Ríkið skuldar lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna hundruð milljarða þrátt fyrir framlag sitt

 

 

 

Samkomulag um samræmt lífeyriskerfi er gallað.Mjög er loðið orðalagið um það hvernig samræma á launakjör opinberra starfsmanna og launafólks á almennum markaði.En það er forsenda fyrir samkomulaginu, að það verði gert. Vegna óvissu um þetta atriði neitaði Landssamband lögreglumanna að skrifa undir samkomulagið.Þeir brenndu sig á því  áður að taka mark á loðnum yfirlýsingum ríkisvaldsins um launauppbætur til lögreglumanna sem síðan var ekki staðið við.Ætla ekki að brenna sig á því aftur.

Þá sýnist mér vera beitt blekkingum í sambandi við uppgjör á skuldum ríkisins við lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna.Gefið er til kynna,að skuldin verði gerð upp með framlagi rikissjóðs, 91 milljarði en svo er ekki .Hér er eingöngu fjallað um A deild lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna. En skuld ríkisins er aðallega við  B-deildina.Þegar kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík ræddi þetta síðast var skuld ríkisins við lífeyrssjóðina  tæpir 400 milljarðar (Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga meðtalinn).Ríkið ætlar að greiða 91 milljarð,hluta af því með skuldabréfi.En það eru samt hundruð milljarða eftir af skuldinni. Ekki er minnst á það í fréttum af samkomulaginu, heldur látið líta út eins og búið sé að greiða alla skuldina.Það er því ekki búið að fullfjármagna lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Það er langur vegur þar frá. Þetta heita blekkingar á íslensku.

Hins vegar ber að fagna því að ætlunin sé að samræma lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði og á opinberum markaði..En það þarf ekki að rifja það upp,að þegar opinberir starfsmenn fengu betri lífeyrisréttindi en almenni markaðurinn þurftu þeir að borga fyrir það með lakari launakjörum.Þeir eiga því  að fá sambærileg launakjör og almenni markaðurinn býður þegar lífeyrisréttindin eru orðin eins.Það verður vandinn meiri að tryggja það.

Björgvin Guðmundsson

viðskiptafræðingur


Er búið að bæta kjör aldraðra og öryrkja nóg?

Stjórnmálaumræður voru í sjónvarpi RUV í gærkveldi.Fram komu allir oddamenn framboða í alþingiskosningunum. Þar á meðal voru leiðtogar stjórnarflokkanna,Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins,sem mynduðu ríkisstjórnina 2013,þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benedktsson.Þeir ræddu m.a. málefni lífeyrisþega en voru ekki sammmála um það hvernig til hefði tekist.Sigmundur Davíð sagði,að því hefði verið lofað að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja og það væri eftir að standa við það loforð. Bjarni Benediktsson barði sér hins vegar á brjóst og sagði,að staðið hefði verið við loforðin við aldraða og öryrkja og þuldi upp tölur um það hvað gífurlega mikið hefði verið gert til þess að efla almannatryggingar og bæta kjör aldraðra og öryrkja.Það mætti ætla að þessir menn hefðu ekki setið í sömu ríkisstjórninni.

 Aldraðir og öryrkjar finna það á eigin skinni hvernig kjör þeirra hafa  verið bætt í tíð þessarar ríkisstjórnar.Það er jafn erfitt fyrir þá að láta enda ná saman í dag eins og var þegar ríkisstjórnin tók við og ef eitthvað er þá er það verra.Bjarni  viðurkenndi  að vísu að hann gæti ekki lifað á 186 þúsund á mánuði eftir skatt eins og ætlast er til að aldraðir lifi af,ef þeir búa með öðrum.Samt felldi hann á alþingi fyrir ári síðan,að veita öldruðum og öryrkjum afturvirkar kjarabætur frá 1.mai það ár eins  og öðrum á sama tíma og hann fékk sjálfur 9  mánuða uppbót, 900 þúsund krónur  til baka.Það skiptir engu máli hvað Bjarni þylur upp háar tölur um aukin útgjöld almannatrygginga á meðan kjör þeirra,sem verst standa eru ekki bætt. Og þau eru ekki einu sinni bætt í frumvarpi því,sem ríkisstjórnin lagði fyrir alþingi um almannatryggingar. Í því frv hækkar lífeyrir þeirra lægst launuðu meðal aldraðra og öryrka ekki um eina krónu.Það eina,sem ríkisstjórnin gerði á sumarþinginu 2013 var að láta þá lífeyrisþega,sem höfðu góðan lífeyrissjóð fá grunnlífeyri á ný en hann hafði verið felldur alveg niður hjá þeim sem höfðu 332 þúsund á mánuði og meira úr lífeyrissjóði og síðan jók hún frítekjumark vegna atvinnutekna á ný í 109 þúsund krónur á mánuði. Þetta er hvort tveggja afnumið á ný í frv ríkisstjórnarinnar um almannatryggingar.

 Sem betur fer hafa kjör launþega verið bætt nokkuð með kjarasamningunum í fyrra en þá fengu launþegar 14,5% hækkun og sömdu um að hækka í 300 þúsund á mánuði. Þetta er að vísu fyrir skatt og dugar því tæpast fyrir framfærslu.En aldraðir og öryrkjar voru þá skildir eftir og fengu aðeins 3% hækkun á árinu.Á árunum til samans, 2015 og 2016, fengu launþegar 20,7% hækkun en lífeyrisþegar 12,7%.Tölur,sem ég hef birt sýna einnig,að þrátt fyrir " góðærið" hefur lífeyrir hækkað minna í hlutfalli við lágmarkslaun í tíð þessarar ríkisstjórnar en í tíð kreppustjórnarinnar sem Jóhanna stýrði. Það er ótrúlegt en staðreynd.  Þær tölur segja allt sem segja þarf.Kosningaloforð Bjarna og Sigmundar Davíðs hafa nær öll verið svikin og öll þau stærstu og það viðurkennir Sigmundur Davíð.

Björgvin Guðmundsson


Bloggfærslur 23. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband