Fimmtudagur, 19. apríl 2007
Samfylkingin vill bæta velferðarkerfið
Í alþingiskosningunum í næsta mánuði verður kosið um velferðarkerfið. Stjórnarflokkarnir,Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, hafa stórskaðað velferðarkerfið á 12 ára valdatímbili.Þegar almannatryggingar komust á hér á landi 1946 fyrir tilstuðlan Alþýðuflokksins var Ísland í fremstu röð í heiminum að því, er velferðarkerfi varðaði. En í dag hefur Ísland dregist aftur úr öðrum þjóðum í þessum efnum og er með versta velferðarkerfið á Norðurlöndum.Ójöfnuður hefur stóraukist hér á landi síðustu 12 árin. Samfylkingin vill bæta velferðarkerfið og auka jöfnuð á ný í þjóðfélaginu. Kjör aldraðra verði stórbætt Samfylkingin vill stórbæta kjör aldraðra. Undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur og Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur hefur Samfylkingin flutt á þingi margar tillögur um bætt kjör aldraðra, um afkomutryggingu aldraðra og um nýskipan í lífeyrismálum aldraðra. Þessar tillögur gera ráð fyrir, að lífeyrir aldraðra verði strax stórhækkaður, dregið verði verulega úr tekjutengingum og eldri borgurum heimilað að vinna fyrir 100 þúsund krónum á mánuði án þess að það skerði lífeyri frá almannatryggingum.Framvegis hækki lífeyrir aldraðra síðan í samræmi við hækkun á framfærslukostnaði samkvæmt könnun Hagstofu Íslands. Í dag eru neysluútgjöld einstaklinga krónur 210 þúsund á mánuði samkvæmt athugun Hagstofu Íslands. Þá vill Samfylkingin gera stórátak í vistunar-og hjúkrunarmálum aldraðra.400 manns eru nú á biðlista eftir hjúkrunarrými. Samfylkingin vill leysa vanda þessa fólks strax. Stór hópur aldraðra verður að búa við margbýli á sjúkrastofum.Allir eldri borgarar eiga að vera á einbýlisstofum,nema þeir búi með maka sínum. Unga Ísland Jafnframt átaki í málefnum aldraðra vill Samfylkingin stórbæta aðstöðu barna. Samfylkingin hefur birt nýja stefnuskrá í málefnum barna, Unga Ísland. Þar er gert ráð fyrir, að dregið verði úr tekjutengingum barnabóta, að tannvernd barna verði aukin með ókeypis eftirliti og forvarnaraðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna. Námsbækur í framhaldsskólum verði nemendum að kostnaðalausu. Velferðarkerfið er mikilvægasta málið í væntanlegum kosningum.Samfylkingin setur það mál í forgang. Ýmis önnur mál skipta miklu máli svo sem atvinnumálin og umhverfismálin. Samfylkingin er einnig með skýra stefnu í þeim málaflokkum. Samfylkingin vill endurskoða kvótakerfið og binda endi á brask með kvóta. Það á að setja ákvæði um það í stjórnarskrá að mikilvægasta auðlind okkar, fiskurinn í sjónum, sé sameign íslensku þjóðarinnar. Og það á enginn að geta braskað með þessa auðlind okkar. Björgvin Guðmundsson |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:30 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir góðar greinar!
Kær kveðja, Björgvin B.
Björgvin Björgvinsson, 21.4.2007 kl. 20:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.