Góð afkoma Landsbankans

Afkoma NBI hf. (Landsbankans) var jákvæð um tæpa 3,5 milljarða króna eftir skatta á þriðja ársfjórðungi 2010. Samanlagður hagnaður bankans á fyrstu 9 mánuðum ársins nemur 12,9 milljörðum króna. Arðsemi eigin fjár fyrstu 9 mánuðina er 10,9%.

Í tilkynningu segir að til samanburðar nam hagnaður ársins 2009 14,3 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall Landsbankans er nú 17,3%. Það er vel umfram þá 16% kröfu sem Fjármálaeftirlitið gerir til bankans.

Þriðji ársfjórðungur markaðist af breytingum á innra starfi bankans, en á þessu tímabili var bankanum mótuð ný stefna, nýtt skipurit samþykkt og auglýstar lausar til umsóknar allar átta stöður framkvæmdastjóra. Að öðru leyti var áfram beðið eftir niðurstöðum áhrifa af dómi Hæstaréttar um lögmæti erlendra lána sem féll 16. júní.

Landsbankinn hefur með sérstökum varúðarfærslum tekið tillit til niðurstöðu þess dóms og einnig dóms Hæstaréttar um vaxtaviðmið gengistryggðra lána sem féll 16. september. Vegna þessa gjaldfærði bankinn um 8,3 milljarða króna strax á öðrum ársfjórðungi. Stærstur hluti þeirrar fjárhæðar er vegna virðisrýrnunar lána SP-Fjármögnunar, dótturfélags bankans.

Úrlausn skuldamála og efling atvinnulífs stærstu verkefni bankakerfisins

Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans segist sáttur við rekstur bankans á þriðja ársfjórðungi. Hann segir hins vegar að þessir mánuðir hafi einkennst af kyrrstöðu.

,,Landsbankinn vill vera hreyfiafl í íslensku samfélagi og ætlar sér forystuhlutverk í uppbyggingu atvinnulífs. Í þeim tilgangi hefur bankinn meðal annars ákveðið að selja hratt þau fyrirtæki sem hann eignast og er nýleg sala iðnfyrirtækisins Límtrés Vírnets til marks um það," segir Steinþór Pálsson.

„Lyfjadreifingarfyrirtækið Parlogis var selt í júlí og með þessu móti viljum við reyna að koma hreyfingu á markaðinn og örva hann."

Landsbankinn reyndi líka að selja verslunarmiðstöðina Smáralind en varð að hætta við vegna þess að tilboðin voru óviðunandi. Þar voru erlendir fjárfestar áhugasamir en drógu sig í hlé vegna þessarar biðstöðu og miklu óvissu sem hér ríkir. Úr þessu ástandi verður að bæta."

Steinþór segir að meginmarkmið bankans sé eftir sem áður að hraða uppgjöri skuldamála heimila og fyrirtækja og búa þannig um hnúta að sem flestir uni sæmilega sáttir við sitt.

,,Við höfum á undaförnum mánuðum unnið að endurútreikningi erlendra lána sem viðskiptavinum býðst að breyta í íslensk, til samræmis við fyrirliggjandi lagafrumvarp og við höfum unnið að úrbótum á þeim lausnum sem við bjóðum fyrir fyrirtæki og einstaklinga í samráði við stjórnvöld og á vettvangi Samtaka fjármálafyrirtækja. Við bindum vonir við að þessi vinna skili okkur vel áleiðis," segir Steinþór.(visir.is)

 

Góð afkoma Landsbankans ætti að auðvelda bankanum að fella niður hluta af skuldum heimilanna.

Ríkisstjórnin bíður eftir að bankarnur fallist á slíka niðurfellingu.

 

Björgvin Guðmundsson





« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband