Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kjósendur refsa Framsókn

Kjósendur refsa Framsókn

 

Nýjar skoðanakannanir um fylgi flokkanna birtast nú ört. Í gær birti Stöð 2 nýja könnun um fylgi flokkanna í Kraganum. Það,sem vakti athygli við þá könnun, var það, að fylgið hrindi af Framsókn eins og raunar einnig hafði gerst í Suðurkjördæmi  og Norðausturkjördæmi. Í Kraganum fékk Framsókn engan þingmann kjörinn og Sif Friðleifsdóttir komst ekki inn. Hvað er að gerast? Jú,kjósendur ætla að refsa Framsókn fyrir langa íhaldsþjónkun. Í síðustu kosningum 2003 töpuðu báðir stjórnarflokkarnir fylgi en þó íhaldið miklu meira. Það hrundi í 33%. En Íhaldið og Framsókn gáfu kjósendum langt nef 2003 og ákváðu að hanga í valdastólunum þrátt fyrir kosningaúrslitin.Og Framsókn ákvað að styðja íhaldið áfram út á það að fá forsætisráðherrann í stuttan tíma. Þetta var algerlega siðlaust og brot á lýðræðisreglum. Kjósendur  eru nú að refsa Framsókn.

 

Björgvin Guðmundsson


Samfylkingin vill bæta velferðarkerfið

Í alþingiskosningunum í næsta mánuði verður kosið um velferðarkerfið. Stjórnarflokkarnir,Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, hafa stórskaðað velferðarkerfið á 12 ára valdatímbili.Þegar almannatryggingar komust á hér á landi 1946 fyrir tilstuðlan Alþýðuflokksins var Ísland í fremstu röð í heiminum að því, er velferðarkerfi varðaði. En í dag hefur Ísland dregist aftur úr öðrum þjóðum í þessum efnum og er með versta velferðarkerfið á Norðurlöndum.Ójöfnuður hefur stóraukist hér á landi síðustu 12 árin. Samfylkingin vill bæta velferðarkerfið og auka jöfnuð á ný í þjóðfélaginu.



Kjör aldraðra verði stórbætt



Samfylkingin vill stórbæta kjör aldraðra. Undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur og Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur hefur Samfylkingin flutt á þingi margar tillögur um bætt kjör aldraðra, um afkomutryggingu aldraðra og um nýskipan í lífeyrismálum aldraðra. Þessar tillögur gera ráð fyrir, að lífeyrir aldraðra verði strax stórhækkaður, dregið verði verulega úr tekjutengingum og eldri borgurum heimilað að vinna fyrir 100 þúsund krónum á mánuði án þess að það skerði lífeyri frá almannatryggingum.Framvegis hækki lífeyrir aldraðra síðan í samræmi við hækkun á framfærslukostnaði samkvæmt könnun Hagstofu Íslands. Í dag eru neysluútgjöld einstaklinga krónur 210 þúsund á mánuði samkvæmt athugun Hagstofu Íslands. Þá vill Samfylkingin gera stórátak í vistunar-og hjúkrunarmálum aldraðra.400 manns eru nú á biðlista eftir hjúkrunarrými. Samfylkingin vill leysa vanda þessa fólks strax. Stór hópur aldraðra verður að búa við margbýli á sjúkrastofum.Allir eldri borgarar eiga að vera á einbýlisstofum,nema þeir búi með maka sínum.



Unga Ísland



Jafnframt átaki í málefnum aldraðra vill Samfylkingin stórbæta aðstöðu barna. Samfylkingin hefur birt nýja stefnuskrá í málefnum barna, Unga Ísland. Þar er gert ráð fyrir, að dregið verði úr tekjutengingum barnabóta, að tannvernd barna verði aukin með ókeypis eftirliti og forvarnaraðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna. Námsbækur í framhaldsskólum verði nemendum að kostnaðalausu.

Velferðarkerfið er mikilvægasta málið í væntanlegum kosningum.Samfylkingin setur það mál í forgang. Ýmis önnur mál skipta miklu máli svo sem atvinnumálin og umhverfismálin. Samfylkingin er einnig með skýra stefnu í þeim málaflokkum. Samfylkingin vill endurskoða kvótakerfið og binda endi á brask með kvóta. Það á að setja ákvæði um það í stjórnarskrá að mikilvægasta auðlind okkar, fiskurinn í sjónum, sé sameign íslensku þjóðarinnar. Og það á enginn að geta braskað með þessa auðlind okkar.



Björgvin Guðmundsson

 


Lífeyrir lægri hér en í OECD ríkjum

Það er verið að eyðileggja lífeyriskerfi landsmanna.Ríkið tekur hátt í 70% af lífeyrinum í skatta og skerðingar.Árið 2004 voru meðaltekjur lífeyrisþega frá lífeyrissjóðum um 58.000 krónur á mánuði. Helmingur lífeyrisþega var með minna en 35.000 krónur á mánuði í lífeyri. Ef lagður er saman lífeyrir lífeyrisþega frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum kemur í ljós,að  meðaltekjur lífeyrisþega  heild eru 154 þúsund krónur á mánuði.Allur lífeyrir, hvort sem er frá lífeyrissjóði eða almannatryggingum, er skattlagður eins og um atvinnutekjur sé að ræða. Lífeyrir frá almannatryggingum er skertur vegna atvinnutekna,sem fara yfir 25 þúsund á mánuði og hann er skertur  vegna lífeyrissjóðstekna.Aðeins grunnlífeyrir skerðist ekki vegna tekna úr lífeyrissjóði.Meira að segja lífeyrir  frá almannatryggingum sætir skerðingu vegna lífeyris  maka úr lífeyrissjóði en sú skerðing er  að mínu mati brot á stjórnarskránni. Miklar skerðingar og skattar eru að eyðileggja lífeyriskerfið. 

Ávinningur af lífeyrissjóðunum takmarkaður!  

. Þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir var reiknað með því, að lífeyrir úr þeim yrði alger viðbót fyrir lífeyrisþega.Lífeyrir úr lífeyrissjóði átti ekki að skerða lífeyri frá almannatryggingum. En það hefur farið á annan veg. Ávinningur af lífeyrissjóðunum er mjög takmarkaður vegna skerðinga og skatta ríkisvaldsins.

Ef lífeyrir Íslendinga er borinn saman við lífeyri í OECD löndum kemur í ljós,að hann er lægri hér en sem nemur meðtaltalinu í OECD löndum. Lífeyrir, sem hlutfall af meðallaunum, er 66% hér á landi en 69% hjá OECD. Ef litið er á hlutfall af verkamannalaunum kemur í ljós,að lífeyrir hér er 57% af verkamannalaunum en 59% af verkamannalaunum hjá OECD.

 

 Skerðingar mikið meiri hér en annars staðar 

 

Miklar skerðingar á lífeyri aldraðra þekkjast ekki í nágrannalöndum okkar. Þetta er einstakt fyrir Ísland. Það mætti halda, að Ísland væri fátækt land, sem þyrfti af þeim sökum að íþyngja eldri borgurum.

Í Svíþjóð halda ellilífeyrisþegar öllum sínum bótum óskertum þrátt fyrir aðrar tekjur. Og í Danmörku mega þeir hafa 50 þúsund króna atvinnutekjur án þess að sæta skerðingu. Skerðing verður þar aldrei meiri en 30%. Engin skerðing verður þar vegna greiðslna úr lífeyrissjóði, ekki heldur hjá maka. 70% ellilífeyrisþega í Danmörku eru með  fullar og  óskertar  bætur. Í Svíþjóð er hlutfallið 100%.Engin skerðing sem fyrr segir. 

Aðeins 1% ellilífeyrisþega fær fullar bætur á Íslandi  

 

En á Íslandi  fær aðeins 1% ellilífeyrisþega fullar og óskertar bætur.Þannig fer ein ríkasta þjóð heims með  eldri borgarana í sínu landi.

Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður Samfylkingarinnar sýnir fram á það í grein í Mbl. í dag, að  það sem Geir H..Haarde var að bjóða lífeyrisþegum á landsfundi íhaldsins var alger hungurlús. Það verður sáralítið eftir þegar  ríkið hefur hirt meirihlutann í skatta og skerðingar.

 Björgvin Guðmundsson  


Samfylkingin of lin við íhaldið

 

 

Ýmsir velta því fyrir sér hvers vegna Samfylkingin fái minna í skoðanakönnunum nú en

  fyrir 4 árum.Að mínu mati eru tvær skýringar á þessu: 1) Vegna bylgjunnar í umhverfismálum, sem riðið hefur yfir landið. VG hefur grætt á henni. 2) Vegna þess,að Samfylkingin hefur  farið  mjúkum höndum um Sjálfstæðisflokkinn í þessari kosningabaráttu.

Í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar 2003 gagnrýndi Samfylkingin íhaldið harðlega, m.a. fyrir valdníðslu og misbeitingu valds og misskiptinguna í þjóðfélaginu. Samfylkingin rak þá harða kosningabaráttu gegn íhaldinu og það fór ekki framhjá neinum, að Samfylkingin var höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins.Það var þá mikið talað um turnana tvo í pólitíkinni,Samfylkinguna og íhaldið. Nú hafa  mál þróast þannig, að  margir líta  á VG, sem aðalandstæðing Sjálfstæðisflokksins.Samfylkingin hefur ekki notið góðs af bylgunni í umhverfismálum. Þó hefur flokkurinn breytti stefnu sinni í umhverfismálum og lagt fram nýja og mjög skynsamlega stefnu í þeim málum,Fagra Ísland. Leiðin til þess að stórauka fylgi Samfylkingarinnar nú er  að kynna betur Fagra Ísland og auka verulega gagnrýni  á Sjálfstæðisflokkinn. Þar er af nógu að taka. Það hefur ekkert breytst varðandi Sjálfstæðisflokkinn á þeim 4 árum sem liðin eru frá síðustu kosningum. Valdníðsla og misbeiting valds hefur haldið áfram. Ójöfnuður og misskipting í þjóðfélaginu hefur aukist  áfram. Velferðarkerfið hefur drabbast niður. Aldraðir og öryrkjar eru afskiptir og hafa verið sviknir um kjarabætur, sem þeim var lofað. Íhaldið er nú korteri fyrir kosningar að sletta einhverri hungurlús í eldri borgara. Tillögur Samfylkingarinnar um endurbætur í þágu aldraðra og öryrkja og í þágu barna eru þær róttækustu sem nú hafa komið fram.

 Björgvin Guðmundsson

Djúpt á umbótum hjá Tryggingastofnun

Alþingismenn hafa verið að berjast fyrir því, að eldri borgarar þyrftu ekki að safna saman  reikningum vegna lækniskostnaðar í því skyni að fá afsláttarkort heldur mundu sjúkrastofnanair senda reikningana  beint til Tryggingastofnunar og eldri borgarar fá afsláttarkortin send án þess ap fara í stofnunina. Um síðustu áramót virtist vera að rofa til í þessum efnum og barátta alþingismanna í þessu efni að bera árangur. Þá tilkynnti Tryggingastofnun, að  eldri borgarar mundu fá afsláttarkortin send framvegis þegar þeir hefðu greitt lækniskostnað að fjárhæð 4500 kr. og þeir þyrftu ekki að fara í Tryggingastofnun. En ekkert hefur gerst í þessum efnum enn. Það eina sem hefur gerst er, að nú er ástandið í þessum efnum orðið verra en áður. Eldri borgarar fengu asfláttarkortið afhent áður um leið og þeir framvísuðu reikningum í Tryggingastofnun. Nú verða þeir að fara með reikningana í stofnunina en fá ekkert afsláttarkort afhent! Þeim er sat að leggja reikningana inn en síðan fái þeir afsláttarkortið afhent  einhvern tímann síðar. Mö.o: Ástandið hefur versnað í þessum efnum  en ekki batnað. Það er djúpt á umbótum hjá Tryggingastofnun.

 

Björgvin Guðmundsson


Góð stefna að auka aðstoð við fátækar þjóðir

Valgerður Sverrisdóttir,utanríkisráðherra, hefur beitt sér fyrir aukinni þróunarsamvinnu og meiri aðstoð en áður við fátækar þjóðir.Þetta er þakkarvert. Ég er ánægður með þessa stefnu hennar. Það er ekki oft sem ég sé ástæðu til þess að þakka ráðherrum Framsóknar. Oftast hefi ég sér ástæðu til þess að gagnrýna þá og mesta gagnrýnisefnið er, að Framsókn skuli hafa viðhaldið völdum íhaldsins í 12 ár. Framsókn hefur gleymt kjörorði Tryggva Þórhallssonar og Hermanns Jónassonar: Allt er betra en íhaldið.

 

Björgvin Guðmundsson


Íhaldið vill halda einkavinavæðingu áfram

 

 

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt að undirbúa einkavæðingu Landsvirkjunar. Það mátti heyra á Geir H. Haarde í Silfri Egils, að hann var ekki sannfærður um að einkavæða ætti Landsvirkjun en samt hefur það orðið ofan á á Landsfundi. Hægri menn hafa orðið ofan á og hægri stefna mótar stefnu landsfundar Sjálfstæðisflokksins.

 Hvað þýðir það að íhaldið vilji einkavæða Landsvirkjun. Það þýðir það, að Landvirkjun verði afhent einkavinum Sjálfstæðisflokksins á silfurfati  til þess að braska með þetta góða fyrirtæki og græða á því. Bankarnir voru afhentir einkavinum á þann hátt og látnir á útsöluverði og hafa eigendur síðan makað krókinn og grætt vel. Hið sama vilja íhaldsmenn nú gera við Landsvirkjun: Láta einkaaðila braska með fyrirtækið, jafnvel liða það í sundur og græða á því. Notendur orku mundu fljótlega finna fyrir því í hækkuðu orkuverði. Það kemur ekki til greina að mínu mati að einkavæða Landsvirkjun. Það má ákveða að reka fyrirtækið  sem félag með takmarkaðri ábyrgð eins og hlutafélag en það á áfram að vera í eigu almennings, hins opinbera. Þetta er of mikilvægt fyrirtæki til þess að það verði afhent einkavinum Sjálfstæðisflokksins.

 Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti að sletta hungurlús í aldraða. Það á að lækka skerðingu tryggingabóta úr 40% í 35%. Þetta er alger hungurlús. Það á að  afnema skerðingar með öllu eins og Svíar hafa gert. Erum við ekki svo ríkir Íslendingar? Íhaldið ætlar greinilega að halda áfram á sömu braut og áður, sbr. samkomulagið við Landssamband eldri borgara: Að sletta einhverju lítilræði í eldri borgara hverju sinni, svona eins og að setja snuð upp í þá.Eldri borgarar sætta sig ekki við slíkt. Þeir vilja fá fullnægjandi lausn á sínum málum: Stórhækkun lífeyris  sem nægi fyrir framfærslukosntaði samkvæmt neyslukönnun Hagstofunnar. Það er sanngjarnt. Og þeir vilja  afnám á skerðingu tryggingabóta vegna tekna úr lífeyrissjóði og atvinnutekna og  afnám á skerðingu vegna tekna maka enda er slík skerðing brot á stjórnarskránni.

 Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti að afnema ætti málsskotsrétt forseta Íslands. Það er ljóst, að andi Davíðs svífur enn yfir vötnunum hjá íhaldinu. Það er einmitt nauðsynlegt að forsetinn hafi áfram málskotsréttinn. Það er nauðsynlegur öryggisventill fyrir lýðræðið í landinu.

 Björgvin Guðmundsson

Áróður Mbl. gegn Samfylkingunni heldur áfram

 

 

Í forustugrein Morgunblaðsins í dag segir svo:Hin nýja forysta Sjálfstæðisflokksins kemur sterk frá sínum landsfundi. Og síðan segir: Það er meiri órói meðal Samfylkingarfólks.

Þessi skrif kom í kjölfar mikils níðs um Samfylkinguna í Reykjavíkurbréfi  á sunnudag en bréfið var allt lagt undir árás á Samfylkinguna um leið og Vinstri grænir voru hafnir til skýjanna.

  Landsfundur Samfylkingarinnar var gífurlega sterkur og sýndi geysilegan styrk Ingibjargar Sólrúnar.Ekkert kom fram á fundinum, sem gefur Mbl. tilefni til þess að tala um óróa meðal Samfylkingarfólks.Þar var mikil samstaða og mjög málefnaleg og góð umræða um öll hin mikilvægu mál. En það er engu líkara en  það hafi  verið ákveðið í Valhöll ( virðist gilda fyrir Mbl.) að klifa stöðugt á því að sundrung ríki í  Samfylkingunni  jafnframt því, sem áróður sé rekinn gegn Ingibjörgu Sólrúnu.

  Hvers vegna  hefur  íhaldið lagt þessa línu gegn Samfylkingunni? Það er vegna þess að það er ekki búið að jafna sig enn á því að R-listinn undir forustu Ingibjargar Sólrúnar skyldi fella íhaldið þrisvar í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Og það er vegna þess,að Samfylkingin gagnrýndi  sjálft goðið, Davíð Oddsson, harðlega í síðustu kosningum og  vann stórsigur, fékk 31% atkvæða á meðan Sjálfstæðiflokkurinn  hrapaði í 33%.

 

Björgvin Guðmundsson


Sjálfstæðisflokkurinn var í fyrstu á móti EES

Sjálfstæðisflokkurinn var í fyrstu á móti EES Allir stjórnmálamenn mæra nú EES samninginn og telja aðild að honum hafa verið mikið gæfuspor hjá Íslendingum.En þegar Alþýðuflokkurinn  hóf baráttuna fyrir aðild Íslands að EES samningnum þá var Sjálfstæðisflokkurinn því algerlega andvígur. Flokkurinn vildi fremur  gera tvíhliða samning við Evrópusambandið.Alþýðuflokkurinn undir forustu Jóns Baldvins knúði aðild Íslands í gegn á Alþingi,fyrst í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn og síðan í andstöðu við Framsókn og Alþýðubandalagið.Framsóknarflokkurinn var á móti aðild þjóðarinnar að EES.Halldór Ásgrímsson sat hjá. En nú vildu allir Lilju kveðið hafa. Nú hreykja þeir sér sem  ýmist voru andvígir aðild að  EES eða drógu lappirnar og treystu sér ekki til þess að samþykkja aðildina.

 Aðild Íslands að EES færði okkur frelsið í efnahagsmálum,sem allir dásama í dag. EES-samningurinn færði okkur frelsin fjögur,frelsi í vöruviðskiptum,þjónustuviðskiptum,fjármagnaflutningum og vinnuaflsflutningum.

Björgvin Guðmundsson  

Morgunblaðið ræðst á Samfylkinguna

 

 

Morgunblaðið tekur í Reykjavíkurbréfi í dag til við fyrri iðju og ræðst  á Samfylkinguna um leið og blaðið hælir Vinstri grænum á hvert reipi.Segir blaðið nú, að Vinstri grænir hafi yfirgefið vinstri stefnu og séu nú einungis góður umhverfisflokkur. Er ljóst hvert blaðið stefnir með þessum málflutningi: Að búa sjálfstæðismenn undir að samþykkja Vinstri græna  sem samstarfsaðila, ef Framsóknarhækjan brestur eins og allt bendir til og finna þarf nýja hækju fyrir Sjálfstæðisflokkinn við stjórnarmyndun.Síðan  kemur Mbl. með alls konar sleggjudóma og slúður um Samfylkinguna svo sem, að Samfylkinguna skorti málefnalega sannfæringu  og að ágreiningur sé í forustu Samfylkingarinnar.Þetta er áróður sem er  búinn til  í Valhöll og á Mbl. en enginn fótur er fyrir. Samkomulag  er mjög gott í Samfylkingunni.Það er áreiðanlega betra en í Sjálfstæðisflokknum enda muna menn að gerður var aðsúgur að Birni Bjarnasyni ráðherra í prófkjörinu  vegna þingkosninganna og frá því að Davíð Oddsson lét af formennsku hefur arftakinn verið að hreinsa stuðningsmenn Davíðs burt úr áhrifastöðum í flokknum  svo sem fyrrum framkvæmdastjóra, Kjartan Gunnarsson.Hann var látinn fara.Samfylkinguna skortir ekki  málefnalega sannfæringu og það er ósmekklegt og beinlínis rangt hjá  Mbl. að halda því fram, að  Samfylkingin hafi ekki barist fyrir jöfnuði, eins og blaðið segir. Það gengur eins og rauður þráður gegnum öll stefnumál Samfylkingarinnar að  berjast eigi gegn ójöfnuði og misskiptingu og stuðla að jöfnuði í þjóðfélaginu. Barátta fyrir jöfnuði  var stórt atriði í ræðu Ingibjargar Sólrúnar á landsfundi Samfylkingarinnar.

 Reykjavíkurbréf vitnar í ritdóm Jóns Baldvins um bók Steingríms J.Sigfússonar  í Mbl.  en þar segir Jón, að ef  kosningaúrslitin verði eins og skoðanakannanir  hafi sameining jafnaðarmanna mistekist. Reykjavíkurbréfið  breytir ummælum Jóns Baldsins á þann  veg, að hann hafi sagt, að sameining jafnaðarmanna hafi þegar mistekist eins og búið væri að kjósa.Síðan spinnur Reykjavíkurbréfið langan vef  byggðan á hinum breyttu ummælum.Í hugskoti höfundar Reykjavíkurbréfsins leysist Samfylkingin upp og Alþýðuflokkurinn endurlífgast og ýmsar aðrar hræringar verða í pólitíkinni, allar í samræmi við óskhyggju  Reykjavíkurbréfsins.

  Stjórnmálaflokkar hafa oft orðið fyrir ágjöfum og rétt sig síðan við á ný. Alþýðuflokkurinn varð fyrir mörgum áföllum en forustumenn flokksins lögðu aldrei árar í bát. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig orðið fyrir miklum áföllum, síðast í þingkosningunum 2003, er fylgi flokksins hrapaði í 33 % vegna sóknar Samfylkingarinnar, sem þá fékk 31%. Sjálfstæðisflokkurinn  varð fyrir miklu áfalli þegar Borgaraflokkurinn var stofnaður og fylgið fór þá talvert niður fyrir 30% í þingkosningum..

  Nú er verið að leggja út af skoðanakönnunum en ekki kosningaúrslitum..Enginn  veit enn hvað Samfylkingin fær mikið fylgi í næstu þingkosningum. Hún getur stórbætt stöðu sína enn. Enginn flokkur hefur undirbúið sig eins vel málefnalega og Samfylkingin. Hún hefur mótað skýra stefnu í öllum helstu málaflokkum, nú síðast í efnahagsmálum með vandaðri vinnu. Áður hafði flokkurinn lagt mikla vinnu í nýja  stefnu í umhverfismálum svo og varðandi málefni barna. Ég hefi þá  trú,að þegar kjósendur kynnast stefnu Samfylkingarinnar í þessum málum og varðandi endurreisn velferðarkerfisins muni þeir snúa sér í ríkum mæli að Samfylkingunni sem málsvara jafnaðarstefnunnar á Íslandi. .

 Björgvin  Guðmundsson

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband