Íhaldið ber ábyrgð á misskiptingunni í þjóðfélaginu

Á valdatímabili Sjálfstæðisflokksins hefur misskipting og ójöfnuður í íslensku þjóðfélagi stóraukist.Þetta hefur gerst vegna ranglátrar skattastefnu og vegna  kvótakerfisins, sem fært hefur gífurlega fjármuni  til í þjóðfélaginu,þannig, að þeir sem fengu kvótana gefins eru orðnir  auðmenn á kostnað fjöldans og byggðir landsins eru sem sviðin jörð eftir kvótagreifana sem hafa farið með kvótana frá sjávarbyggðunum út um allt land.Skattastefna Sjálfstæðisflokksins hefur lækkað skatta á hinum efnameiri en hækkað þá á láglaunafólki. Þeir lægst launuðu og þar á meðal aldraðir, sem ekki greiddu neina skatta áður, verða  nú að greiða verulega skatta. Ríkisstjórnin undir forustu Sjálfstæðisflokksins hefur haft tugi milljarða af almenningi með því að láta skattleysismörkin ekki hækka í samræmi við launavísitölu. Ef skattleysismörkin hefðu hækkað í samræmi við hækkun launa væru þau í dag rúmar 140 þúsund krónur á mánuði en þau eru aðeins 90 þúsund á mánuði.Þetta hefur verið sérstaklega íþyngjandi fyrir aldraðra og öryrkja. Aldraðir hafa orðið fyrir barðinu á stefnu íhaldsins bæði vegna ranglátrar skattastefnu og vegna þess,að bætur almannatrygginga hafa ekki fylgt launaþróun eins og lofað var 1995. Fyrir 1995 hækkaði lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum sjálfvirkt þegar lægstu laun hækkuðu. Þegar skorið var á þessi sjálfvirku tengsl 1995 lofaði  forsætisráðherra íhaldsins því,  að þessi breyting mundi ekki rýra kjör aldraðra. Það yrði framvegis bæði miðað við hækkun launa og verðlags. En þetta var svikið. Lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum hefur setið eftir þegar laun verkafólks hafa hækkað. Af þessum sökum hefur ríkisstjórnin haft um 40 milljarða af öldrum sl. 12 ár. Það er krafa eldri borgara að þeir fái til baka það sem haft hefur verið af þeim.  Á sama tíma og íhaldið hefur stóraukið misskiptinguna í þjóðfélaginu hefur  misbeiting valds og valdníðsla einnig stóraukist. Vinir og vandamenn hafa verið skipaðir í æðstu embætti   eins og í hæstarétt og stjórnsýslulög og jafnréttislög brotin við þær embættaveitingar. Stærsta valdníðslan var þó þegar ráðherar íhalds og Framsóknar ákváðu upp á sitt eindæmi að styðja innrás í Írak án þess að leggja það mál fyrir alþingi eða ríkisstjórn. Aldrei mun önnur eins valdníðsla og misbeiting valds hafa átt sér stað. Tveir menn breyttu utanríkisstefnu Íslands upp á sitt eindæmi og létu Ísland styðja árás á annað ríki. Það er kominn tími til þess að refsa stjórnarflokkurnum fyrir þetta athæfi. 

 Björgvin Guðmundsson


Miklar sveiflur í skoðanakönnunum

Skoðanakannanir um fylgi flokkanna eru mjög misvísandi og misjafnar frá viku til viku. Sveiflur eru miklar og  mismunur mikill eftir því hver framkvæmir kannanirnar. Það er því erfitt að átta sig á því hvað rétt er og hvað gefur bestu vísbendinguna um raunverulegt fylgi flokkanna. Ef litið er á skoðanakannanir um fylgi flokkanna 2003 kemur í ljós, að þá var þetta einnig eins, sveiflur miklar og mismunur mikill milli kannana. Síðustu vikurnar fyrir kosningarnar 2003 sveiflaðist fylgi Samfylkingar samkvæmt könnunum frá 26%-37%. Fylgi Sjálfstæðisflokksins sveiflaðist frá 33%- 42%.Þetta eru jafnvel meiri sveiflur en núna. Fylgi Vinstri grænna sveiflaðist hins vegar ekki mjög mikið 2003 en fylgi Frjálslyndra sveiflaðist mikið í könnunum 2003. Ef litið er á kannanir Capacent Gallup nú kemur í ljós, að fylgi Samfylkingar hefur sveiflast frá 19,4%- 24 % og fylgi Sjálfstæðisflokks hefur sveiflast frá  37%-41%. Þetta eru miklar sveiflur en þó mun minni en 2003.Það hafa einnig verið birtar kannanir um fylgi flokkanna í einstökum kjördæmum. Samfylkingin  hefur komið betur út úr kjördæmakönnunum en könnunum á landsvísu. Í gær kom til dæmis könnun um fylgi flokkanna í Rvík suður og þar var Samfylkingin með 24,9%. Athyglisvert er, að könnunum Fréttablaðsins og Capacent Gallup ber ekki saman. Þar munar talsverðu. Samfylkingin hefur fengið minna fylgi hjá Fréttablaðinu en Gallup. Niðurstaða mín er þessi: Það eru svo miklar sveiflur í könnunum ,  að allt getur enn gerst. Ég hefi trú á því,að Samfylkingin eigi eftir að hækka sig talsvert  og Sjálfstæðisflokkurinn mun eitthvað dala miðað við fyrri reynslu. Björgvin Guðmundsson

5000 börn undir fátæktarmörkum á Íslandi

 

  

Það er mikill og slæmur blettur á velferðarkerfinu hér hvernig ríkisstjórnin hefur búið að börnum landsins:5000 börn eru undir fátæktarmörkum. Það er mikið verra ástand en á nokkru hinna Norðurlandanna.

 Samfylkingin vill  stórbæta aðstöðu barna. Samfylkingin hefur birt nýja stefnuskrá í málefnum barna: Unga Ísland. Þar er gert ráð fyrir, að dregið verði úr tekjutengingum barnabóta, að  tannvernd barna verði aukin með ókeypis eftirliti og forvarnaraðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna. Námsbækur í framhaldsskólum verði nemendum að kostnaðalausu.  Hvers vegna er ástandið í málefnum barna eins slæmt hér og raun ber vitni? Ein ástæðan er sú,að barnabætur hafa rýrnað mikið að verðgildi  undanfarin 10 ár eða um 10 milljarða  einkum vegna þess, að  tekjutengingar hafa aukist. En aðalástæðan er sú,að stjórnarflokkarnir hafa rýrt kjör þeirra sem lægstar hafa  tekjurnar með skattahækkunum. Skattleysismörkin hafa stöðugt rýrnað . Þau eru 90 þúsund á mánuði í dag en ættu að vera 140 þúsund á mánuði í dag ef  þau hefðu fylgt launavísitölu frá  1988.- Samfylkingin ætlar að leiðrétta skattleysismörkin. 

 Björgvin Guðmundsson


Samfylkingin á uppleið í Rvk. suður

Ný skoðanakönnun Capacent Gallup um fylgi flokkanna í Reykjavík suður var birt í dag. Samkvæmt henni  eykst fylgi Samfylkingarinnar um 6 % stig frá síðustu könnun og fær Samfylkingin tæp 25%.  Þetta er dágóð viðbót hjá Samfylkingunni og gefur til kynna, að Samfylkingin sé á uppleið og geti, ef vel gengur, náð kjörfylgi sínu. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig  2,5% stigum frá síðustu könnun og mælist með 42,5%. Er það óhuggulega mikið fylgi og óskiljanlegt, að Sjálfstæðisflokkurinn skuli mælast með svo mikið fylgi,miðað við allt það slæma sem flokkurinn hefur gert undanfarin ár..Framsókn ermeð 4.5% og fær engan þingmann kjörinn í kjördæminu samkvæmt því. Svo virðist sem Framsóknarmennirnir séu að fara yfir á íhaldið og munu kjósendur Framsóknar telja eins gott eða betra að fara yfir á höfuðbólið í stað þess að vera á hjáleigunni. Fyrri kjósendur  Framsóknar vita, að ef þeir kjósa Framsókn eru þeir að kjósa áframhaldandi völd íhaldsins.

Í skoðanakönnuninni eru lagðar 3 spurningar fyrir kjósendur. Þriðja spurningin er þessi: Hvort er líklegra að þú kjósir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna. Þetta getur ekki talist hlutlaus spurning. Með henni er verið  að gera Sjálfstæðisflokknum hærra undir höfði en öðrum flokkum og getur það hæglega leitt til betri útkomu fyrir Sjálfstæðisflokkinn en ef flokkurinn væri ekki nefndur sérstaklega.

 Sjálfstæðiflokkurinn hefur yfirleitt fengið minna fylgi  í kosningum en í skoðanakönnunum. Það verður að vona,að svo verði einnig 12.mai n.k.

 

Björgvin Guðmundsson

  

Góð tillaga Þorvaldar Gylfasonar

 Þorvaldur Gylfason prófessor skrifar grein í Fréttablaðið, sem hann nefnir “Við myndum stjórn”. Þar setur hann fram þá hugmynd, að  leiðtogar stjórnarandstöðunnar birti yfirlýsingu nú strax, sem væri efnislega á þá leið, að  stjórnarandstöðuflokkarnir hafi ákveðið að  mynda nýja meirihlutastjórn  nái þeir tilskyldum meirihluta á alþingi  í kosningunum í vor og að stjórnarandstaðan gangi bundin til kosninga að þessu leyti. Þetta er róttæk og góð tillaga.Munurinn á henni og kaffibandalaginu er sá, að samkvæmt tillögu Þorvaldar er engin undankoma frá því að stjórnarandstaðan myndi nýja stjórn. En kaffibandalagið gerir ráð fyrir, að viðræður stjórnarandstöðunnar um stjórnarmyndun séu fyrsti valkostur eftir kosningar. Ef ekki náist samkomulag milli flokka stjórnarandstöðunnar geti þeir rætt við aðra flokka um stjórnarmyndun. Sannur jafnaðarmaður  Síðan birtir Þorvaldur Gylfason helstu atriðin, sem hann telur að eigi að vera stefnumál nýrrar ríkisstjórnar stjórnarandstöðunnar. Fyrsta atriðið í stefnuskránni er þetta: Við myndum jafnaðarstjórn.Við ætlum að hverfa frá  þeirri ójafnaðarstefnu. sem núverandi ríkisstjórn  Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur markað. Við ætlum að draga úr ójöfnuði í samfélaginu  með því að jafna  aðstöðu launþega og fjármagnseigenda í skattalögum meðal annars með hækkun skattleysismarka. Við ætlum að tryggja öldruðum, öryrkjum og öðrum,sem höllum fæti standa, betri og tryggari kjör. Þorvaldur Gylfason rekur síðan stefnumálin áfram og það leynir sér ekki við lestur þeirra, að þarna fer sannur jafnaðarmaður.  Björgvin Guðmundsson

Ísland aftarlega á merinni í skólamálum

 

Ríkisstjórnin er alltaf að guma af því, að Íslendingar standi framarlega í menntamálum í sambanburði við aðrar þjóðir. En tölur frá OECD leiða í ljós,að Ísland er mjög aftarlega á merinni. Ef litið er á opinber útgjöld í háskólana kemur í ljós, að Ísland er í 21. sæti af  30 þjóðum OECD.Við erum með 1,2% af landsframleiðslu en meðaltalið í  OECD er 1,4%. Danir eru með 1,8%,Norðmenn 1,8% og Svíar 1,5% og Finnar 1,8%. Hvert 0,5% af landsframleiðslu er  4-5 milljarðar kr.

. Hlutfall Íslendinga á aldursbilinu 25-34 ára sem hafa lokið framhaldsskólanámi er 68% en á hinum Norðurlöndunum er þetta 86-96%. Meðaltalið í OECD er 77% og í ESB 78%. Erum í 23. sæti af 30 þjóðum . –Þetta eru ljótar tölur fyrir Ísland og ekki mikið til þess að stæra sig af.

 

Björgvin Guðmundsson


Áfram vaxtaokur á Íslandi

Seðlabankinn tilkynnti nýlega að stýrivextir yrðu óbreyttir,14,25%. Munu þetta vera hæstu stýrivextir  í Evrópu.Viðskiptabankarnir nota þessa stýrivexti sem skálkaskjól fyrir því að halda vöxtum sínum í hámarki og okra á viðskiptamönnum sínum.Sumir viðskiptabankanna eiga orðið banka erlendis og geta fengið næga fjármuni frá erlendum  bönkum á lágum vöxtum, þannig að það stenst ekki að háir vextir viðskiptabankanna séu vegna hárra stýrivaxta Seðlabankans.Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti sína 18 sinnum frá því í mai 2004. Þetta mun einsdæmi í Evrópu.Árið 2004 voru vextirnir 5,3%.

 

   Vonlítil barátta Seðalbankans 

 

Barátta Seðlabankans við verðbólguna virðist vonlítil .Þetta er eins og barátta við vindmillur.Samkvæmt venjulegu hagfræðilögmáli eiga háir vextir að draga úr þenslu og verðbólgu. En svo virðist sem það   úrræði dugi ekki nema takmarkað á Íslandi. Íslenska hagkerfið er um margt sérstakt. Háir vextir hér á landi fara beint út í verðlagið og hækka vöruverð og þannig verka vextirnir á móti verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Krónan hefur að vísu styrkst vegna vaxtahækkana Seðlabankans. Af þessum sökum hefur mikil  eftirspurn  verið eftir krónubréfum ( skuldabréfum) erlendis. En vegna þess hve ótryggt ástand er hér í efnahagsmálum og vegna aukins  óstöðugleika munu eigendur krónubréfanna trúlega losa við við þessi bréf síðar á þessu ári. Þegar það gerist mun íslenska krónan kolfalla og valda mikilli verðbólgu. Seðlabankinn getur ekkert ráðið við það. Það er mikil spurning hvort nokkur þörf er fyrir Seðlabankann.

 

 Björgvin Guðmundsson
Vefstjórn





Til baka á pistlasafn

Vefstjórn



« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband