ISG: Ekki þörf á þingkosningum í vor,ef ákveðið verður að sækja um aðild að ESB

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist ekki sjá ástæðu til þess að fara í kosningar í vor, verði tekin ákvörðun um það fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið á vormánuðum. Þetta sagði Ingibjörg í Kastljósi nú í kvöld.

Ingibjörg benti á að ef stjórnvöld tækju ákvörðun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu yrði að rjúfa þing og boða til kosninga. Hún sagði jafnframt að kosið hefði verið til þings fyrir 18 mánuðum síðan og mynduð ríkisstjórn. Sú stjórn væri að vinna að því að byggja upp eftir kerfishrunið sem hefði orðið.(visir,is)

Ingibjörg Sólrún staðfesti það sem hún hefur sagt  áður,að ef kjósa ætti um aðildarviðræður væri eðlilegt að kjósa til þings um leið.Hún sagði,að þær raddir heyrðust innan Samfylkingarinnar,að bankahrunið hefði verið tilefni til kosninga og jafnvel  stjórnarbreytingar.En hún teldi,að stjórnin þyrfti að ljúka sínu verki,sem hafið væri,vegna bankahrunsins,

 

Björgvin Guðmundsson


Ísraelsmenn eru sekari

Mér virðist,að Ísraelsmenn séu sekari í átökunum í Gaza en Palestínuarabar.Ísraelsmenn víla ekki fyrir sér að skjóta á saklausa borgara,jafnvel á skóla og sjúkrahús. Það er forkastanlegt.Palestínuarabar eru ekki saklausir og Hamassamtökin ,sem ráða Gaza hafa  drýgt margan glæpinn gegnum árin.En í dag hefur Ísrael  gengið of langt.

 

Björgvin Guðmundsson


Hægri sjónarmið í heilbrigðiskerfinu

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefur í hyggju að gera umtalsverðar breytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustunnar á næstunni og voru þær breytingar kynntar á fundi nú klukkan tvö.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að skipulagsbreytingarnar byggist á vinnu sem farið hefur fram á vegum heilbrigðisráðuneytisins undanfarna mánuði, eða frá því ný lög um heilbrigðisþjónustu tóku gildi haustið 2007.

„Með skipulagsbreytingunum hyggst ráðherra ná fram hagræðingu í rekstri heilbrigðisstofnana víðs vegar um landið og treysta um leið undirstöður grundvallarstarfsemi heilbrigðisþjónustunnar," segir í tilkynningunni.

„Breytingarnar hafa verið unnar í samráði við stjórnendur stofnananna sem þær taka til og meginmarkmið þeirra hafa verið kynnt starfsmönnum viðkomandi stofnana. Á næstu dögum verður unnið með stjórnendum stofnana að útfærslu breytinganna hvað varðar tilfærslur verkefna og starfsfólks. Þetta verður gert í vinnuhópum sem skipaðir verða úr hópi stjórnenda stofnananna og skila þeir útfærslu sinni til ráðherra fyrir 19. janúar 2009," segir einnig.

Megin breytingarnar verða þessar að því er varðar spítalarekstur á Höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess:

  • St. Jósefsspítala-Sólvangi verður alfarið falið hlutverk á sviði öldrunarlækninga og hvíldarinnlagna
  • Sérfræðingum og fagfólki, sem þar hafa gert skurðaðgerðir, verður boðin aðild að því að byggja upp skurðstofurekstur í nýrri aðstöðu á Suðurnesjum
  • Meltingasjúkdóma - og lyflækningadeild verður tengd starfsemi á Landspítalans og hin góða reynsla af göngudeildarstarfsemi á St. Jósefsspítala þróuð með sérfræðingum þaðan
  • Landspítalinn mun yfirtaka skurðstofurekstur á Selfossi
  • Vaktir á skurðstofum á Selfossi og í Keflavík verða lagðar af


Þá segir að breytingarnar á landsbyggðinni feli í sér verulega einföldun stjórnsýslu stofnana með sameiningu þeirra og ákvörðun um stóraukna samvinnu þeirra. Er þetta meðal annars gert í framhaldi af setningu nýrra laga um heilbrigðisþjónustu sem tóku gildi fyrir rúmu ári.

Þetta eru helstu breytingarnar á landsbyggðinni:

  • Allar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar á Norðurlandi verða sameinaðar í eina undir forystu Sjúkrahússins á Akureyri, sem verður Heilbrigðisstofnun Norðurlands og mun m.a. taka við hlutverki ráðuneytisins varðandi samning um heilsugæsluna á Akureyri
  • Allar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar á Vesturlandi verða sameinaðar í eina með höfuðstöðvar á Akranesi
  • Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja verður sameinuð Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem jafnframt tekur við umsjón með samningi sem í gildi er milli Heilbrigðisstofnunarinnar á Höfn í Hornafirði og heilbrigðisráðuneytisins
  • Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði sameinast Heilbrigðisstofnun Vestfjarða sem hefur höfuðstöðvar á Ísafirði
  • Aukið verður enn frekar samstarf milli Heilbrigðisstofnunar Austurlands og sjúkrahússins á Akureyri

„Einfaldari stjórnsýsla, hagkvæmari rekstur og aukin samvinna stofnanna er talin geta dregið verulega úr útgjaldaaukningunni sem er staðreynd varðandi þær stofnanir sem hér eiga í hlut, en markmið breytinganna er að slá skjaldborg um og tryggja kjarnastarfsemi þessara mikilvægu stofnana á sviði heilbrigðismála á erfiðum tímum," segir að lokum í tilkynningunni frá ráðuneytinu.

(visir,is) Ekki líst mér alls kostar á væntanlegar breytingar í heilbrigðisþjónustunni. Mér sýnist,að halda eigi  áfram á þeirri braut,sem Guðlaugur Þór hefur markað að auka íhalds-hægri sjónarmið í heilbirgðisþjónustunni.Nýlega hefur hann tilkynnt,að tekin verði upp komugjöld þegar fólk leggst inn á spítala. Verða menn að greiða  6 þús. kr. þegar  þeir leggjast inn á spítalan en það hefur verið aðalsmerki sjúkrahúsa hér,að vistin væri ókeypis og Samfylkingin hafði lýst því yfir,að svo yrði áfram.Leggja á niður St.Jósefsspítala,sem hefðbundið sjúkrahús og breyta því í öldrunarheimili. St.Jósefsspítali hefur verið mjög góður spítali með færum skurðlæknum og meltingarsérfræðingum. Sú starfsemi verður nú lögð niður. Þegar sjúkrahúsin í Reykjavík voru sameinuð átti að spara og hagræða mikið. En ríkisendurskoðun komst að þeirria niðurstöðu að svo hefði ekki orðið en kostnaður af sameiningunni hefði orðið mikill.Ég er hræddur um,að eins geti farið nú. Það  er verið að gera miklar breytingar nú til þess að geta komið ákveðinni starfsemi í einkarekstur.Þetta slær mig illa.

 

Björgvin Guðmundsson




Forsetinn gekk of langt í stuðningi við útrásarvíkinga

Í bókinnni Saga af forseta segir Ólafur Ragnar Grímsson,forseti, itarlega frá samskiptum sínum við svokallaða útrásarvíkinga og stuðningi sínum við þá.Þar kemur fram, að forsetinn hefur lagt lið mörgum útrásarverkefnum,ekki aðeins almennt heldur einstökum verkefnum,fyrir einstaka auðmenn,t.d.  Björgólf Thor Bjórgólfsson .Ég geri ekki athugasemd við það,að forsetinn veiti íslensku viðskiptalífi lið .t.d. með því að taka þátt í viðskiptasendinefndum til Asíu,þar sem oft getur verið mikilvægt að opna leiðir almennt til viðskipta.En ég tel orka tvímælis,að  forsetinn sé að mæla með einstökum viðskiptaverkefnum  og styðja í því sambandi fremur einn en annan.Forseti Ísland má ekki mismuna.Við lestur bókarinnar verður  mér ljóst,að fosetinn  hefur gengið of langt í  þessu efni. Hann hefur gengið of langt í stuðningi við einstaka  útrásarvíkinga. En  forsetinn hefur beðist afsökunar á þessu í ræðu.Og það er virðingarvert.

 

 

Björgvin Guðmundsson


Ríkisstjórnin skerðir kjör eldri borgara og öryrkja

Kjaranefnd  Félags eldri borgara í Reykjavík  (FEB) mótmælti kjaraskerðingu eldri borgara um áramót í ályktun,sem gerð var um jólin.Í ályktun FEB sagði svo:

Kjaranefnd FEB mótmælir harðlega kjaraskerðingu aldraðra,sem ákveðin var í endurskoðuðu fjárlagafrumvarpi og kom til framkvæmda um áramót. Samkvæmt þessari breytingu skerðast  kjör 3/4 lífeyrisþega TR,þar eð lífeyrir  þeirra hækkaði aðeins um 9,6% um áramót  en átti að hækka um 20%,ef fullar verðlagsbætur hefðu komið á lífeyrinn eins og lögbundið var áður. Aðeins 1/4  lífeyrisþega   fékk fullar verðlagsbætur á lífeyri sinn. Er þar um að ræða þá,sem eru á lægstu bótum. Kjaranefnd fagnar því,að  lægstu bætur skerðast ekki.

Kjaranefnd bendir á,að Hagstofan hefur nú birt nýja   könnun um meðaltalsútgjöld  heimilanna í landinu. Samkvæmt henni nema meðaltalsútgjöld einhleypinga  282 þús. kr. á mánuði án skatta. Það er stefna FEB,að lífeyrir aldraðra hækki í þessa fjárhæð. Vegna erfiðleika í fjármálum þjóðarinnar telur kjaranefnd,að  framkvæma  megi  slíka leiðréttingu   á lífeyri aldraðra í  áföngum. Fyrsti áfangi leiðréttingarinnar komi til framkvæmda strax í byrjun árins.

Ríkisstjórnin afsakar allar sínar gerðir nú með fjármálakreppunni.En fjármálakreppan afsakar ekki að skerða kjör eldri borgara og öryrkja.Áður en það er gert á að skera hraustlega niður í ríkiskerfinu,leggja  niður óþarfar stofnanir eins og varnarmálastofnun og jafnvel sendiráð.En kjör aldraðra og öryrkja eru það slæm,að ekki má skerða þau. Það þarf að bæta þau eins og sést best á neyslukönnun Hagstofunnar.

 

Björgvin Guðmundsson


Stöðva verður átökin á Gaza

Fundur  var í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um átökin á Gaza  í gær. Fulltrúar Palestínumanna hafa  rætt við embættismenn hjá Sameinuðu þjóðunum og ráðamenn vestan hafs til að freista þess að koma á vopnahléi.

Ísraelar halda því fram að þeir hafi verið að svara skothríð frá Hamas-liðum þegar um þrjátíu manns létu lífið í sprengjuárás á skóla Sameinuðu þjóðanna á Gaza í dag. Tugir særðust, margir lífshættulega. Ban-ki moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í yfirlýsingu í kvöld að árásirnar á skólana væru óþolandi. Þjóðarleiðtogar víða um heim reyna nú að miðla málum.

Forseti Palestínu, Mammhoud Abbas, hitti fyrr í dag Ban-Ki Moon aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna en Palestínumenn reyna nú hvað þeir geta að fá alþjóðasamfélagið til að stöðva átökin á Gaza.

Abbas ræddi líka við Condolezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem fór til New York. Þá sat hann á fundum með fulltrúum Arabaríkja til að leggja drög að ályktun sem leggja mætti fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þar sem Ísraelar væru hvattir til að hætta hernaði sínum á Gaza og Hamasliðar til að hætta eldflaugaárásum á Ísrael. Margir efast þó um að samstaða náist í öryggisráðinu um ályktun um Gaza. (ruv.is)

Árásir Ísraelsmanna á Gasa eru fordæmanlegar. Gerðar hafa hvað eftir annað verið árásir á óbreytta borgar,skóla og sjúkrahús. Ísraelsmenn segja,að Hamasmenn leynist í íbúðahverfum og jafnvel í skólum og sjúkrahúsum og skjóti þaðan eldflaugum á Ísraelsmenn.Báðir aðilar bera sök á átökunum. En það verður að stöðva þau þegar í stað.

 

Björgvin Guðmundsson



Titringur í stjórnarherbúðunum

Undafarna daga hefur verið talverður  taugatitringur í stjórnarherbúðunum.Nokkrir af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hafa  sagt,að Ingibjörg Sólrún væri að stilla Sjálfstæðisflokknum upp við vegg með því að segja,að stjórnarsamstarfi væri sjálfhætt,ef Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ekki að sækja um aðild að ESB á landsfundi,Geir Haarde sagði í dag,að Ingibjörg Sólrún væri ekki að stilla Sjálfstæðisflokknum upp við vegg.Þá hefur gagnrýni á stjórnarsamstarfið aukist innan Samfylkingar. Mörður Árnason varaþingmaður gagnrýndi í gær Össur Skarphéðinsson harðlega fyrir að samþykkja álver í Helguvík. Og í dag sagði Guðmundur Steingrímsson varaþingmaður sig úr Samfylkingunni.Hann var óánægður með stjórnarsamstarfið.

 

Björgvin Guðmundsson


Eftirsjá af Guðmundi Steingrímssyni

Guðmundur Steingrímsson varaþingmaður Samfylkingarinnar hefur sagt sig úr flokknum og ákveðið að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn.Hann kveðst óánægður með ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og kveður úrræðaleysi hafa einkennt tímabil stjórnarinnar frá því bankahrunið varð. Hins vegar nefnir hann ekkert einstakt mál,sem hann er óánægður með.Það er eftirsjá af Guðmundi  úr Samfylkingunni.

Ég var hissa þegar Guðmundur bauð sig fram fyrir Samfylkinguna,þar eð hann er sonur Steingríms Hermannssonar fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins. En þegar hann var kominn í flokkinn virtist hann vera einlægur jafnaðarmaður og þess vegna er ég jafn hissa nú,þegar hann segir sig úr flokknum og gengur í Framsókn.Ekkert kemur fram hvað í stefnu og framkvæmd Samfylkingarinnar Guðmundur var óánægður með.

Það hefði verið eðlilegra,að Guðmundur hefði verið kyrr i Samfylkingunni og unnið að breytingum á stefnu flokksins  í samræmi við það,sem hann vildi.

 

Björgvin Gupmundsso

 


Bretar kærðir fyrir Mannréttindadómstól Evrópu?

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að kanna til þrautar möguleika á að leita réttar Íslendinga fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu vegna beitingar breskra stjórnvalda á svonefndum hryðjuverkalögum frá árinu 2001 gegn Landsbankanum á síðasta ári.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu. Í minnisblaði ríkislögmanns, sem fylgir með, er raunar haft eftir breskum lögfræðingum, að slík leið yrði torsótt, tæki langan tíma og að skaðabætur, ef til kæmi, yrðu í besta falli mjög lágar. 

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru ítrekaðar fyrri yfirlýsingar um að styðja af alefli við málsókn skilanefndar Kaupþings vegna framgöngu breska Fjármálaeftirlitsins gegn Singer & Friedlander, dótturfyrirtæki Kaupþings, þann 8. október 2008, en þá yfirtók eftirlitið rekstur Singers & Friedlanders með þeim afleiðingum að móðurfyrirtækið komst í greiðsluþrot.

Skilanefndin hefur afráðið að höfða, fyrir hönd bankans, mál gegn breskum stjórnvöldum og nýtur því fulls stuðnings ríkisstjórnarinnar í þeirri málsókn. Stuðningurinn er í samræmi við lög frá Alþingi sem samþykkt voru 20. desember en þau heimila fjármálaráðherra að styðja fjárhagslega við slíka málsókn.

Ríkisstjórnin mun einnig styðja við málsókn skilanefndar Landsbankans í hugsanlegum málaferlum gegn breskum stjórnvöldum, en  sú málshöfðun lýtur ekki að öllu leyti sömu tímafrestum og málshöfðun skilanefndar Kaupþings.

Ríkisstjórnin hefur fengið álit frá bresku lögmannsstofunni Lovells um hugsanlega málshöfðun íslenska ríkisins gegn breskum stjórnvöldum í þeim tilgangi að láta reyna á lögmæti kyrrsetningar eigna Landsbankans með stjórnvaldsákvörðun þeirra frá 8. október 2008  á grundvelli hryðjuverkalaganna. Voru bresku lögmennirnir fengnir til að leggja mat á hvort hægt væri að hnekkja kyrrsetningunni fyrir breskum dómstólum á grundvelli sjónarmiða um ólögmæti og hvort íslenska ríkið gæti höfðað skaðabótamál fyrir breskum dómstólum vegna kyrrsetningarinnar.

Fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að lögmennirnir töldu að litlar sem engar líkur væru á því að íslensk stjórnvöld gætu hnekkt kyrrsetningunni fyrir breskum dómstólum. Rökstuddu þeir niðurstöðuna ítarlega með tilliti til breskra lagasjónarmiða og dómafordæma og töldu að lagaákvæðin veittu breskum stjórnvöldum afar rúmar heimildir til þess að beita kyrrsetningarákvæðum. Þá voru þeir þeirrar skoðunar að engar líkur væru á því að íslenska ríkið myndi fá dæmdar skaðabætur fyrir breskum dómstólum vegna kyrrsetningarinnar. Ríkislögmaður og þjóðréttarsérfræðingur utanríkisráðuneytisins voru sammála þessu áliti.

Á grundvelli þessa hefur ríkisstjórnin ákveðið að höfða ekki mál gegn breskum stjórnvöldum fyrir breskum dómstólum á þessu stigi. Hún mun hins vegar kanna aðra möguleika til alþjóðlegrar málsóknar til þrautar og má þar sérstaklega nefna Mannréttindadómstól Evrópu.(mbl.is)

Það er miður,að ekki sé talið vænlegt að kæra Breta fyrir breskum dómstól vegna beitingar þeirra á hryðjuverkalögum gegn okkur.En væntanlega verður unnt að sækja Breta til saka  fyrir Mannréttindadómstólnum.

 

Björgvin Guðmundsson


Bjarni Ármannsson endurgreiddi Glitni 370 milljónir

Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis, hefur gengið frá endurgreiðslu á 370 milljónum króna sem er hluti af þeim starfslokasamningi sem gerður var við hann er hann lét af störfum árið 2007. Þetta kom fram í máli Bjarna í Kastljósi í  gærkvöld. 

Sagði Bjarni að hann hafið komið að máli við formann skilanefndar Glitnis í lok október er hann kom fyrst aftur til Íslands eftir bankahrunið og boðist til þess að endurgreiða þessa fjárhæð. Var gengið frá endurgreiðslunni fyrir áramótin.

Bjarni sagði við Sigmar Guðmundsson, aðstoðarritstjóra Kastljóss, að ekki væri hægt að meta starfslokasamninginn á 1000 milljónir króna. „Þetta eru ekki réttar tölur.“

Aðspurður hvort nóg væri að gert svaraði Bjarni á þann veg að ef hann tæki þau laun og bónusa og kauprétti þau 10 ár sem hann hefði starfað hjá Glitni og drægi frá skatta og skyldur sem hann hefði greitt til samfélagsins á sama tíma jafngilti endurgreiðslan helminginn af öllu því sem hann hefði fengið.

Bjarni sagði í viðtalinu að hann hafi á sínum tíma unnið að því að koma á yfirtökunefnd sem skoðaði yfirtökur fyrirtækja á markaði. Sagði hann að misbrestur hafi orðið á því hjá sumum félögum að upplýsa nefndina og nefndi FL Group sem dæmi um slíkt félag. 

Bjarni sagði að það hafi verið röng ákvörðun hjá Íbúðalánasjóði að fara upp í 90% lán á fasteignamarkaði og það hafi verið rangt hjá Kaupþingi að bjóða upp á fasteignalán á þeim kjörum sem bankinn gerði án þess að hafa tryggt sér nægjanlegt fjármagn til þess. Jafnframt hafi það verið rangt hjá honum og Glitni að fylgja á eftir og bjóða upp á jafn hátt lánshlutfall og gert var.

Bjarni sagði tvennt hafa farið úr böndunum varðandi uppbyggingu launakerfisins. Annars vegar hafi fjárhæðir orðið of háar auk þess sem árangur einstaklings hafi í þeim árangri sem náðist verið ofmetinn. Í því samhengi kvaðst Bjarni ekki undanskilja sjálfan sig.

Fyrrverandi bankaforstjórinn kvaðst hins vegar hafa komið að því að koma á laggirnar yfirtökunefnd sem hefði eftirlit með yfirtökum skráðra félaga. Ekki hefðu allir orðið jafnhrifnir og ekki virt þá upplýsingagjöf sem nauðsynleg var til þess að stofnunin fengi þrifist þannig að hún hefði lognast út. Sem dæmi um ósamvinnuþýtt fyrirtæki nefndi Bjarni FLGroup.

Jafnframt voru gefnar út leiðbeiningar um viðmiðunarreglur varðandi stjórnarhætti sem menn hafi í fyrstu virt en svo hafi þær farið úr böndunum.

Bjarni kvaðst hafa mælt með því að framlög til Fjármálaeftirlitsins yrðu aukin og hefði það að hluta til gengið eftir. Hann kvaðst hins vegar telja að stjórnmálamenn hafi skort skilning á fjármálakerfinu og á því hvaða verkferlar yrðu að vera til staðar.

Hann kvaðst telja það hafa verið ranga ákvörðun hjá ríkissjóði að hækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs í 90 prósent. Það hafi verið röng ákvörðun hjá Kaupþingi að fara af stað með húsnæðislán með þeim hætti sem gert var án þess að tryggja fjármagn til langs tíma auk þess sem það hafi verið röng ákvörðun hjá Glitni að fara á eftir og bæta um betur.(mbl.is)

Bjarni er sá fyrsti af fyrrverandi bankastjórum,sem kemur fram og játar á sig mistök og endurgreiðir fyrrum vinnuveitanda sínum hluta af starfslokasamningi sínum. Þetta er mjög virðingarvert hjá Bjarni. Nú er spuyrningin sú hvort einhverjir aðrir feta í fótspor hans.

Björgvin Guðmundsson

 

 

Fara til baka Til baka


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband