Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Samfylkingin of lin við íhaldið
Ýmsir velta því fyrir sér hvers vegna Samfylkingin fái minna í skoðanakönnunum nú en
fyrir 4 árum.Að mínu mati eru tvær skýringar á þessu: 1) Vegna bylgjunnar í umhverfismálum, sem riðið hefur yfir landið. VG hefur grætt á henni. 2) Vegna þess,að Samfylkingin hefur farið mjúkum höndum um Sjálfstæðisflokkinn í þessari kosningabaráttu.
Í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar 2003 gagnrýndi Samfylkingin íhaldið harðlega, m.a. fyrir valdníðslu og misbeitingu valds og misskiptinguna í þjóðfélaginu. Samfylkingin rak þá harða kosningabaráttu gegn íhaldinu og það fór ekki framhjá neinum, að Samfylkingin var höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins.Það var þá mikið talað um turnana tvo í pólitíkinni,Samfylkinguna og íhaldið. Nú hafa mál þróast þannig, að margir líta á VG, sem aðalandstæðing Sjálfstæðisflokksins.Samfylkingin hefur ekki notið góðs af bylgunni í umhverfismálum. Þó hefur flokkurinn breytti stefnu sinni í umhverfismálum og lagt fram nýja og mjög skynsamlega stefnu í þeim málum,Fagra Ísland. Leiðin til þess að stórauka fylgi Samfylkingarinnar nú er að kynna betur Fagra Ísland og auka verulega gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn. Þar er af nógu að taka. Það hefur ekkert breytst varðandi Sjálfstæðisflokkinn á þeim 4 árum sem liðin eru frá síðustu kosningum. Valdníðsla og misbeiting valds hefur haldið áfram. Ójöfnuður og misskipting í þjóðfélaginu hefur aukist áfram. Velferðarkerfið hefur drabbast niður. Aldraðir og öryrkjar eru afskiptir og hafa verið sviknir um kjarabætur, sem þeim var lofað. Íhaldið er nú korteri fyrir kosningar að sletta einhverri hungurlús í eldri borgara. Tillögur Samfylkingarinnar um endurbætur í þágu aldraðra og öryrkja og í þágu barna eru þær róttækustu sem nú hafa komið fram.
Björgvin GuðmundssonFlokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.