Skuldatryggingarálag ríkissjóðs lækkar enn

Skuldatryggingaálag ríkissjóðs Íslands hefur lækkað nokkuð á síðustu dögum. Í lok dagsins í gær stóð álagið til 5 ára í 317 punktum (3,17%) sem er 20 punktum lægra en það var um miðja síðustu viku.

 

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að gildi skuldatryggingaálags ríkissjóðs sé jafnframt mun lægra nú en það hefur að jafnaði verið það sem af er þessu ári, en að meðaltali hefur það verið um 440 punktar frá áramótum talið.

 

Þó er hér ekki um almenna lækkun á skuldatryggingaálagi á mörkuðum að ræða, og í raun er þessu í flestum tilfellum öfugt farið þannig að áhættuálagið á mörgum öðrum ríkjum hefur verið að hækka á sama tíma og álagið á íslenska ríkið hefur lækkað.

 

Meðaláhættuálag á ríki í Vestur Evrópu var í gær 157 punktar en í ársbyrjun var það rétt undir 100 punktum. Það ætti ekki að koma á óvart að þessa hækkun álagsins megi að mestum hluta rekja til Grikklands, Portúgals, Spánar og Írlands enda hafa fá ríki fengið jafn mikla umfjöllun í fjölmiðlum um stöðu efnahagsmála, og þá neikvæða, en einmitt þau.

 

Á þetta sérstaklega við um gríska ríkið en í lok dags í gær stóð skuldatryggingaálag þess í 825 punktum sem er rúmum 540 punktum hærra en það var í byrjun þessa árs. Í þessum samanburði, þ.e. á meðal ríkja Vestur Evrópu, hefur álagið hækkað næstmest á portúgalska ríkið. Í byrjun árs var það rétt rúmir 90 punktar en í lok dags í gær stóð það í 283 punktum. Á sama tíma hefur álagið á Spán hækkað um 105 punkta (þ.e. úr 114 í 219 punkta) og álagið á Írland um 88 punkta (þ.e. úr 158 í 246 punkta).

 

Á heildina litið hefur í raun áhættuálagið lækkað mest á þessu tiltekna tímabili á íslenska ríkið af öllum ríkjum Vestur Evrópu og nemur punktalækkunin 95 punktum. Þrátt fyrir þessa þróun er skuldatryggingaálag á íslenska ríkið enn hið annað hæsta á meðal þeirra ríkja Vestur-Evrópu sem seldar eru skuldatryggingar fyrir. (visir.is)

 

Björgvin Guðmundsson



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband