túlka mætti það sitt á hvað.En hverju er þjóðin betur sett með óljósu ákvæði í stjórnarskrá um náttúruauðlindir og þar á meðal um fiskinn í sjónum.Hún er engu betur sett.Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipunar landsins og stjórnmálamenn hafa ekki leyfi til þess að draga hana niður á lágt plan og gera hana að pólitísku bitbeini í einhverjum átökum þeirra í milli.

 Forkastanleg vinnubrögð 

  Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar við undirbúning að breytingu á stjórnarskránni eru forkastanleg. Það var ekki einu sinni rætt við stjórnarandstöðuna. Hún heyrði fyrst um tillöguna um breytingu  í fjölmiðlum! Það hefur verið venja að reyna að skapa sem breiðasta samstöðu um breytingar á stjórnarskrá. Sú venja var rofin.Þessi vinnubrögð greiða ekki fyrir framgangi málsins.

 

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband