Aldraðir fengu 3,6%-stjórnendur 13-40%!

Björgvin Guðmundsson skrifar grein í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni: Aldraðir fengu 3,6%-stjórnendur 13-40%.Þar segir svo: 

Aldraðir og öryrkjar fengu 3.6% hækkun á lífeyri sínum frá almannatryggingum um sl. áramót.Þetta var minna en nam aukningu verðbólgunnar og minna en  hækkun lægstu launa en þau hækkuðu um 5%.Vísitala neysluverðs hækkaði um 4,2% árið 2013.Samkvæmt lögum á lífeyrir aldraðra og öryrkja aldrei að hækka minnna en nemur hækkun neysluvísitölunnar og hækkun lífeyris á ennfremur  að taka mið af hækkun launa.Eftir þessum ákvæðum var ekki farið um áramótin. Það var klipid af  réttmætum  hækkunum aldraðra og öryrkja.Það er eins og stjórnvöld geti aldrei unnt lífeyrisþegum þess að fá réttmætar kjarabætur.Markmið stjórnvalda virðist ávallt vera það að halda kjörum aldraðra og öryrkja niðri.
 
Næstráðendur fyrirtækja fengu 40% hækkun! 
 
Talsvert launaskrið hefur orðið frá gerð síðustu kjarasamninga.Í rauninni  er alltaf í gangi nokkurt launaskrið. Meðaltal heildarlauna hækkaði t.d.  um rúmlega 6%  2012-2013.Einnig voru  gerðir ýmsir nýir kjarasamningar eftir að ASÍ og SA sömdu um 2,8% launahækkun. Sumir þessara samninga gengu mun lengra en samningur ASÍ og SA. Grunnskólakennarar sömdu t.d. til langs tíma um 20- 30% kauphækkun.Sú hækkun var m.a. miðuð við það, að kennarar seldu kennsluafslátt,sem þeir áttu rétt á.Ýmsir aðrir sérsamningar gengu miklu lengra í kjarabótum en samningar ASÍ.Tekjublað  Frjálsar verslunar upplýsti nýlega,að stjórnendur fyrirtækja hefðu tekið sér óeðlilega miklar launahækkanir, forstjórar 13% hækkun og næstráðendur hvorki meira né minna en 40% hækkun.Laun næstráðenda hækkuðu um 600 þús. kr. milli ára.Með þessu háttalagi gaf atvinnulífið verkafólki langt nef.  Samtök atvinnulífsins sögðu, að   ekki mætti hækka laun verkafólks og almennra launamanna um meira en 2,8% en forstjórar fyrirtækja atvinnulífsins tóku sér 13% kauphækkun og aðstoðarforstjórar tóku  40% kauphækkun!
 
Laun verkafólks hækka-  laun  aldraðra ekki! 
 
Lífeyrir aldraðra og öryrkja er ígildi launa. Þetta eru nokkurs konar laun lífeyrisþega.En það er  munur á launum launþega og launum lífeyrisþega. Það er ekkert launaskrið hjá öldruðum og öryrkjum. Á sama tíma og kaup launafólks í landinu skríður fram og hækkar umfram samninga og sumir  fá óheyrilegar hækkanir er  lífeyririnn bundinn og hækkar ekkert. Ákvæðið um, að lífeyrir eigi að fylgja launum og verðlagi virkar ekki nema að hluta til.Það eru því miður mörg dæmi um það, að lífeyrir sé frystur, þegar laun hækka. Þannig var það á krepputímanum.Þá hækkuðu lægstu laun talsvert en lífeyrir aldraðra og öryrkja hækkaði ekkert.Þetta er það sem kallað hefur verið kjaragliðnun og hún var mikil á krepputímanum.Til þess að leiðrétta þessa kjaragliðnun þarf að hækka lífeyri  um a.m.k.  20%. Það mundi þýða rúmlega 40 þús. kr. hækkun á mánuði hjá einhleypum ellilífeyrisþega, sem ekki hefði neinar tekjur frá öðrum en almannatryggingum. Það kostar 17 milljarða kr. að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja um 20%. Stjórnarflokkarnir,Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, lofuðu því í kosningabaráttunni að framkvæma þessa leiðréttingu, ef þeir kæmust til valda.Það var samþykkt á flokksþingum beggja flokkanna.Nú er komið að efndum á þessu kosningaloforði.Það þolir ekki meiri bið.
 
Hækka þarf skattleysismörkin verulega
 
Kjör margra aldraðra og öryrkja eru erfið um þessar mundir,einkum þeirra,sem hafa húsnæði á leigu.Húsaleiga er mjög há og hefur hækkað mikið.Lyfjakostnaður er einnig mjög hár svo og lækniskostnaður.Þeir lífeyrisþegar,sem hafa einungis tekjur frá almannatryggingum, eiga mjög erfitt með að láta enda ná saman.Þeir verða að neita sér um marga sjálfsagða hluti.Það er þess vegna mjög brýnt að bæta kjör þeirra.Ein besta leiðin til þess að bæta kjör lífeyrisþega og láglaunafólks er að hækka skattleysismörkin. Aðalfundur Félags eldri borgara í Reykjavík,í febrúar sl., ályktaði að hækka ætti skattleysismörkin myndarlega.Hið sama gerði síðasta þing Landssambands eldri borgara.Kjaranefnd FEB hefur einnig ítrekað ályktað um málið.Fróðlegt verður að sjá hvort ríkisstjórinin tekur upp hækkun skattleysismarka í fjárlög næsta árs.Skattleysismörk vegna tekjuskatts og útsvars vegna ársins 2014 eru 141 þús.kr.á mánuði.Þau hækkuðu um 4,2% um sl. áramót.Það var aðeins verðlagshækkun.Það þarf að hækka þau miklu meira, ef þau eiga að leiða til kjarabóta.Sennilega þyrfti að hækka skattleysismörkin í 200 þús.á mánuði svo eitthvert gagn væri í hækkuninni. Vonandi verður ríkisstjórn og alþingi við óskum eldri borgara um slíka hækkun skattleysismarkanna.
 
 
Björgvin Guðmundsson  

 
 
 
 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

KEÐJUVERKANDI SKERTUR LÍFEYRISSJÓÐUR

Boðar til BÓTar-fundar þriðjudag 2.sept 2014 frá klþ 13:00 til 14:00 við Velferðarráðuneytið • Hafnarhúsinu við Tryggvagötu •101 Reykjavík!

1. Skerðingum á bótum bótaþega TR verði hætt strax. Skerðingar sem eru ekkert annað en 80% skattur á lífeyrissjóðsgreiðslur og hvað þá keðjuverkandi skerðingum sem fara yfir 100% eða í mínus. Bara veikir (öryrkjar) og eldriborgarar (afar og ömmur) borga hverja krónu til baka og tapa einnig öðrum bótum og fara í mínus vegna skerðinga. Bara skerðingar og keðjuverkandi skerðingar fyrir öryrkjar og eldriborgar, en ekki fyrir Alþingismenn, ráðuneytin, sveitastjórnendur, TR, ASÍ, BSRB, BHM, KÍ, SA og alla hina ? Lífeyrisþegar eru þvingaðir til að greiða í lífeyrissjóði. – Sem þekkist ekki í Skandinavíu, Hollandi né annars staðar í heiminum.

2.Húsnæðismál öryrkja og lífeyrisþega verði strax komið í lag og við fáum sömu leiðréttingar á lánum og aðrir þegnar landsins (Stjórnaskrá bann við mismunun)

3.Skerðingum frá 2008 til 2014 skilað til bótþega TR strax. Bótþegar hjá TR skertir í mínus á meðan útvaldir fá allt að 40% hækkun eða sexhundru þúsun krónur á mánuði. Skerðingar vegna verðbóta eru 60% frá 2008-14 eða 70.000.-kr. á mánuði eftir skatt.. Skertir bótaþegar sveltir og gefast upp á lífinu, en stjórarnir á milljónakrónalaununum fá í ár 360.000.-kr. hækkun á mánuði eftir skatt eða tvöfaldar bætur bótþega hjá TR eftir skatt , en engar skerðingar ???

„Opinn míkrafónn" .Lífeyrisþegar eru hvattir til að mæta og hafa með sér hávaðatól til að vekja eftirtekt.

Guðmundur Ingi Kristinsson, öryrki og formaður BÓTar gik@simnet.is

S: 896-1495

BÓT–AÐGERÐARHÓPUR UM BÆTT SAMFÉLAG sjá hér: https://www.facebook.com/groups/120279531356843/

Helga Björk Magnúsd. Grétudóttir (IP-tala skráð) 28.8.2014 kl. 22:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband