Er Framsókn að klofna?

Sigurður Ingi forsætisráðherra skýrði frá því í gær,að hann ætlaði að bjóða sig fram til formanns gegn Sigmundi Davíð sitjandi formanni Framsóknarflokksins.Þetta kom mörgum á óvart,þar eð Sigmundur Davið hafði tilnefnt Sigurð Inga sem forsætisráðherra fyrir skömmu.Það kom einnig fram í dag,að samkvæmt frásögn Sigmundar Davíðs hafði Sigurður Ingi heitið Sigmundi Davíð því að fara ekki fram á móti honum.Sigurður Ingi fór heldur ekki eftir því að halda fundi með Sigmundi Davíð til þess að halda honum upplýstum um gang mála eins og um hafði verið talað.Það stefnir í blóðug átök milli þessara tveggja manna á flokksþingi Framsóknar. Í viðtali við RÚV og Stöð 2 sagði Sigmundur Davíð,að hann ætlaði ekki að  stíga til hliðar og hætta í stjórnmálum.Það lá þó við,að fulltrúi Stöðvar 2 reyndi að fá Sigmund Davíð til þess að stíga til hliðar! Þeir,sem voru helstu stuðningsmenn Sigmundar Davíðs, keppast nú við að snúa við honum baki,nú síðast Eygló Harðardóttir.Menn eru fljótir að skipta um skoðun,þegar þeir telja, að völd séu að skipta um hendur.Eins gott að menn veðji á réttan hest.Augljóst er, að svo mikil átök eru í uppsiglingu,að vandséð verður hvernig klofningi verður afstýrt.Ef Sigmundur Davíð telur,að Sigurður Ingi hafi svikið hann verður hann ekki mjög sáttfús ef illa fer fyrir honum á flokksþinginu. Ef til vill verður Sigurður Ingi fúsari til sátta,ef hann bíður lægri hlut, en þó kann það að fara eitthvað eftir því hvað  Sigmundur Davíð dregur það skýrt fram,að hann telji Sigurð Inga hafa svikið sig. Það eru mikil átök framundan og fullkomin hætta á klofningi hjá Framsókn.

Björgvin Guðmundsson

 


Aldraðir hafa 40 000 atkvæði!

 

Bylgjan hafði samband  og átti samtal við mig um kjaramál aldraðra.Það  var Þorgeir Ástvaldsson, sem hafði samband. Hann hafði greinilega verið að  lesa grein mína í Fréttablaðinu á fimmtudag, þar sem ég ræddi m.a  lífeyrissjóðina.Fyrirsögnin á greininni var: Ríkið seilist bakdyramegin i lífeyrissjóðina. Og ég gat einnig í greininni um það hversu miklu betur hin Norðurlöndin gerðu við sína eldri borgara og öryrkja.Grunnlífeyrir er þrefalt hærri í grannlöndum okkar en hér.Og ég gat um það, að stjórnvöld væru miklu jákvæðari í garð eldri borgara þar en hér.Hér eru stjórnvöld neikvæð í garð eldri borgara.Þorgeir spurði mig um nýja frumvarpið um almannatryggingar og hvort ekki hefði komið til greina að eldri borgarar byðu fram til alþingis.

Ég sagði Þorgeir,að frumvarpið um almannatryggingar væri meingallað og bætti ekki kjör þeirra,sem verst væru verst  staddir um eina krónu.Frumvarpið gerir ráð fyrir,að lífeyrir þeirra verst stöddu  verði upp á krónu eins og áður.Það taldi ég furðulegt, þar eð ekki væri unnt að framfleyta sér af þeim lífeyri.Þá skýrði ég frá því ,að staða þeirra,sem væru á vinnumarkaðnum versnaði vegna aukinna skerðinga,sem frumvarpið gerði ráð fyrir. Kjör þeirra,sem hafa lífeyrissjóð batnar hins vegar örlítið. En ég vil,að tekjutengingar verði alveg afnumdar og skerðingar vegna lífeyrissjóða verði því úr sögunni.Það er ekki nóg að draga úr skerðingum.Við eigum lífeyrinn í lífeyrissjóðunum.

Það hefur stundum komið til greina,að eldri borgarar byðu fram.Atkvæði eldri borgara eru nú orðin 40.000 og  því ljóst,að eldri borgarar hafa mikið afl ef þeir standa saman. Þeir buðu fram í Ísrael og fengu 20 % atkvæða. Skoðanakönnun Capacent sem gerð var hér fyrir nokkrum árum leiddi í ljós,að eldri borgarar fengju  25% atkvæða ef þeir byðu fram. Mörgum eldri borgurum gremst mjög  hvað stjórnvöld eru skeytingarlaus um hag eldri borgara og beinlínis neikvæð gagnvart þeim.Ég fæ margar fyrirspurnir frá eldri borgurum sem spyrja hvort við ættum ekki að bjóða fram.Mín afstaða hefur verið þessi: Kjósum þá,sem bæta kjör eldri borgara og öryrkja.Og þá sem sýna raunhæfan vilja á að vilja bæta kjörin.

Björgvin Guðmundsson


Bloggfærslur 24. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband