Ársverðbólga 1 % næsta ár

Greining Arion banka spáir því að ársverðbólgan minnki niður í eitt prósentustig á næstu þremur mánuðum. Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningarinnar.

„Segja má að verðbólgumælingin í október hafi valdið markaðsaðilum nokkrum vonbrigðum enda voru verðbólgutölur í hærri kantinum, miðað við það sem verið hefur, jafnvel þótt horft sé framhjá áhrifum vegna gjaldskrárhækkana hjá OR," segir í Markaðspunktunum.

„Við teljum þetta þó aðeins vera tímabundið bakslag og eru verðbólguhorfur afar hagstæðar á næstu mánuðum, enda fáir verðbólguvaldar til staðar. Líklegt er að gengisstyrking krónunnar og erfitt árferði muni spila stærra hlutverk en áður í þeim mælingum sem framundan eru.

Líklega þarf ekki að horfa lengra en þrjá mánuði fram í tímann til að sjá ársverðbólguna ganga niður í rúmlega eitt prósentustig - jafnframt teljum við að verðbólgan muni sveiflast í kringum svipað gildi á næsta ári."

Í Markaðspunktunum eru síðan raktar helstu forsendur fyrir þessari verðbólguspá. Þær eru:

„Áframhaldandi slaki verður í hagkerfinu og kaupmáttur heimila lítill. Í því umhverfi sem nú er má gera ráð fyrir litlum sem engum eftirspurnarþrýstingi í hagkerfinu. Útlit er fyrir að svo verði áfram út næsta ár.

Launahækkunum verður stillt í hóf og atvinnuleysi helst áfram hátt. Lítil hætta er því á kostnaðarverðbólgu vegna launahækkana.

Krónan helst stöðug. Við gefum okkur að gjaldeyrishöftin verði áfram til staðar og aflétting hafta muni eiga sér stað í afar smáum skrefum. Því er fátt sem bendir til stórvægilegra breytinga á gengi krónunnar á næstu misserum.

Skatta- og gjaldskrárhækkanir. Gert er ráð fyrir að skatthækkanir verði heldur minni á næsta ári, eru heildaráhrifin metin í kringum 0,25% á árinu 2010 og 0,1% á árinu 2011 (m.v. mat Seðlabankans í nýjustu Peningamálum). Þá er gert ráð fyrir frekari gjaldskrárhækkunum hjá sveitarfélögum og kemur meginþungi þeirra fram á fyrsta ársfjórðungi 2011.

Húsnæðisliðurinn hefur engin áhrif á næsta ári. Frá hruni hefur húsnæðisliðurinn einungis dregið verðbólguna niður um rúmlega 2% en á sama tíma hefur verðlag hækkað um rúmlega 13%. Hugsanlega er um vanmat að ræða á húsnæðisverðslækkunum um þessar mundir, enda afar fáar mælingar á bakvið hverja mælingu sem skapar ákveðinn mælingarvanda.

Við erum því afar varfærin í spá okkar um húsnæðislið VNV og teljum að hann muni hafa takmörkuð áhrif á verðbólguna á næsta ári, þ.e. hvorki til hækkunar né lækkunar. Auðveldlega má þó færa rök fyrir því að sú spáforsenda sé í bjartsýnari kantinum einkum ef kaupsamningum fer að fjölga að einhverju ráði. Líkur eru á því að auknar veltutölur muni endurspegla lækkandi fasteignaverð."(visir.is)

 

Björgvin Guðmundsson



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband