Kjörseðillinn er okkar vopn!

Það verða alþingiskosningar á þessu ári,sennilega í oktober.Það styttist í þær.Eldri borgarar og öryrkjar,sem fá hungurlús í lífeyri til þess að lifa af, spyrja gjarnan hvað sé til ráða,þar eð ráðamenn skella skollaeyrum við óskum þeirra um kjarabætur.Svarið er þetta: Kjörseðillinn er okkar vopn.Launafólk hefur verkfallsrétt. En aldraðir og öryrkjar hafa kjörseðilinn.Hann er þeirra vopn.Það þarf að beita því vopni rétt.

Ég hef sagt það áður,að aldraðir og öryrkjar eiga að kjósa kjarabætur í alþingiskosningunum í oktober.Þeir eiga að kjósa þá frambjóðendur, sem berjast fyrir betri kjörum aldraðra og öryrkja.Til þess að svo megi verða þarf að kynna sér hvað frambjóðendur standa fyrir,hver eru þeirra stefnumál.En raunar er það ekki nóg,þar eð stjórnmálamenn hafa lofað öllu fögru og svikið það.

Þing kemur saman eftir mánuð og þá geta stjórnmálamenn lagt fram tillögur á alþingi um kjarabætur til handa öldruðum og öryrkjum.Það er ekki eftir neinu að bíða. Það hefur dregist nógu lengi að bæta kjör aldraðra og öryrkja viðunandi.Þessa dagana er verið að stórbæta kjör forstöðumanna ríkisstofnana og æðstu embættisanna ríkisins.Það á því að vera auðvelt að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Það kostar ríkið sáralítið. Þetta er ekki spurning um peninga. Þetta er spurning um vilja. Það vantar viljann hjá ráðamönnum þjóðarinnar til þess að skapa öldruðum og öryrkjum viðunandi kjör. Geri þeir það ekki á þinginu í næsta mánuði á að gefa þeim frí.

 

Björgvin Guðmundsson


Bloggfærslur 15. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband