Frumvarp um afturköllun kjaraskerðingar aldraðra og öryrkja flutt á alþingi í gær

Margrét Tryggvadóttir,þingmaður Hreyfingarinnar fylgdi úr hlaði á alþingi í gær frumvarpi um afturköllun kjaraskerðingarinnar frá 1.júlí 2009 en þá var stór hópur lífeyrisþega sviptur grunnlífeyri og frítekjumark vegna atvinnutekna lækkað úr 110 þús. á mánuði í 40 þús, á mánuði.Skerðingarhlutfall tekjutryggingar var þá hækkað úr 38,35 % í 45 %. 19000 eldri borgarar urðu fyrir kjaraskerðingu vegna breytingar á skerðingarhlutfalli tekjutryggingar og 5000 urðu fyrir kjaraskerðingu vegna breytingar á útreikningi grunnlífeyris.
Margréti fórust m.a. svo orð er hún fylgdi frumvarpinu úr hlaði:
Frumvarp þetta miðar að því að snúa við þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um almannatryggingar nr. 70/2009, á þann hátt að réttarstaða hlutaðeigandi aðila verði sú sama og hún var fyrir þær breytingar.
Með lögum nr. 70/2009, sem samþykkt voru 29. júní 2009, voru gerðar margvíslegar breytingar á elli- og örorkubótum sem skerða bætur lífeyrisþega. Lögin tóku gildi 1. júlí sama ár og því höfðu þeir sem fyrir skerðingunum urðu afar lítinn tíma til að aðlaga sig breytingunum. Þáverandi félagsmálaráðherra sagði af þessu tilefni að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða og væri ráðstöfuninni ætlað að gilda í þrjú ár. Sá tími er liðinn. Í greinargerð með frumvarpinu eru einnig vísbendingar um ætlun stjórnvalda. Þar segir: „Á árinu 2008 náðust fram miklar réttarbætur til handa öldruðum og öryrkjum í formi afnáms makatenginga, hækkunar bóta, hækkaðs frítekjumarks vegna atvinnutekna, sérstaks frítekjumarks á lífeyrissjóðstekjur öryrkja, sérstaks frítekjumarks á fjármagnstekjur og lækkunar skerðingarhlutfalls ellilífeyrisþega. Óhjákvæmilegt er að stíga skref til baka við núverandi aðstæður. Lögð er áhersla á að litið sé svo á að um tímabundnar ráðstafanir sé að ræða sem taki mið af því efnahagsástandi sem nú ríki í þjóðfélaginu. Jafnframt er mikilvægt að áfram verði unnið að endurskoðun almannatryggingakerfisins í því skyni að gera það einfaldara og gagnsærra en þó fyrst og fremst með bættan hag aldraðra og öryrkja í huga.“
Nú rúmum þremur árum síðar hefur ráðstöfunin ekki gengið til baka og ljóst er að ef færa á þetta til baka á þessu kjörtímabili verður að ráðast í það strax. Um mikið réttlætismál fyrir bæði aldraða og öryrkja er að ræða og telja flutningsmenn frumvarpsins brýnt að málið fái framgöngu á þessu þingi.
Frumvarpinu var vísað til nefndar.

 

Björgvin Guðmundsson


.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband