Opið bréf til Sigurðar Inga!

 

 

Sæll Sigurður Ingi Jóhannsson,forsætisráðherra!

Ég þakka þér fyrr ágæta ræðu á þjóðhátiðardaginn,17.júní. Ég hnaut sérstaklega um þau orð þín, að enginn ætti að líða skort á Íslandi og, að menn þyrftu að taka höndum saman um að uppræta skort.Það hljóta að vera hæg heimatökin hjá þér að vinna að þessu máli, þar eð þú ert forsætisráðherra og æðsti embættismaður ríkisins.

Ég vil koma á framfæri við þig nokkrum orðum um þetta mikilvæga mál. Með því að ég hef verið formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík til margra ára,hef ritað mikið um kjör aldraðra,  er ég vel kunnugur því hvernig eldri borgurum tekst að komast af, ef þeir hafa einungis lífeyri almannatrygginga sér til framfærslu. Fjöldi eldri borgara á eftirlaunum hringir reglulega til mín og greinir mér frá afkomu sinni.Margir þeirra búa við skort. Skrifstofa Félags eldri borgara í Reykjavik fær einnig stöðugt kvartanir frá ellilífeyrisþegum, sem komast ekki af , eiga ekki fyrir mat í lok mánaðar, geta ekki leyst út lyfin sín eða eiga ekki fyrir læknisheimsókn. Þetta ástand er að sjálfsögðu óásættanlegt.Þetta er einmitt dæmi um skortinn, sem þú ræddir um í þinni ræðu.

Ríkið ber ábyrgð á því hvað aldraðir, öryrkjar og aðrir fá mikinn lífeyri frá almannatryggingum. Það má því segja, að þú berir ábyrgð á því, ef þessi lífeyrir dugar ekki til framfærslu og veldur skorti. Ég legg til,   að þú gangir strax í málið og leggir til, að ríkisstjórnin hækki lífeyrinn það mikið, að hann dugi til framfærslu, svo unnt verði að uppræta skort hjá  þeim, sem fá þennan lifeyri.

Aldraðir fá í dag 207 þúsund krónur á mánuði eftir skatt frá almannatryggingum , þ.e. einhleypingar, sem hafa eingöngu tekjur frá almannatryggingum.Það liggur fyrir og það þarf ekki að ræða það eða athuga, að ekki er unnt að framfleyta sér á svo lágum lífeyri .Það þarf því ekki að setja það í neina  nefnd eða athugun hvort þetta dugi.Niðurstaðan liggur fyrir. Spurningin er þá sú hvað þarf að hækka þetta mikið svo það dugi til framfærslu? Hagstofan hefur kannað meðaltalsútgjöld einstaklinga og fjölskyldna.Engir skattar eru inni í þeim tölum.Hafa má hliðsjón af þessum tölum.

Mín tillaga er þessi: Lífeyrir aldraðra og öryrkja, sem eingöngu hafa tekjur frá TR, verði  hækkaður um  50 þúsund. kr  á mánuði. Við það mundi lífeyrir aldraðra einhleypinga hækka í 257 þúsund krónur á mánuði eftir skatt; miðað  við engar aðrar tekjur.Lífeyrir öryrkja  hækki jafnmikið og aðrir aldraðir og öryrkjar hækki hlutfallslega.Ég tel, að ríkið hafi auðveldalega efni á þessari leiðréttingu í dag miðað við þær fréttir, sem fluttar hafa verið undanfarið um góða stöðu ríkissjóðs.

Þessi tillaga mín felur í sér algert lágmark. En slík hækkun mundi samt skipta sköpum fyrir aldraða og öryrkja.

Tillögur um endurskoðun almannatrygginga, sem liggja hjá félagsmálaráðherra, gera ekki ráð fyrir neinni hækkun lífeyris aldraðra og öryrkja hjá þeim hópi, sem ég hef hér rætt um. Þess vegna leysa þær ekki málð.

Ég skora á þig Sigurður Ingi að ganga strax í  þetta mál  og leysa það fyrir haustið. Með því mundir þú leiða i ljós, að full meining var í ræðu þinni 17.júní.

Með bestu kveðju

Björgvin Guðmundsson

Viðskiptafræðingur

pistlahöfundur

 

 


Bloggfærslur 20. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband