Spítalavist verði áfram gjaldfrjáls

Björgvin Guðmundsson skrifar grein í Morgunblaðið í dag: Spítalavist verði áfram gjaldfrjáls.Þar segir svo:

Starfandi er á vegum velferðarráðuneytisins nefnd, sem á að undirbúa  eitt niðurgreiðslu-og afsláttarkerfi við kaup á heilbrigðisþjónustu, þar á meðal lyfjum.Í frumvarpi,sem lagt verður fram um málið, verður lagt til, að undir slíkt sameiginlegt niðurgreiðslu-og afsláttarfyrirkomulag verði felldur kostnaður við læknisþjónustu,lyfjakaup,rannsóknir,sjúkraþjálfun og  aðra heilbrigðisþjónustu.Með annarri heilbrigðisþjónustu er  meðal annars átt við  sjúkrahúskostnað.Nýja kerfið á m.ö.o. að ná til alls kostnaðar við heilbrigðisþjónustu hvort sem er utan eða innan heilbrigðisstofnana.
Ætlunin er að setja þak á þátttöku einstaklinga í kostnaði við heilbrigðisþjónustu.Formaður nefndarinnar hefur látið orð falla um það, að þetta þak gæti verið 120 þús. kr. Ef meiningin er, að kaupendur heilbrigðisþjónustu verði að greiða allan  kostnað við þá þjónustu utan eða innan heilbrigðisstofnana þar til umræddu þaki er náð mundi það verða lágtekjufólki og mörgum öldruðum og öryrkjum um megn.Almenningur yrði þá að greiða fyrir sjúkrahúsvist þar til 120 þús. kr. markinu væri náð.Það gæti leitt til þess,að hinir efnaminni yrðu að neita sér um sjúkrahúsvist.
 
Höldum í gjaldfrjálsa sjúkrahúsvist
 
Fram til þessa hefur sjúkrahúsvist á Íslandi verið  gjaldfrjáls fyrir sjúklinga. Tryggingarnar hafa greitt sjúkrahúsvistina.Allir hafa því átt kost á fullkominni sjúkrahúsmeðferð án tillits til efnahags.Þetta hefur verið aðalsmerki íslenska heilbrigðiskerfisins.Við verðum að halda í þetta einkenni kerfisins. Við megum ekki taka upp bandaríska kerfið, þar sem aðeins þeir efnameiri geta veitt sér fullkomnna sjúkrahúsmeðferð.Við eigum frekar að taka okkur hin Norðurlöndin til fyrirmyndar í þessum efnum.Það er ágætt markmið að setja þak á heildarkostnað sjúklinga við kaup á heilbrigðisþjónustu en það má ekki verða á kostnað bestu kosta heilbrigðiskerfisins svo sem þeirra að sjúklingar eigi kost á gjaldfrjálsri sjúkrahúsmeðferð.Ef farið yrði að rukka sjúklinga fyrir sjúkrahúsvist upp að vissu marki yrði það mikil afturför í okkar heilbrigðiskerfi.Það yrði gerbreyting, sem mundi flytja okkar heilbrigðiskerfi marga áratugi til baka.Það verður að koma í veg fyrir, að slíkar ráðagerðir verði af veruleika.Það verður að slá skjaldborg um okkar heilbrigðiskerfi og verja það með öllum ráðum.
 
Landsspítalinn í hættu
 
Undanfarin ár hefur mikið verið skorið niður í heilbrigðiskerfinu,bæði á Landspítalanum og í sjúkrastofnunum úti á landi.Þetta voru afleiðingar bankahrunsins og kreppunnar,sem fylgdi í kjölfar þess.Nú er kreppunni lokið.Hagvöxtur er þokkalegur miðað við önnur lönd í Evrópu og kaupmáttur er farinn að aukast.Atvinnuleysi hefur minnkað mikið.Það er því komið að því að rétta heilbrigðiskerfið af á ný.En ríkisstjórnin segir, að ekki séu enn til fjármunir til þess að efla heilbrigðiskerfið nægilega.Forstjóri Landspítalans segir að það vanti 2 milljarða til Landsspítalans aðeins til þess að rekstrargrunnur  spítalans sÄ— í lagi.Spítalinn hefur fengið fjármuni til tækjakaupa.Þau voru úr sér gengin en það vantar fjármuni til þess að bæta kjör lækna og hjúkrunarfólks, til viðhalds spítalans og til þess að snúa að einhverju leyti til baka hinum mikla niðurskurði á spítalanum, sem er orðinn óbærilegur og skapar óviðunandi álag.Fjárveitingar til spítalans eru 10% minni í dag en 2008 á föstu verðlagi.Ef litið er á rekstrargrunn spítalans kemur í ljós,að aðeins hefur aðeins verið bætt við hann 120 millj. kr. 2014 og 2015 .Sömu sögu er að segja um sjúkrastofnanir úti á landi.Þær vantar aukið fjármagn. Ljóst er samkvæmt þessu,að ekki var tímabært að leggja af auðlegðarskatt,sem gefur 10 milljarða á ári og heldur ekki ráðlegt að lækka veiðigjöld um 8,5 milljarða eins og gert var.Þessa peninga hefði þurft að nota alla í heilbrigðiskerfið.
 

         Hjúkrunarheimilin flest með halla
 
         Hjúkrunarheimilinu í landinu eiga við mikla fjárhagserfiðleika að stríða.Þau eru flestöll rekin með halla.Daggjöldin eru of lág og þess vegna verða hjúkrunarheimilin að spara mikið í rekstrinum.Það er ekki gott  að þurfa að skera mikið niður útgjöldin, þegar sjúklingar og eldri borgarar eru annars vegar.Eldri borgarar eiga það inni hjá þjóðfélaginu, að búið sé vel að þeim í ellinni.Daggjöld hjúkrunarheimila eru 22   milljarðar.Þau þyrftu að hækka um 10% til þess að reksturinn væri í viðunandi horfi eða um 2,2 milljarða.Það vantar því ekki aðeins fjármuni til Landspítalans heldur einnig til hjúkrunarheimilanna vítt og breitt um landið.Að mínu mati á að leysa úr þessum bráðavanda heilbrigðiskerfisins áður en  auðlegðarskattur er afnumin og veiðigjöld lækkuð.
 
Björgvin Guðmundsson


www.gudmundsson.net 
 
 
 
  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband