Morgunblaðið ræðst á Samfylkinguna

 

 

Morgunblaðið tekur í Reykjavíkurbréfi í dag til við fyrri iðju og ræðst  á Samfylkinguna um leið og blaðið hælir Vinstri grænum á hvert reipi.Segir blaðið nú, að Vinstri grænir hafi yfirgefið vinstri stefnu og séu nú einungis góður umhverfisflokkur. Er ljóst hvert blaðið stefnir með þessum málflutningi: Að búa sjálfstæðismenn undir að samþykkja Vinstri græna  sem samstarfsaðila, ef Framsóknarhækjan brestur eins og allt bendir til og finna þarf nýja hækju fyrir Sjálfstæðisflokkinn við stjórnarmyndun.Síðan  kemur Mbl. með alls konar sleggjudóma og slúður um Samfylkinguna svo sem, að Samfylkinguna skorti málefnalega sannfæringu  og að ágreiningur sé í forustu Samfylkingarinnar.Þetta er áróður sem er  búinn til  í Valhöll og á Mbl. en enginn fótur er fyrir. Samkomulag  er mjög gott í Samfylkingunni.Það er áreiðanlega betra en í Sjálfstæðisflokknum enda muna menn að gerður var aðsúgur að Birni Bjarnasyni ráðherra í prófkjörinu  vegna þingkosninganna og frá því að Davíð Oddsson lét af formennsku hefur arftakinn verið að hreinsa stuðningsmenn Davíðs burt úr áhrifastöðum í flokknum  svo sem fyrrum framkvæmdastjóra, Kjartan Gunnarsson.Hann var látinn fara.Samfylkinguna skortir ekki  málefnalega sannfæringu og það er ósmekklegt og beinlínis rangt hjá  Mbl. að halda því fram, að  Samfylkingin hafi ekki barist fyrir jöfnuði, eins og blaðið segir. Það gengur eins og rauður þráður gegnum öll stefnumál Samfylkingarinnar að  berjast eigi gegn ójöfnuði og misskiptingu og stuðla að jöfnuði í þjóðfélaginu. Barátta fyrir jöfnuði  var stórt atriði í ræðu Ingibjargar Sólrúnar á landsfundi Samfylkingarinnar.

 Reykjavíkurbréf vitnar í ritdóm Jóns Baldvins um bók Steingríms J.Sigfússonar  í Mbl.  en þar segir Jón, að ef  kosningaúrslitin verði eins og skoðanakannanir  hafi sameining jafnaðarmanna mistekist. Reykjavíkurbréfið  breytir ummælum Jóns Baldsins á þann  veg, að hann hafi sagt, að sameining jafnaðarmanna hafi þegar mistekist eins og búið væri að kjósa.Síðan spinnur Reykjavíkurbréfið langan vef  byggðan á hinum breyttu ummælum.Í hugskoti höfundar Reykjavíkurbréfsins leysist Samfylkingin upp og Alþýðuflokkurinn endurlífgast og ýmsar aðrar hræringar verða í pólitíkinni, allar í samræmi við óskhyggju  Reykjavíkurbréfsins.

  Stjórnmálaflokkar hafa oft orðið fyrir ágjöfum og rétt sig síðan við á ný. Alþýðuflokkurinn varð fyrir mörgum áföllum en forustumenn flokksins lögðu aldrei árar í bát. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig orðið fyrir miklum áföllum, síðast í þingkosningunum 2003, er fylgi flokksins hrapaði í 33 % vegna sóknar Samfylkingarinnar, sem þá fékk 31%. Sjálfstæðisflokkurinn  varð fyrir miklu áfalli þegar Borgaraflokkurinn var stofnaður og fylgið fór þá talvert niður fyrir 30% í þingkosningum..

  Nú er verið að leggja út af skoðanakönnunum en ekki kosningaúrslitum..Enginn  veit enn hvað Samfylkingin fær mikið fylgi í næstu þingkosningum. Hún getur stórbætt stöðu sína enn. Enginn flokkur hefur undirbúið sig eins vel málefnalega og Samfylkingin. Hún hefur mótað skýra stefnu í öllum helstu málaflokkum, nú síðast í efnahagsmálum með vandaðri vinnu. Áður hafði flokkurinn lagt mikla vinnu í nýja  stefnu í umhverfismálum svo og varðandi málefni barna. Ég hefi þá  trú,að þegar kjósendur kynnast stefnu Samfylkingarinnar í þessum málum og varðandi endurreisn velferðarkerfisins muni þeir snúa sér í ríkum mæli að Samfylkingunni sem málsvara jafnaðarstefnunnar á Íslandi. .

 Björgvin  Guðmundsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sagan sýnir okkur líka það að fylgi Framsóknarmanna reynist mun meira í kosningum en í skoðanakönnunum.  Sama stjórn áfram og vonandi getum við farið að einbeita okkur að alvörumálum en ekki friðun á mosa og grjóti.

Svavar Friðriksson (IP-tala skráð) 15.4.2007 kl. 10:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband