Mánudagur, 12. mars 2007
Enginn ávinningur af stjórnarskrárbreytingunni
Frumvarp tveggja ráðherra um breytingu á stjórnarskránni verður tekið fyrir á alþingi í dag.Það er óvenjulegt, að tillaga um breytingu á stjórnarskránni sé flutt sem þingmanna -eða ráðherrafrumvarp. En þetta var gert vegna ágreinings í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og vegna fljótræðis formanna stjórnarflokkanna en þeir lögðu meiri áherslu á að hespa málinu af en að vanda vinnubrögðin og ná sem mestri samstöðu.Tillagan um breytingu á stjórnarskránni er svohljóðandi:
:Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila samkvæmt 72. grein. Ber að nýta þær til hagsbóta þjóðinni, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ekki skal þetta vera því til fyrirstöðu, að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum.
Er breytingin marklaus?
Það eru mjög skiptar skoðanir um það meðal lögfræðinga og stjórnmálamanna hvort þessi nýja grein sé skýrari eða segi meira en ákvæðið í lögum um fiskveiðistjórnun en þar segir, að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar.Sumir lögfræðingar segja,að nýja ákvæðið sé marklaust. Í tillögunni að breytingu á stjórnarskrá er sameign þjóðarinnar orðin þjóðareign.Ekki verður séð hvað felst í þeirri breytingu. En gallinn á tillögu formanna stjórnarflokkanna er sá, að það sem sagt er í greininni er jafnóðum tekið til baka. Það verður því ekki séð, að neinn ávinningur sé að því að láta svo loðið orðalag í stjórnarskrá.
Festum ekki ranglátt kerfi í sessi
Það sem vantar í tillöguna eru skýrari ákvæði um það, að ekki megi selja veiðiheimildirnar og að ríkið geti hvenær sem er afturkallað þær.Það má alls ekki samþykkja neina breytingu, sem festir hið rangláta kvótakerfi í sessi.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.