Seðlabankinn kaupir skuldabréf,sem veðsett voru Seðlabanka Luxemborgar

Seðlabankinn hefur keypt skuldabréf í eigu Avens B.V. í Hollandi, dótturfélags Landsbankans, fyrir 402 milljónir evra. Már Guðmundsson, bankastjóri Seðalbanka Íslands, og Yves Mersch, seðlabankastjóri Lúxemborgar, greindu í morgun frá samkomulagi bankanna um kaup á 98% útistandandi skuldabréfa Avens B.V. Skuldabréfin voru í eigu Landsbankans í Lúxemborg en veðsett í Seðalbanka Lúxemborgar í tengslum við lausafjárfyrirgreiðslu á árinu 2008. Samkvæmt samkomulaginu mun Seðlabanki Íslands fá full yfirráð yfir eignum Avens B.V. , sem er stærsti einstaki eigandi krónueigna utan Íslands, en eignirnar nema um 120 milljörðum króna.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að samkomulagið sé veigamikill áfangi í uppgjöri vegna falls íslensku bankanna. Það muni lækka erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins um rúmlega 3,5% af  landsframleiðslu og krónueign erlendra aðila um því sem næst fjórðung, eða um 8% af vergri landsframleiðslu. Samkomulagið sé mikilvæg forsenda þess að hægt sé að stíga næstu skref í afnámi hafta á gjaldeyrisviðskiptum hér á landi.

Fréttatilkynning Seðlabankans:

Seðlabanki Íslands hefur fyrir sína hönd og Ríkissjóðs Íslands gert samkomulag við Seðlabankann í Lúxemborg (BCL) og skiptastjóra Landsbankans í Lúxemborg um kaup á 98% útistandandi skuldabréfa Avens B.V. Skuldabréfin voru í eigu Landsbankans í Lúxemborg en veðsett BCL í tengslum við lausafjárfyrirgreiðslu á árinu 2008. Landsbankinn í Lúxemborg (Landsbanki Luxembourg S.A.) er dótturfélag Landsbanka Íslands hf.

Samkvæmt samkomulaginu mun Seðlabanki Íslands fá full yfirráð yfir eignum Avens B.V. , sem er stærsti einstaki eigandi krónueigna utan Íslands, en krónueignir þess nema um 120 ma.kr. eða um fjórðungi allra krónueigna erlendra aðila. Röskur þriðjungur þeirra eru innstæður í bönkum en tveir þriðju hlutar eru skuldabréf gefin út af ríkissjóði eða með ábyrgð hans.

Stóran hluta kaupverðsins greiðir Seðlabanki Íslands með 402 milljóna evra skuldabréfi útgefnu af ríkissjóði til 15 ára. Bréfið er afborgunarbréf og ber breytilega vexti sem miðast við millibankavexti (EURIBOR) að viðbættu álagi og með líkum kjörum og Norðurlönd hafa boðið Íslandi.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um ráðstöfun eigna Avens B.V. Umsjón þeirra verður á hendi ESÍ ehf. (Eignasafn Seðlabanka Íslands) eins og umsjón annarra eigna og krafna sem fallið hafa í skaut ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands vegna bankahrunsins.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Yves Mersch seðlabankastjóri Lúxemborgar undirrituðu samkomulagið í Lúxemborg í gær. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði við það tækifæri: „Þetta samkomulag er veigamikill áfangi í uppgjöri vegna falls íslensku bankanna. Það mun lækka erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins um rúmlega 3,5% af landsframleiðslu og krónueign erlendra aðila um því sem næst fjórðung eða um 8% af vergri landsframleiðslu. Samkomulagið er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að stíga næstu skref í afnámi hafta á gjaldeyrisviðskiptum hér á landi. Ég vil nota tækifærið og þakka Yves Mersch seðlabankastjóra og samstarfsmönnum hans, og Yvette Hamilius skiptastjóra Landsbankans í Lúxemborg fyrir veigamikið framlag þeirra til þess að leiða þetta mál til lykta með árangursríkum hætti. Hið vinsamlega og uppbyggilega viðmót sem Mersch seðlabankastjóri hefur sýnt í þessu ferli kemur að góðu haldi við að leysa sum þeirra vandamála sem skapast hafa vegna falls banka á Íslandi í fjármálakreppunni og leggur traustan grunn að áframhaldandi góðu samstarfi á milli Seðlabanka Lúxemborgar og Seðlabanka Íslands.(ruv.is)

Það er fagnðarefni að framnangreint samkomulag skuli hafa verið gert.Það lækkar erlendar skuldir Íslands og auðveldar afnám gjaldeyrishaftanna.

Björgvin Guðmundsson

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband