Miðvikudagur, 25. febrúar 2009
Ný lög um Seðlabankann á morgun.Bankastjórar hætta
Frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um breytingar á stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands var afgreitt frá viðskiptanefnd Alþingis í kvöld með einni breytingartillögu.
Breytingartillagana kemur frá fulltrúum Samfylkingar, VG og Framsóknarflokks. Í henni felst að peningastefnunefnd getur gefið út viðvörun um ástand í efnahagsmálum.
Þriðja og síðasta umræða um frumvarpið fer fram á Alþingi á morgun og verður þá frumvarpið væntanlega afgreitt sem lög.(visir.is)
Samkvæmt þessu hefur Hoskuldur Framsóknarmaður hleypt frv. í gegn.Það verður væntanlega að lögum að morgun og munu þá núverandi bankastjórar hætta.
Björgvin Guðmundsson
Miðvikudagur, 25. febrúar 2009
Þórsmörk kaupir Moggann
Þórsmörk ehf., félag undir forustu Óskars Magnússonar, hefur gengið frá samkomulagi við Íslandsbanka um kaup á nýju hlutafé Árvakurs, sem ætlunin er að gefa út eftir að núverandi hlutafé félagsins hefur verið fært niður.
Auk Óskars eru Gísli Baldur Garðarsson, Guðbjörg Matthíasdóttir, Gunnar B. Dungal, Pétur H. Pálsson, Þorgeir Baldursson og Þorsteinn Már Baldvinsson aðilar að Þórsmörk. Til að dreifa eignaraðildinni enn frekar er ráðgert að fleiri hluthafar komi til liðs við félagið á síðari stigum.
Við kaupin færist hlutafé fyrri eigenda niður í núll. Áskilnaður er um að samningar takist við aðra lánardrottna Árvakurs en Íslandsbanka á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að þegar niðurstaða fæst verði boðað til hluthafafundar.
Þrjú skuldbindandi tilboð bárust í Árvakur í síðustu viku og tók Íslandsbanki tvö þeirra til nánari skoðunar, tilboð ástralska fjárfestisins Steve Cossers og viðskiptafélaga hans, annars vegar, og tilboð frá Þórsmörk.
Samkvæmt upplýsingum frá Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka var á föstudag ljóst hver röð tilboðsgjafa var og þeim gerð grein fyrir stöðunni í stórum dráttum. Ekki var unnt að segja opinberlega frá röð þeirra fyrr en tilboðin höfðu verið kyrfilega lesin yfir af lögfræðingum og eftirlitsaðila og einstök atriði staðfest af hæstbjóðanda. Sú yfirferð leiddi ekki til breytinga á röð bjóðenda, enda tilboðin öll í samræmi við skilmálana.
Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs, segir að það sé fagnaðarefni fyrir starfsmenn og áskrifendur Morgunblaðsins og mbl.is að búið sé að eyða óvissu um framtíð félagsins. Þetta söluferli ætti að geta orðið fyrirmynd að endurskipulagningu annarra fyrirtækja af hálfu bankanna. (mbl.is)
Fróðlegt væri að sjá hvernig tilboðin tvö voru sem komu til álita,þe. tilboðið frá Þórsmörk og Ástralanum.
Björgvin Guðmundsson

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 25. febrúar 2009
Jón Baldvin vill aftur á þing
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins og ráðherra, gefur kost á sér í eitt af átta efstu sætum á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir þingkosningar vorið 2009. Í fréttatilkynningu frá Jóni kemur fram að framboðið sé sett fram án vísunar til tiltekins sætis með fyrirvara um og í trausti þess að boðað stjórnarfrumvarp um breytingar á kosningalögum, er feli í sér rétt kjósenda til persónukjörs, nái fram að ganga þannig að væntanlegir alþingismenn öðlist ótvrírætt umboð kjósenda.
Björgvin Guðmundsson
Miðvikudagur, 25. febrúar 2009
Fara þarf í mál við Breta
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks gagnrýndi harðlega á Alþingi í dag, að viðskiptaráðherra skuli hafa lýst því yfir í samtali við breska blaðið Financial Times, að engin áform séu af hálfu íslenskra stjórnvalda að leita til dómstóla vegna hryðjuverkalaga sem beitt var gegn Íslandi.
Spurði Sigurður Kári Þórunni Sveinbjarnardóttur, varaformann utanríkismálanefndar þingsins, um skýringar og sagði að sér vitanlega hefði ekki verið rætt um þessa ákvörðun í ríkisstjórn eða í utanríkismálanefnd. Sagði Sigurður Kári að hagsmunir Íslendinga væru gríðarlegir af að fá niðurstöðu í málinu fyrir dómstólum.
Þórunn sagði, að sú ákvörðun ríkisstjórnar Geirs H. Haarde, frá því í ársbyrjun 2009, stæði að leitað verði allra leiða til að leita réttar Íslands fyrir mannréttindadómstóli Evrópu. Þórunn sagði, að þeirri athugun væri ekki lokið en hún vissi ekki betur en vinna væri enn í gangi og ekki sé útilokað að farið verði í mál.
Sagði Þórunn, að sú ríkisstjórn, sem tók við í janúar, sé að vinna áfram það mál, sem hófst í haust en m.a. þyrfti að semja um Icesave-skuldbindingarnar. Ekkert væri í raun nýtt í málinu nema að viðskiptaráðherra hefði látið þessi ummæli falla. Menn hafa látið ýmis ummæli falla í erlendum fjölmiðum án þess að þau hafi verið rædd fyrirfram á Alþingi," sagði Þórunn.(mbl.is)
Ég tel,að halda eigi áfram að undirbúa málssókn gegn Bretum fyrir Evrópudómstólnum. Einnig tel eg æskilegt,að Kaupþing eða ríkið fari í mál við Breta vegna beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslendingum.
Björgvin Guðmundsson
Miðvikudagur, 25. febrúar 2009
Verðbólgan farin að minnka
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 17,6% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 21,0%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,6% sem jafngildir 10,9% verðbólgu á ári.
Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í febrúar 2009 er 336,5 stig og hækkaði um 0,51% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 308,5 stig og hækkaði hún um 1,25% frá janúar.
Kostnaður vegna eigin húsnæðis lækkaði um 3,2% (vísitöluáhrif -0,49%). Þar af voru áhrif af lækkun markaðsverðs -0,45% og -0,04% af lækkun raunvaxta.
Vetrarútsölum er að ljúka og hækkaði verð á fötum og skóm um 6,3% (0,28%). Verð á pakkaferðum til útlanda hækkaði um 8,6% (0,18%) og verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 12,8% (0,15%).
Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í febrúar 2009, sem er 336,5 stig gildir til verðtryggingar í apríl 2009. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 6.644 stig fyrir apríl 2009.(ruv.is)
Samkvæmt hefðbundinni mælingu er verðbólgan nú 17,6% en miðað við hækkun neysluverðs sl. 3 mánuði en hún 10,9% á ársgrundvelli. Því er spáð,að verðbólgan muni minnka hratt á næstunni.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 24. febrúar 2009
Seðlabankinn átti að grípa til aðgerða
Seðlabankinn varaði ríkisstjórnina við.En Seðlabankinn gaf líka út skýrslu vorið 2008,sem sagði,að allt væri í lag hjá bönkunum. En Seðlabankinn átti ekki aðeins að vara við.Seðlabankinn átti að grípa til aðgerða gegn útþenslu bankanna.Seðlabankinn átti að takmarka lántökur bankanna erlendis.Seðlabankinn átti að setja bönkunum skilyrði,Seðlabankinn átti að auka bindiskyldu bankanna og Seðlabankinn átti að auka gjaldeyrisforðann meira en gert var. Ekkert af þessu gerði Seðlabankinn. Síðast en ekki síst átti Seðlabankinn að leggja tillögur fyrir ríkisstjórnina um lögfestingu aðgerða gegn bönkunum ef talin var þörf á þeim.En það gerði Seðlabankinn ekki. Það var ekki nóg að tala.Það þurfti aðgerðir. En enginn þessara aðila vildi gera neitt til þess að takamarka umsvif bankanna,ekki forsætisráðherra,ekki Seðlabankinn og ekki fjármálaeftirlitið,þar eð þessir aðilar vildu hafa allt frjálst. Þeir trúðu á frelsið. Þess vegna fóru allir bankarnir á hausinn.
Björgvin Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 24. febrúar 2009
Vaxtalækkun við sjóndeildarhringinn
Mark Flanagan, sem fer fyrir sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi, segir að aukinn stöðugleiki krónunnar og minnkandi verðbólga ættu að gefa færi á stigvaxandi stýrivaxtalækkun Seðlabanka Íslands og afnámi gjaldeyrishaftanna, að því er fram kemur í viðtali sem birtist við hann í dag á vef sjóðsins. Hann segir að slíkar aðgerðir séu við sjóndeildarhringinn en gæta þurfi varúðar þar sem fyrir þurfi að liggja með skýrari hætti fyrirætlanir nýrrar ríkisstjórnar um hvernig eigi að endurskipuleggja fjárhag ríkisins.
Flanagan segir jafnframt að kostnaður af hruninu hér verði mikill en að áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé til þess fallin að draga úr kostnaði vegna kreppunnar. Til dæmis með því að takmarka samdrátt í framleiðslu með aðstoð stöðugra gengis krónunnar. Áhrif kreppunnar verði samt mjög mikil hér á landi, sem er í samræmi við fyrri spár sjóðsins.
Aðspurður hvort Íslendingar geti greitt skuldir sínar án þess að stefna velferð borgara sinna í voða segir Flanagan að greiðsla skulda muni með tímanum draga úr vaxtaálagi og þar með skapa svigrúm fyrir aukin ríkisútgjöld í þágu uppbyggingar, eða svigrúm fyrir skattalækkun.
Spurður um hlutverk sjóðsins í endurskipulagningu fjármálakerfisins segir Flanagan að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni ekki koma nálægt endurreisn föllnu bankanna þriggja. Sjóðurinn muni hins vegar gefa góð ráð um hvernig eigi að endurfjármagna fjármálakerfið og gefa ráð um endurskoðun þeirra reglna sem fjármálastofnanir hér á landi starfi eftir.
Íslensk stjórnvöld gerðu sl. haust samning við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem gildir til tveggja ára og felur í sér, að sjóðurinn veitir Íslandi 2,1 milljarðs dala lán. Von er á sendinefnd sjóðsins, undir stjórn Flanagans, hingað til lands á fimmtudag til að fara yfir það hvernig efnahagsáætlun Íslands og IMF hafi gengið eftir.(mbl.is)
Mjög brýnt er orðið að lækka stýrivexti til þess að hjálpa atvinnulífinu. Vonandi er vaxtalækkun á næstu grösum.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 24. febrúar 2009
DO;Seðlabankinn gerði ekki mistök
Davíð Oddsson seðlabankastjóri neitaði í Kastljósviðtali í kvöld að Seðlabankinn hefði gert mistök í bankahruninu. Þvert á móti hafi Seðlabankinn haldið öllu uppi eftir að bankarnir hrundu. Seðlabankinn hafi tryggt að greiðslukerfið virkaði.
Menn sem gagnrýni seðlabankann ættu að skoða störf hans. Þegar þurft hafi að koma greiðslum til landsins hafi allir treyst á seðlabankann. Stjórnendur hans hafi fyllt bankann af fólki úr hinum bönkunum til að halda kerfinu gangandi. Hann sakar Jóhönnu Sigurðardóttur um árás á seðlabankann.
Niðurstaða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé að Seðlabankinn fái hæstu einkunn. Seðlabankinn hafi fengið einkunnina A, ríkisstjórnin B en Viðskiptaráðuneytið hafi fengið einkunnina C. Fleyting á krónunni hafi heppnast vel.
Hann dró í efa að kannanir sem sýndu að 90% þjóðarinnar vildu hann úr bankanum væru marktækar. Hann efist um að kannanir Baugsmiðla hefðu verið gerðar í raun.
Hann segir að bankinn hafi varað ríkisstjórn og bankana við allan tímann. Bankarnir hafi sýnt mikinn hagnað. Allir hafi trúað að þetta væru galdrameistarar. Seðlabankinn hafi varað við því að menn settu inn óefnislegar eignir í bókhald. Seðlabankinn hafi kvatt til þess að bankakerfið yrði minnkað.
Bindiskyldan hafi verið lækkuð 2003 til að laga reglurnar að reglunum í Evrópusambandinu til að íslensku bankarnir sætu við sama borð og aðrir bankar erlendis. Hann hafnar því að hækkun bindiskyldu hefði komið til hjálpar. Bindiskyldan hafi ekki haft áhrif á bankanna. Hún hefði þrengt að hag innlendra sparisjóða. Bankarnir hafi hinsvegar haft endalausan aðgang að erlendu ódýru fjármagni. Þetta sé eitt af því sem menn hafi notað til að sverta seðlabankann.
Hann segir að gjaldeyrisforðinn hafi verið í stærra lagi miðað við allt annað en stærð bankanna. Ef hann hefði átt að elta stærða bankanna og útrásarvitleysuna værum við stórskuldug þjóð.
Davíð var spurður að því hvað hann viti um hvað olli því að Bretar beittu hryðjuverkalögum. Hann spurði á móti hvort menn hefðu heyrt það einhverstaðar frá Bretum að kastljósviðtal hans á síðasta ári hafi valdið því. Ekki sé útilokað að þegar menn sáu að íslenskir aðilar tóku peninga út úr stofnunum sem lutu bresku eftirliti hafi menn orðið hræddir um að það gerðist í stofnunum sem ekki lutu eftirliti breskra yfirvalda. Bretar hafi verið hræddir. Hann segist vita að fyrst hafi verið millifærðar 400 milljónir punda, næst 800 milljónir punda og svo ótilgreind hærri upphæð.
Hann hafi komið á ríkisstjórnarfund 30. september. Þá hafi hann sagt við ríkistjórnina að allt íslenska bankakerfið yrði komið á höfuðið innan 2-3 vikna. Þá hafi verið sagt að óþarfi væri að dramatísera hlutina. Hann hafi bætt því við að ef einhvertíma væri grundvöllur fyrir þjóðstjórn væru slík skilyrði að skapast. (ruv.is)
Menn höfðu reiknað með því,að Davíð mundi upplýsa hvers vegna Bretar hefðu sett á okkur hryðjuverkalög en að gerði hann ekki. Ekki var að heyra á Davíð að hann ætlaði aftur í pólitíkina.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 24. febrúar 2009
Þingflokkar ræða stjórnlagaþing
Hugmyndum ríkisstjórnarinnar um stjórnlagaþing hefur verið vísað til þingflokka stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Eitt af skilyrðum Framsóknarflokkssins fyrir því að verja ríkisstjórnina falli var að komið yrði á stjórnlagaþingi sem semja myndi nýja stjórnarskrá.
Fram kom á fundi Jóhönnu Sigurðardóttir og Steingríms J. Sigfússonar með blaðamönnum í dag að ríkisstjórnin gerir tillögu um ákvæði í stjórnarskrá sem er stjórnskipulag heimild eða grundvöllur fyrir stjórnlagaþing. Í tillögum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að þingfulltrúar verði 41 og kosnir persónukjöri. Hugmyndir framsóknarmanna gerðu ráð fyrir 63 fulltrúum.
Verkefni stjórnlagaþingsins verður að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins þar sem byggt verður á lýðræðisskipan, réttarríki og vernd mannréttinda. Alþingi mun gefa umsögn sína um nýja stjórnarskrá áður en hún er samþykkt.
Hugmyndir ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir að kosið verði um nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu og er gert ráð fyrir að að minnsta kosti 25% kjóseneda á kjörskrá þurfi að samþykkja stjórnarskrána til þess að hún öðlist gildi.
Frekar reglur um kosningu fulltrúa á stjórnlagaþing og skipulag þess gerir ríkisstjórnin ráð fyrir að verði sett að loknum þingkosningunum í vor. (visir.is)
Það er mjög mikilvæt,að stjórnlagaþing verði haldið.Það er leið til þess að auka lýðræði í landinu.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 24. febrúar 2009
Fastsett,að kosningar verða 25.apríl
Ákveðið hefur verið, að kosið verði til Alþingis laugardaginn 25. apríl. Fram kom á blaðamannafundi forsætisráðherra og fjármálaráðherra í dag, að samkvæmt því þyrfti að rjúfa þing 27. mars en verið er að ræða leiðir til að þingið geti starfað nokkra daga til viðbótar, þó lengst til 4. apríl.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagðist á fundinum vona að haldinn yrði aukafundur í viðskiptanefnd Alþingis í hádeginu og þar muni nefndin komast að sameiginlegri niðurstöðu um frumvarp um Seðlabankann svo hægt verði að hefja lokaumræðu um frumvarpið á Alþingi í dag.
Fram kom á blaðamannafundinum, að von er á fulltrújm Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til landsins á fimmtudag. Sagðist Jóhanna vonast til að búið yrði að skipta um stjórn í Seðlabankanum fyrir þann tíma því fulltrúar sjóðsins þyrftu að eiga viðræður við nýja stjórnendur bankans.
Jóhanna sagði, að rætt yrði við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um vaxtalækkun, sem væri orðin afar brýn.
Á fundinum sögðust bæði Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, telja tillögur Framsóknarflokksins um niðurfellingu 20% af öllum íbúðalánum, algerlega óraunhæfar en þær myndi kosta 4-500 milljarða króna. Sagði Jóhanna, að engum væri greiði gerður að koma fram með tillögur af þessu tagi, sem myndu m.a. þýða að Íbúðalánasjóður færi lóðbeint á hausinn. (mbl.is)
Ljóst er,að margt er að gerast hjá ríkisstjórninni og mikill kraftur í henni. Mikill skaði er að Höskuldur Framsóknarmaður skyldi tefja Seðlabankafrumvarpið. Ekki verður séð,að neitt samhengi sé á milli frv, um Seðlabanka og tillagna Seðlabanka Evrópu um fjármálamarkaði í Evrópu. Ljóst er,að íhaldið er að reyna að tefja frv. um Seðlabankann og slæmt að Höskuldur skyldi hjálpa við það.
Björgvin Guðmundsson
