Föstudagur, 12. október 2007
Sér grefur gröf.......
Meirihluti Sjálfstæðismanna og Framsóknar í Reykjavík er fallinn.Minnihlutinn hefur myndað stjórn með fulltrúa Framsóknar undir forustu Dags B. Eggertssonar, oddvita Samfylkingarinnar, og verður hann borgarstjóri.Þessi breyting gerðist mjög snögglega.
Undanfari valdaskiptanna var sá,að miklar deilur voru í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna og virtist sem allir óbreyttir borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna væru snúnir gegn foringja sínum,borgarstjóranum.Þeir létu Morgunblaðið segja með stórri forsíðufyrirsögn á mánudag: Það átti að vaða yfir okkur. Hver ætlaði að vaða yfir borgarfulltrúana? Það hlýtur að hafa verið borgarstjórinn. Haldinn var sáttafundur hjá borgarfullrúunum og borgarstjóra og þar bakkaði borgarstjóri algerlega og samþykkti sjónarmið óbreyttra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. En það dugði ekki til. Skaðinn var skeður. Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur undir forustu Guðlaugs Þór lagði til stofnun sérstaks félags,REI til þess að annast útrás af hálfu Orkjuveitunnar.Nú átti lausnin að felast í því að selja þetta fyrirtæki á útsöluverði. Það var ekki heil brú í þessu hjá Sjálfstæðisflokknum. Von var að Björn Ingi gæfist upp á samstarfi við þá og snéri sér að minnihlutanum.Hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki lengur stjórntækur og það virðist hafa verið rétt. Morgunblaðið segir í leiðara í dag,að líklega megi kenna reynsluleysi óbreyttra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um.
Ljóst er að sjálfstæðismenn tóku sína eigin gröf.
Ég er mjög ánægður með að félagshyggjumenn séu komnir til valda á ný í Reykjavík. Dagurinn í gær var gleðidagur.
Björgvin Guðmundsson