Miðvikudagur, 21. mars 2007
Morgunblaðið gegn Ingibjörgu Sólrúnu!
Morgunblaðið hefur lengi undanfarið rekið harðan áróður gegn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formanni Samfylkingarinnar.Hafa margir undrast þennan heiftarlega áróður og ekki skilið hvers vegna Mbl. hefur ekki unnt Ingibjörgu Sólrúnu sannmælis. Skýringin á þessari neikvæðu afstöðu Mbl. gegn Ingibjörgu Sólrúnu er sú, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei jafnað sig á því að Ingibjörg Sólrún skyldi sem leiðtogi R-listans fella Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Það var mikið áfall fyrir Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkinn. Það var einnig talsvert áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn, að Ingibjörg Sólrún skyldi fyrir 4 árum hætta sem borgarstjóri og verða forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í þingkosningunum 2003. Í kosningabaráttunni fyrir 4 árum fékk Samfylkingin mikið fylgi í skoðanakönnunum, alveg upp í 40 % og svo virtist um tíma sem Samfylkingin yrði stærri í þingkosningunum en Sjálfstæðisflokkurinn.Úrslit kosninganna urðu þau,að Samfylkingin fékk 31% en íhaldið 33%. Það munaði ekki mjög miklu. Þetta var mikið áfall fyrir Davíð og Sjálfstæðisflokkinn. Og áróðursmeistarar íhaldsins tóku að brugga ráð gegn Ingibjörgu. Síðan hafa þeir hundelt hana og Morgunblaðið reynt stöðugt að gera hana ótrúverðuga. Enn í dag, sbr. Síðasta Reykjavíkurbréf, er Mbl. að blása það upp, að Ingibjörg Sólrún hafi hætt sem borgarstjóri áður en kjörtímabilið var úti en þetta sama hafa fjölmargir leiðtogar Sjálfstæðisflokksins gert og ekki þótt athugavert í Mbl. Samhliða stöðugum árásum á Ingibjörgu Sólrúnu í Mbl. spinnur blaðið upp slúðursögur um forustumenn Samfylkingarinnar, sbr. söguna um það, að mikill ágreiningur sé milli Ingibjargar Sólrúnar og Össurar Skarphéðinssonar. Það er ekki nokkur fótur fyrir þessu. Þetta er alger uppspuni frá rótum. Samkomulagið milli Ingibjargar Sólrúnar og Össurar er mjög gott. Það fór hins vegar fram lýðræðisleg kosning á milli þeirra tveggja um formennskuna í Samfylkingunni.
Það er nú orðið svo langt síðan Ingibjörg Sólrún felldi meirihluta íhaldsins í Reykjavík, að Mbl. ætti að hafa jafnað sig á því.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er nú ákaflega mikill misskilningur og óttalega langsótt vegna þess að enginn hvorki MBL eða nokkur annar þarf að gera ISG ótrúveruga hún gerir það einfaldlega sjálf og það er þessvegna sem fylgið fer þverrandi. Hún er ekki þessi leiðtogi sem margir héldu fram
Gylfi Björgvinsson, 21.3.2007 kl. 09:40
Sæll Gylfi!
Mér virðist þú vera að kasta steinum úr glerhúsi þegar þú segir,að ISG sé ekki trúverðug og þess vegna fari fylgið þverrandi. Þið Framsóknarmenn ættuð ekki að nota þessi rök gegn öðrum flokkum. Eða stafar fylgistap Framsóknar af því,að leiðtogarnir séu ótrúverðugir?
Ein aðalástæðan fyrir miklu fylgi Sjálfstæðisflokksins er sú,að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins og þar á meðal Framsókn eru stöðugt í innbyrðis baráttu.Þeir níða skóinn hver af öðrum stöðugt en gleyma að snúa sér að aðalandstæðingnum. Framsókn hefur gleymt gamla kjörorðinu, "Allt er betra en íhaldið". Framsókn græðir ekkert á því að níða Ingibjörgu Sólrúnu niður.
Kveðja
Björgvin Guðmundsson
Björgvin Guðmundsson, 23.3.2007 kl. 14:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.