Níðst á þeim,sem verst standa

 

 

 

Ríkisstjórn Framsóknarflokksins,sem var að fara frá,  ætlaði að koma á svokölluðu starfsgetumati  fyrir öryrkja og hún ætlaði að hækka eftirlaunaaldurinn.Það átti að hækka aldurinn úr 67 árum í 70 ár í áföngum.Starfsgetumat felst í því að falla frá læknisfræðilegu örorkumati og byggja í staðinn örorkumatið á því hvað hver öryrki geti unnið mikið.Ríkisstjórn Framsóknar hvarf frá hvoru tveggja.Öryrkjabandalag Íslands mótmælti starfsgetumatinu  harðlega, einkum vegna þess að það hefði ekki verið kynnt nóg og bandalagið  benti á , að ef taka ætti upp starfsgetumat þyrfti það langan undirbúningstíma; m.a. þyrfti að tryggja, að öryrkjar, sem treystu sér til þess að vinna hlutastörf, fengju slík störf svo og full störf, ef öryrkjar treystu sér í þau.Eldri borgarar gerðu einnig verulegar athugasemdir við tillöguna um að hækka eftirlaunaaldurinn í 70 ár.Ríkisstjórnin ákvað að falla frá báðum þessum umdeildu atriðum.

Ætlar nýja stjórnin að endurtaka klúðrið?

En þrátt fyrir örlög þessara tveggja atriða er nýja stjórnin farin af stað með þau bæði aftur sbr nýja stjórnarsáttmálann.Það er alveg augljóst, að ríkisstjórnin ætlar að reyna að spara ríkisútgjöld með því að hækka eftirlaunaaldurinn í 70  ár.Það á að láta eftirlaunafólkið sjálft greiða aukin útgjöld almannatrygginga! Nýja stjórnin gerir sér einnig vonir um að fækka öryrkjum með því að taka upp starfsgetumat.Öll vinna fyrrverandi ríkisstjórnar að málefnum öryrkja í almannatryggingafrumvarpinu  var eitt  allsherjarklúöur.

Hlaðið undir þá,sem hafa meira en nóg!

Nú segist nýja stjórnin ætla að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna og vinna að sveigjanlegum starfslokum.Fyrst skera Sjálfstæðismenn frítekjumark vegna atvinnutekna niður við trog en segjast svo skömmu síðar ætla að hækka það!  En ekkert á að hækka lífeyri þeirra, sem einungis hafa lífeyri frá almannatryggingum enda þótt ekki sé unnt að lifa af þeim lífeyri.Það er furðulegt. Það er eins og öllum stjórnmálamönnum sé það keppikefli að halda öldruðum og öryrkjum, sem ekki hafa lífeyrissjóð, við hungurmörk. En á sama tíma taka stjórnmálamennirnir sér ríflegar kauphækkanir sjálfir; um 44 % hækkuðu laun þingmanna 13.oktober 2016 , áður en þeir mættu í vinnuna.Laun þingmanna hækkuðu þá í 1100 þúsund kr á mánuði fyrir skatt en laun ráðherra hækkuðu í 2 milljónir kr á mánuði fyrir skatt.Lífeyrir aldraðra og öryrkja er hins vegar áfram rúmlega 200 þúsund á mánuði eftir skatt; hækkaði aðeins um 5-9%..Þetta er réttlætið á Íslandi í dag: Níðst er á þeim,sem verst standa en hlaðið meiria og meira undir hina, sem hafa nóg.

Björgvin Guðmundsson

Fréttablaðið 19.janúar 2017

 

 


Brexit verður Bretum erftt; getur skaðað hagsmuni Íslands

 

 

 

Theresa May forsætisráðherra Bretlands hefur nú  áttað sig á því, að útganga Bretlands úr ESB þýðir,að Bretland fer jafnframt úr Evrópska efnahagssvæðinu og missir því allan aðgang að innri markaði ESB.Hún flutti ræðu í gær þar sem hún viðurkenndi þetta.Therea May  gefur til kynna að það sé ákvörðun Breta að slíta einnig tengsl við EES en það er leikaraskapur hjá henni.Það var aldrei í boði að Bretland segði sig úr ESB og mundi síðan fleyta rjómann af því sem best væri fyrir Bretland í   samstarfi við ESB.Eina leiðin fyrir Brretland til þess að halda aðild að EES er að ganga í EFTA.En ekki er talið líklegt að Bretland geri það.Bretar hafa meiri áhuga á sérsamningi við ESB. En mér er til efs að Bretar fái meira út úr því en aðild að EES.

Það er nú komið í ljós,að útganga Bretlands úr ESB var algert frumhlaup.Pundið hefur hríðfallið síðan og lífskjör Breta versnað.Hætt er við, að mörg stór fyrirtæki yfirgefi Bretland þegar Bretar fara úr ESB og innri markaði ESB.Það er miklu hagstæðara  fyrir bresk stórfyrirtæki að vera áfram á innri markaði ESB.

Angela Merkel kanslari Þýskalands sagði í gær,að ef Bretar vildu áfram eiga aðild að innri markaði ESB yrðu þeir að samþykkja líka fjórfrelsið en það þýðir m.a. frjálsa för fólks.En Bretar vilja aðild að innri markaði ESB án þess að samþykkja frjálsa för fólks. Það er ekki í boði sagði Merkel.Viji Bretar gera fríverslunarsamning við ESB getur það hugsanlega verið í boði en án aðildar að innri markaði ESB .Útganga Breta úr ESB mun verða Bretum mjög erfið.Hætt er við að hún eigi eftir að skaða viðskiptin við Ísland.Tollfrelsið sem Ísland nýtur í Bretlandi er vegna aðildar Íslands að EES.Um leið og Bretland fer úr ESB (og EES) fellur tollfrelsið niður og það verður að semja um það upp á nýtt milli Íslands og Bretlands.Það eru draumórar að halda, að það felist einhver ný  tækifæri fyrir Ísland í viðskiptum við Bretland eftir Brexit.Það má gott heita, ef tekst með nýjum samningum að endurnýja það tollfrelsi, sem Ísland hefur notið í Bretlandi en hætt er við, að töf verði á nýjum samningum.Ekki er ljóst enn hvað Bretar vilja í því efni.

 

Björgvin Guðmundsson

 


Bloggfærslur 19. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband