Laugardagur, 10. mars 2007
Hlutdrægni hjá RÚV
Í kastljósi sjónvarpsins í gærkveldi voru umræður um atburði liðinnar viku og þar á meðal pólitíkina.Tveir sjálfstæðismenn voru til kvaddir til þess að fjalla um þetta efni undir stjórn Jóhönnu Vilhjálmsdóttur.Þessir álitsgjafar voru þeir Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Hrafn Jökulsson. Verður það að teljast harla einkennilegt hjá ríkisútvarpinu, sem á að teljast óhlutdrægt, að kalla á tvo sjálfstæðismenn til þess að fjalla um atburði líðandi stundar og þar á meðal um síðustu skoðanakannanir um fylgi flokkanna. Enda reyndist umfjöllun þeirra tvímenninganna mjög einhliða og í henni var t.d. mjög hallað á stjórnarandstöðuna og rekinn áróður fyrir ríkisstjórnina. Hannes Hólmsteinn er þekktur sjálfstæðismaður en Hrafn Jökulsson gekk í Sjálfstæðisflokkinn á síðasta ári samkvæmt frásögnum fjölmiðla.Væntanlega reynir RUV áfram að gæta óhlutdrægni þó það breytist í einkahlutafélag.
Björgvin GuðmundssonStjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 9. mars 2007
Skrípaleikur um stjórnarskrá
Auðlindaákvæði í stjórnarskrá var rætt í kastljósi sjónvarpsins í gær. Þingmennirnir Össur Skarphéðinsson og Einar OddurKristjánsson tókust á um málið. Össur sagði, að mikið væri af mótsögnum og þverstæðum í frumvarpi ríkisstjórnarinnar að stjórnskipunarlögum.Frumvarpið væri haft þannig, að Framsókn gæti haft eina túlkun á frumvarpinu og Sjálfstæðisflokkurinn aðra. Einar Oddur sagði, að frumvarpið væri marklaust. Þetta væri flutt til þess að þóknast Framsókn svo þeir gætu ekki sagt, að Sjálfstæðiflokkurinn hefði ekki staðið við ákvæði stjórnarsáttmálans í þessu efni.
Ríkisstjórninni ekki alvaraÞað kom skýrt fram í umræddum kastljósþætti, að umfjöllum stjórnarflokkanna um auðlindaákvæðið hefur verið alger skrípaleikur. Ríkisstjórninni var aldrei nein alvara með það að setja skýr ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindinni í sjónum í stjórnarskrá.Hugmynd ríkisstjórnarinnar var alltaf sú að hafa ákvæðið loðið og óljóst svo túlka mætti það sitt á hvað.En hverju er þjóðin betur sett með óljósu ákvæði í stjórnarskrá um náttúruauðlindir og þar á meðal um fiskinn í sjónum.Hún er engu betur sett.Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipunar landsins og stjórnmálamenn hafa ekki leyfi til þess að draga hana niður á lágt plan og gera hana að pólitísku bitbeini í einhverjum átökum þeirra í milli.
Forkastanleg vinnubrögðVinnubrögð ríkisstjórnarinnar við undirbúning að breytingu á stjórnarskránni eru forkastanleg. Það var ekki einu sinni rætt við stjórnarandstöðuna. Hún heyrði fyrst um tillöguna um breytingu í fjölmiðlum! Það hefur verið venja að reyna að skapa sem breiðasta samstöðu um breytingar á stjórnarskrá. Sú venja var rofin.Þessi vinnubrögð greiða ekki fyrir framgangi málsins.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 8. mars 2007
Makkað um auðlindina
Makkað um auðlindina
Stjórnarflokkarnir róa nú lífróður til þess að bjarga ríkisstjórninni en líf hennar hangir á bláþræði vegna auðlindamálsins.Og um hvað er deilt í auðlindamálinu? Jú,það er deilt um það hvort standa eigi við það ákvæði stjórnarsáttmálans að setja í stjórnarskrá það lagaákvæði að auðlindin í sjónum sé sameign þjóðarinnar. Þarf að deila um það? Ef stjórnarflokkarnir væru heilir í málinu þyrfti ekki að deila um það. En báðir flokkarnir sitja á svikráðum við þetta stefnumál sitt. Þeir segja,að þjóðin eigi auðlindina en vilja ekki standa við það þegar til kastanna kemur. Margir Framsóknarmenn vilja þó standa við þetta ákvæði en ef það kostar ráðherrastólana renna á þá tvær grímur. En um hvað snýst deila stjórnarflokkanna? Hún snýst um það hvernig megi þynna út auðlindaákvæðið án þess að allt verði vitlaust í þjóðfélaginu og án þess að stjórnarandstaðan rísi upp á afturlappirnar.Íhaldið liggur nú yfir orðalagi auðlindaákvæðisins og reynir að þynna það sem mest út þannig að ekki verði unnt að skilja það þannig, að útgerðarmenn eigi ekki sjávarauðlindina og þar með kvótana heldur þjóðin. Ef ákvæðið verður þynnt of mikið út leggst stjórnarandstaðan gegn því en ef auðlindaákvæðið verður skýrt eins og í lögunum óttast ríkisstjórnin um afdrif fiskveiðistjórnarkerfisins. Stjórnarflokkarnir makka því um auðlindina og reyna að finna útfærslu sem þýði helst ekki neitt.
Björgvin Guðmundsson
Miðvikudagur, 7. mars 2007
Þjóðin á auðlindina í sjónum
Sjálfstæðisflokkurinn er nú á undanhaldi í auðlindamálinu og allar horfur á að flokkurinn fallist á kröfu Framsóknar um að setja auðlindaákvæðið í stjórnarskrána.Sjálfstæðismenn eru farnir að kynna ýmis skilyrði fyrir því að standa við stjórnarsáttmálann í þessu efni. Þeir ætla sem sagt að setja skilyrði fyrir því að þeir standi við sinn eigin stjórnarsáttmála. Það er ekkert til samninga í þessu efni. Það stendur í fyrstu grein laga um fiskveiðistjórnun, að fiskurinn í sjónum sé sameiginleg auðlind og eign þjóðarinnar. Þetta ákvæði á að fara í stjórnarskrána. Þar er ekkert um að semja.
Annars springur stjórninEf Sjálfstæðisflokkurinn dregur áfram lappirnar í þessu máli springur stjórnin. Stjórnarandstaðan flytur þá tillögu um að auðlindaákvæðið fari í stjórnarskrá og Framsókn samþykkir þá tillögu. Sjálfstæðisflokkurinn mundi þá hrökklast úr stjórninni.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 6. mars 2007
Lætur Framsókn beygja sig?
Sérkennileg deila er nú risin milli stjórnarflokkanna, íhalds og Framsóknar.Deilt er um það hvort setja eigi ákvæði í stjórnarskrá um sameign þjóðarinnar á fiskinum í sjónum. Ákvæði um þetta efni er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og þar tekið skýrt fram, að setja eigi á kjörtímabilinu í stjórnarskrá ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindinni í sjónum. En ekki hefur verið staðið við þetta ákvæði, þegar 10 dagar eru eftir af starfstíma þingsins. Sá þingmaður Framsóknar, sem benti fyrstur á það, að standa yrði við umrætt ákvæði stjórnarsáttmálans var Kristinn H.Gunnarsson ( hann var þá enn í framsókn.) En ekki var hlustað á hann í því máli fremur en öðrum. Framsóknarmenn hefðu betur hlustað á Kristin strax. Þá væru þeir ekki í þessum vandræðum í dag.
Átti að svíkja ákvæðið?
Hvernig má það vera, að ekki sé enn búið að efna þetta ákvæði stjórnarsáttmálans. Sif Friðleifsdóttir lýsti því yfir á nýafstöðnu flokksþingi Framsóknarflokksins, að ef umrætt ákvæði yrði ekki efnt mundi það kosta stjórnarslit. Það er vitað, að Sjálfstæðisflokkurinn stendur í vegi fyrir efndum á þessu ákvæði og því væri það rökrétt, að Framsókn slyti stjórnarsamstarfinu, ef Sjálfstæðisflokkurinn léti sig ekki í málinu. Það vill Sif. Ekkert bólar á því, að Sjálfstæðisflokkurinnn gefi sig í þessu máli .Ef Framsókn lætur sig eftir stóru orðin missir flokkurinn þann litla trúverðugleika sem flokkurinn á eftir.En það væri eftir öðru, að Framsókn léti beygja sig í þessu máli. Íhaldið hefur beygt Framsókn í hverju málinu á fætur öðru. Frægast var þegar Davíð beygði Halldór í málinu varðandi Þjóðhagsstofnun. Davíð ákvað að leggja stofnunina niður áður enn hann talaði við Framsókn. Og enda þótt Framsókn væri á móti því að leggja stofnunina niður svínbeygði Davíð Framsókn í málinu. Fer eins í þessu máli? Beygir íhaldið Framsókn og kemur í veg fyrir, að ákvæðið um þjóðareign á auðlindinni fari inn í stjórnarskrá?
Björgvin Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 5. mars 2007
Stefna Samfylkingarinnar er skýr: Barátta gegn misskiptingu og ójöfnuði
Það styttist nú í þingkosningar.Stjórnmálaflokkarnir vígbúast af kappi. Samfylkingin er tilbúin í slaginn. Gífurleg málefnavinna hefur verið unnin í Samfylkingunni. T.d. hefur algerlega ný stefna verið samin í umhverfismálum og það mál undirbúið mjög vel. Í flestum öðrum málaflokkum hefur mikil vinna verið unnin við stefnumótun. Samfylkingin er mikið betur búin undir alþingiskosningar nú en fyrir 4 árum.
Hlé á stóriðjuframkvæmdum
Fagra Ísland, stefna Samfylkingarinnar í umhverfismálum, er hið merkasta plagg. Kjarni stefnunnar er sá, rétta beri hlut náttúruverndar gagnvart hagsmunum stóriðju og að úttekt verði gerð á virkjana- og stóriðjukostum landsmanna. Á meðan sú úttekt fari fram verði gert hlé á frekari framkvæmdum á þessu sviði. Þetta er róttæk en skynsamleg stefna.Það er ekki unnt að halda áfram á sömu braut og áður. Við getum ekki haldið áfram að virkja óheft alla helstu fossa landsins með öllu .því raski á náttúru landsins sem því fylgir. Við þurfum einnig að staldra við og athuga hvort ekki eru komnar nægilega margar stóriðnaðarverksmiðjur. Við þurfum að huga að nýjum iðnaði, úrvinnslu og nýsköpun.Mikil tækifæri eru í hugbúnaðargeiranum.
Leiðrétta þarf misskiptingunaSamfylkingin leggur höfuðáherslu á að leiðrétta misskiptinguna í þjóðfélaginu. Ójöfnuður og misskipting hefur stóraukist á því tímabili, sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa farið með völd. Samfylkingin vill stórbæta kjör aldraðra, öryrkja og þeirra,sem verst hafa kjörin Samfylkingin hefur skýra stefnu í utanríkismálum. Flokkurinn vill sækja um aðild að Evrópusambandinu og láta reyna á það hvort þjóðin nær nægilega hagstæðum samningi í samningaviðræðum við ESB. Byrjað verði á því að ákveða samningsmarkmiðin.Áður en þjóðin gerist aðili að ESB verði samningur sá, sem við eigum kost á,lagður undir þjóðaratkvæði. Í öryggis-og varnarmálum vill Samfylkingin leita samstarf við Evrópu. Samfylkingin vill endurskoða kvótakerfið í sjávarútvegmálum.
Ríkisstjórnin klofin í afstöðunni til ESB
Mestu átakamálin í næstu kosningum verða málefni aldraðra og öryrkja og misskiptingin í þjóðfélaginu. Einnig verður tekist á um afstöðuna til Evrópusambandsins en í því máli er Samfylkingin eini flokkurinn,sem hefur skýra stefnu. Um leið og þjóðin ákveður í þjóðaratkvæðagreiðslu að gerast aðili að ESB verður Evra tekin upp hér á landi. Það er ekki unnt að taka upp Evru nema að gerast aðili að ESB. Framsókn er klofin í afstöðunni til ESB. Valgerður er jákvæð gagnvart ESB og talar jákvætt gagnvart því að taka upp Evru.. Jón Sigurðsson formaður Framsóknar er á móti. Sjálfstæðisflokkurinn fylgir enn stenfu Davíðs gagnvart ESB, þ.e. þeirri stefnu að tala ekki um ESB. Og þá sjaldan Sjálfstæðismenn tala um ESB tala þeir eins og Davíð hefði viljað, þ.e. á móti ESB. Ríkisstjórnin er greinilega klofin í afstöðunni til ESB.
Stefna stjórnarinnar í varnarmálum óskýrStefna ríkisstjórnarinnar í öryggis-og varnarmálum er mjög óskýr. Sjálfstæðisflokkurinn lætur sem hann vilji halla sér að Bandaríkjunum í varnarmálum enda þótt bandaríski herinn sé farinn. Framsókn vill greinlega taka upp samstarf við Evrópuþjóðir eins og Samfylkingin en aðgerðir utanríkisráðherra í þá áttina eru fálmkenndar.
Niðurstaðan er þessi: Stefna Samfylkingarinnar í öllum helsu málum er skýr. Stefna stjórnarflokkanna er óskýr. Og þeir eru klofnir í mörgum málum.
Björgvin Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4. mars 2007
Hafa bankarnir misfarið með viðskiptafrelsið?
Góður mælikvarði á hagkvæmni í bankarekstri er vaxtamunur, munur á útlánsvöxtum og innlánsvöxtum.Þegar bankarnir voru einkavæddir var reiknað með því að vaxtamunurinn mundi minnka. En nú er komið í ljós, að vaxtamunurinn hefur aukist og á sama tíma hafa þjónustugjöld einnig aukist.Viðskiptavinir bankanna hér innan lands hafa ekki notið betri afkomu bankanna í lægri vöxtum eða lægri þjónustugjöldum. Aukinn gróði bankanna hefur allur runnið í vasa eigendanna.
Verra en þegar bankarnir voru ríkisreknir
Á viðreisnarárunum,1960-1971, var vaxtamunur bankanna 2,5% á ári til jafnaðar.Á þeim tíma voru bankarnir allir ríkisreknir og margir töldu, að rekstur bankanna væri ekki nægilega hagkvæmur í höndum ríkisins. Lítill vaxtamunur á þessum tíma bendir hins vegar til þess,að rekstur bankanna hafi verið hagkvæmur.Á verðbólguárunum 1972-1990 jókst vaxtamunur mjög og var 9% til jafnaðar á ári..Ein helsta röksemdin fyrir einkavæðingu bankanna var sú,að vaxtamunur þeirra væri allt of mikill og að hann mundi minnka við einkavæðingu. En svo hefur ekki orðið.Vaxtamunurinn hefur aukist eða í 13,4% 2005.Að þessu leyti til hefur einkavæðing bankanna því mistekist. Vaxtamunur bankanna var til jafnaðar 13% á ári á tímabilinu 1991-2006.Hvers vegna hefur vaxtamunur bankanna aukist við einkavæðinguna í stað þess að minnka? Ef til vill er ástæðan sú, að bankarnir voru seldir á undirverði vinum og vandamönnum stjórnarflokkanna og ekki hirt um að selja bankana hæsta verði mönnum,sem kunnu til bankareksturs.Hinir nýju eigendur bankanna eru haldnir taumlausri græðgishyggju fyrir hönd hluthafanna en hugsa ekkert um hag íslenskra viðskiptavina bankanna.
Á að koma bönkunum í hendur ríkisins á ný?
Mál þetta var rætt í Silfri Egils Þar var Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, gestur Egils Helgasonar. Jón sagði, að miðað við það hvernig eigendur bankanna hefðu haldið á málum og miðað við að vaxtamunur bankanna hefðu aukist við einkavæðinguna væri ef til vill réttast að þjóðnýta bankana á ný.Neytendasatökin hafa oft gagnrýnt bankana harðlega fyrir mikinn vaxtamun og há þjónustugjöld. Ekki hefur verið gert mikið með þessa gagnrýni samtakanna. Krafan er sú, að athugað verði hvort bankanrnir hafi misfarið með viðskiptafrelsið.Samkeppniseftirlitið hefur bent á, að vaxtamunur bankanna sé meiri hér en á hinum Norðurlöndunum.Auk þess hefur eftitlitið vakið athygli á því, að mikil samþjöppun er hér í bankarekstrinum. Samkeppni er í lágmarki.. Vextir bankanna eru furðulíkir, svo og þjónustugjöldin. Ekki er vitað hvort um eitthvert samráð er að ræða milli bankanna við verðlagningu þjónustu og ákvörðun vaxta.En framkoma bankanna gagnvart viðskiptavinum er furðulega lík framkomu olíufélaganna við sína viðskiptavini en þau reyndust sem kunnugt er sek um ólöglegt verðsamráð.
Björgvin Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.3.2007 kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 1. mars 2007
Ójöfnuður hefur aukist meira hér en í Bandaríkjunum!
Umræðan um tekjuskiptinguna á Íslandi og aukinn ójöfnuð heldur áfram. Prófessorar við háskólann deila enn um hvað rétt sé í því efni. Þeir Þorvaldur Gylfason og Stefán Ólafsson hafa birt greinargóðar ritgerðir um aukinn ójöfnuð á Íslandi síðustu 12 árin en Hannes Hólmsteinn Gissuarson heldur því fram, að ójöfnuður hafi ekki aukist hér á landi.Þorvaldur Gylfason skrifar grein um ójöfnuð í Fréttablaðið 1.mars.
Ójöfnuður hefur aukist hér um 40-71%
Í ítarlegri grein,sem Stefán Ólafsson prófessor birtir í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla haustið 2006 um aukningu ójafnaðar hér færir hann óyggjandi rök fyrir því , að ójöfnuður hafi aukist mun meira mér á landi en í grannlöndum okkar og raunar meira en í Bandaríkjunum, aðalríki auðvaldsskipulagsins. Stefán Ólafsson segir,að ójöfnuður hjá fjölskyldum hafi aukist um 40,7% á Íslandi á tímabilinu 1993-2005, þ.e. fyrir skatta. En eftir skatta hafi ójöfnuður á þessu tímabili aukist um 71,4%. Nú er mikið rætt um það hvort réttara sé að miða þessar tölur við tekjur með fjármagsntekjum eða án þeirra.. Án fjármagntekna hefur ójöfnuður á umræddu tímabili aukist um 35,8% hér á landi. En með fjármagsntekjum hefur ójöfnuður aukist umn 74,8%. 35,8% aukning ójafnaðar er mikið.
Þjóðfélag misskiptingar og ójafnaðarÁ tímabilinu 1979-2001 jókst ójöfnuður um 19,2% í Bandaríkjunum en á tímabilinu 1993-2005 jókst ójöfnuður hér á landi um 40%. Þessar staðreyndir staðfesta það sem haldið hefur verið fram, að Ísland stefnir hraðbyri að ástandinu eins og það er í Bandaríkjunum og fjarlægist velferðarkerfið á Norðurlöndum. Íslensk stjórnvöld hafa með aðgerðum í skattamálum og velferðarmálum skapað hér þjóðfélag misskiptingar og ójafnaðar og það er kominn tími til að snúa við af þeirri braut.
Björgvin GuðmundssonMiðvikudagur, 28. febrúar 2007
Kemur ekki til framkvæmda fyrr en 1.janúar 2009!
Ásta Möller alþingismaður Sjálfstæðisflokksins segir á heimasíðu sinni, að aldraðir fái nú mikla kjarabót, þar eð hætt sé að skerða lífeyri frá almannatryggingum vegna lífeyrissjóðstekna maka.Sagt er frá þessu eins og þetta sé komið til framkvæmda. Og vitnar Ásta Möller í ræðu er hún flutti sjálf um málið fundi Sjálfstæðisflokksins. En hvað er það rétta í þessu máli: Jú,það rétta er, að afnám umræddrar skerðingar vegna lífeyrissjóðstekna maka kemur ekki til framkvæmda fyrr en 1.janúar 2009 að hluta til og ekki fyrr en 1.janúar 2010 að fullu..
Tíminn er dýrmætur hjá öldruðumÞannig er um mörg atriði í hinu fræga samkomulagi ríkisstjórnar og Landssambands eldri borgara frá síðasta sumri, sem raunar má ekki kalla samkomulag heldur yfirlýsingu. Flest atriðin koma til framkvæmda eftir mörg ár. Það er verið að flagga ýmsum atriðum sem koma til framkvæmda einhvern tímann í framtíðinni. En eldri borgarar hafa ekkert gagn af slíkum umbótum. Hjá þeim er tíminn mjög dýrmætur. Þeir þurfa umbætur strax, bæði í lífeyrismálum og vistunarmálum.
Björgvin Guðmundsson
Mánudagur, 26. febrúar 2007
Lífeyrir aldraðra á að vera 210 þúsund á mánuði
Neysluútgjöld einstaklinga eru nú til jafnaðar 210 þúsund kr. á mánuði samkvæmt neyslukönnun Hagstofu Ísland, sem kunngjörð var 15.desember 2006. ( 9,1% hækkun vísitölu neysluverðs frá 2005 innifalin).Skattar eru ekki meðtaldir.Ég tel eðlilegt, að lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum sé hinn sami og nemur neysluútgjöldum einstaklinga og raunar tel ég þar um lágmark að ræða, þar eð engir skattar eru inni í tölu Hagstofunnar um meðaltals neysluútgjöld einstaklinga. Í dag er lífeyrir aldraðra einhleypinga frá almannatryggingum 126 þúsund á mánuði fyrir skatta eða um það bil 113 þúsund á mánuði eftir skatta. Hér er átt við þá, sem einungis hafa lífeyrir frá almannatryggingum og ekki eru í lífeyrissjóði. Þó ellilífeyrisþegi hafi 40- 60 þúsund á mánuði frá lífeyrissjóði aukast ráðstöfunartekjurnar lítið eða aðeins um þriðjung af lífeyrissjóðstekjunum vegna skatta og skerðinga. Það er því ljóst, að aldraðir hafa hvergi nærri þann lífeyri í dag sem dugar til eðlilegrar framfærslu. Þar vantar um eitt hundrað þúsund krónur á mánuði Krafan er sú,að aldraðir hafi þann lífeyri sem dugi fyrir framfærslukostnaði..Neyslukönnun Hagstofunnar er eina viðmiðið, sem unnt er að byggja á í því sambandi.
Fengu hungurlús í leiðréttingu
Alþingiskosningar nálgast nú. Sjálfstæðisflokkurinn reynir í aðdraganda kosninga að telja öldruðum trú um að kjör þeirra hafi verið bætt mikið að undanförnu m.a. með hækkun lífeyris. En þessi hækkun er alger hungurlús. Og enda þótt Sjálfstæðisflokkurinn birti tölur um háa prósentuhækkun hjá 400 manna hópi aldraðra, sem eru á strípuðum bótum frá almannatryggingum , eru hámarksbæturnar í dag aðeins 126 þúsund hjá einstaklingum og duga hvergi nærri til framfærslu. .
Aldraðir eiga þetta inni hjá ríkinuEf til vill finnst sumum tillaga mín um 210 þúsund króna lífeyri aldraðra á mánuði vera róttæk og kostnaðarsöm. Og víst er eru tillögur mínar róttækar. En þær eru samhljóða tillögum kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík. Og þær eru róttækar vegna þess, að ríkisstjórnin hefur hundsað aldraða til margra ára og þess vegna hafa kjör eldri borgara dregist aftur úr kjörum láglaunafólks á almennum vinnumarkaði.Aldraðir eiga þessa leiðréttingu því inni hjá stjórnvöldum.Það kostar mikla fjármuni að leiðrétta kjör aldraðra. En Íslendingar eru rík þjóð.Stjórnvöld hafa haft 40 milljarða af öldruðum sl. 12 ár. Nú er komið að skuldadögum. Nú þurfa stjórnvöld að leiðrétta kjör aldraðra og borga skuldina til baka. Það eru nógir peningar til. Ríkið á þessa peninga og meira til í geymslu í Seðlabankanum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)