ESB: Er Björn Bjarnason að snúast?

Össur Skarphéðinsson skrifar um Evrópuumræðuna á bloggsíðu sína. Þar segir hann m.a.:

Merkilegast finnst mér þó framlag Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra til umræðunnar. Innan Sjálfstæðisflokksins er Björn gjarnan sá sem fyrst hugsar upphátt þegar veðrabrigði eru í nánd um utanríkisstefnu. Rifja má upp að honum var á sínum tíma falin stefnumörkun af hálfu flokksins innan Evrópunefndarinnar. Í Mannamáli fyrir réttri viku hlustaði ég með mikilli athygli á hann stinga upp á því að áður en lengra yrði haldið í umræðunni um Evrópusambandið ættu menn að gera vegvísi um það hvað ætti að gera – til að hægt væri að sækja um aðild að sambandinu! Björn lagði beinlínis til að menn kæmust að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig ætti að breyta stjórnarskránni til að hægt væri að sækja um aðild. Sömuleiðis þyrfti í þeim pakka að ákveða hvort – og hvernig - ætti að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þá ákvörðun, að sækja um aðildina.  Sjálfur veit hann frá því að við sátum nokkrir þingmenn í Evrópunefndinni að allar upplýsingar um kosti og galla aðildar liggja meira og minna fyrir í skýrslu þeirrar nefndar og þeir þættir þurfa ekki frekari rannsóknar við. Ásteytingssteinninn felst í því að það er erfitt fyrir marga að hugsa sér, að formlega myndi ákvörðun um heildarafla verða tekin í Brussel. En í því efni eru líka leiðir einsog þeir vita, sem sökkt hafa sér niður í Evrópuumræðuna. (Tók enginn eftir því snilldarbragði Barroso sem bað Geir forsætisráðherra á dögunum um liðsinni Íslendinga við að útfæra sjávarútvegsstefnuna?). 

Vitaskuld sló Björn sína varnagla. Hann taldi að ekki væri hægt að stilla mönnum upp gagnvart því að taka afstöðu fyrr en það væri á hreinu hvernig ætti að taka á til dæmis þessum þáttum – breytingum á stjórnarskrá og hvort halda bæri þjóðaratkvæðagreiðslu á undan umsókn, og þá hvernig.

Ummæli Björns Bjarnasonar í Mannamáli benda  til þess  að Björn sé að snúast í afstöðunni til ESB.

Björgvin Guðmundsson  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Björn Bjarnason og óskhyggja Evrópusambandssinna

Einskær óskhyggja hefur leitt einhverja út í vangaveltur um það hvort afstaða Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, sé að breytast til aðildar að Evrópusambandinu. Tilefni óskhyggjunnar er gagnrýni Björns á þá sem svo ólmir vilja ganga í Evrópusambandið og núllstilla þar með sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Þá gagnrýni setti Björn upphaflega fram í þættinum Mannamál hjá Sigmundi Erni Rúnarssyni nýverið og hefur síðan fylgt henni eftir á heimasíðu sinni. Björn hefur nefnt þessa aðila masara þegar kemur að umræðum um Evrópumál. Þeir tali í sífellu um meinta nauðsyn Evrópusambandsaðildar en talsvert minna sé um það að þeir útlisti nákvæmlega hvernig standa eigi að slíkri aðild kæmi til hennar.

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, er í fararbroddi þeirra Evrópusambandssinna sem fjallað hafa um ummæli Bjarnar og í óskhyggju sinni talið sig greina þar einhvern nýjan tón. Það skemmtilega við aðkomu Össurar er að segja má að gagnrýni Björns beinist í raun ekki hvað sízt að hæstvirtum iðnaðarráðherra. Þannig má t.a.m. rifja upp að Össur var formaður Samfylkingarinnar þegar því var á sínum tíma lýst hátíðlega yfir að flokkurinn hyggðist setja af stað vinnu við að skilgreina samningsmarkmið Íslands í hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Síðan eru liðin mörg ár og mér er ekki kunnugt um að þeirri vinnu sé lokið eða hafi nokkurn tímann farið af stað ef út í það er farið.

Þetta minnir annars óneitanlega á það hér um árið þegar Davíð Oddsson, þá forsætisráðherra, átti að vera að skipta um skoðun á Evrópumálunum að sögn hérlendra Evrópusambandssinna. Tilefnið voru ummæli Davíðs á fundi með sjálfstæðismönnum í Valhöll þess efnis að til þess gæti komið að það hentaði hagsmunum Íslendinga að ganga í Evrópusambandið, þ.e. ef undið yrði all verulega ofan af því. Þetta gripu Evrópusambandssinnar á lofti og kusu í óskhyggju sinni að horfa algerlega framhjá þeim vægast sagt stóra fyrirvara sem Davíð setti fyrir því að slíkt skref kynni að vera heppilegt. Það sama er í gangi núna. Ummæli eru misskilin viljandi í þágu eigin óskhyggju.

Það fyndnasta við þetta mál allt saman með ummæli Björns er þó að sjónvarpsþátturinn, þar sem Björn á að hafa upplýst um breytta afstöðu sína til Evrópumálanna að sögn téðra Evrópusambandssinna, var sjónvarpað þann 16. marz sl. Daginn áður, 15. marz, ritaði Björn grein á heimasíðu sína þar sem hann fjallaði um slæma reynslu Íra af veru sinni á evrusvæðinu. Greininni lauk á þessum orðum:

"Undanfarnar vikur hef ég setið tvo Schengen-ráðherrafundi og þar á meðal tekið þátt í tveimur lokuðum, óformlegum umræðum. Ég fullyrði, að Ísland, Noregur og Sviss standa ekki verr að vígi en aðildarríki ESB, ef áhugi er á því að viðra á þessum vettvangi einhver sérgreind hagsmunamál þessara ríkja eða hafa áhrif á ákvarðanir. Ég er einnig þeirrar skoðunar, að unnt sé að vinna skipulegar að því að kynna og ræða íslenska Schengen-hagsmuni við framkvæmdastjórn ESB með núverandi skipan en ef Ísland væri aðili að ESB.

Störf mín á þessum vettvangi síðan 2003, fyrir utan formennsku í Evrópunefndinni, 2004 til 2007, hafa gefið mér einstakt tækifæri til að afla mér haldgóðrar þekkingar á tengslum Íslands og Evrópusambandsins – jafnvel meiri en flestra annarra íslenskra stjórnmálamanna. Með þessa reynslu að baki blæs ég á þau sjónarmið, að með núverandi skipan sé ekki unnt að tryggja íslenska hagsmuni á fullnægjandi hátt gagnvart Evrópusambandinu. Auk þess lít ég á það sem uppgjöf við stjórn íslenskra efnahagsmála að halda, að allur vandi hverfi með því einu að ganga í Evrópusambandið til að komast í eitthvert evruskjól."
(feitletrun mín)

Já, þessi skrif benda sterklega til þess að Björn sé að skipta um afstöðu til Evrópumálanna. Það sér auðvitað hver maður. Svona er það þegar óskhyggjan hleypur með menn í gönur Wink

Hjörtur J. Guðmundsson, 22.3.2008 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband