Ef eldri borgarar hefðu verkfallsrétt...........?

Ef eldri borgarar  hefðu verkfallsrétt væru þeir allir komnir i verkfall í dag! Stjórnvöld hafa ekki orðið við kröfum eldri borgara um fullnægjandi kjarabætur og stjórnarflokkarnir hafa ekki  staðið við kosningaloforðin,sem þeir gáfu eldri borgurum og öryrkjum fyrir alþingiskosningarnar 2013.

Krafa eldri borgara var sett fram á þingi Landssambands eldri borgara 2015.Krafan var skýr.Hún var um að eldri borgarar fengju jafnmikla hækkun og verkafólk og frá sama tíma,1.mai 2015 og að lífeyrir hækkaði síðan í 300 þúsund um leið og laun. Og  á aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík í febrúar sl. var bent á, að stjórnarflokkarnir væru eftir að efna stærsta kosningaloforðið frá 2013,að leiðrétta lífeyri aldraðra vegna kjaragliðnunar krepputímans. Og

 ný kjaragliðnun hefði orðið 2015,þar eð aldraðir fengu þá ekki sömu hækkun og verkafólk.Aðalfundurinn samþykkti,að hækka þyrfti lífeyrinn um 30% til þess að leiðrétta hvort tveggja.

Aðalfundurinn krafðist þess,að stöðvuð yrði þegar í stað skerðing lífeyris almannatrygginga vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.Það var eitt af loforðum Bjarna Benediktssonar,að svo yrði gert en hann hefur svikið það.

Enda þótt aldraðir hafi ekki verkfallsrétt ber stjórnvöldum siðferðileg skylda til þess að samþykkja kröfur eldri borgara og þau verða að samþykkja þær fyrir kosningar.Verkfallsrétturinn er mikilvægur en kosningarétturinn er það ekki síður.

 

Björgvin Guðmundsson


Bloggfærslur 20. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband