Fimmtudagur, 4. október 2007
Ekkert í fjárlagafrumvarpinu til kjarabóta aldraðra!
Ég er búinn að fletta fjárlagafrumvarpinu fyrir 2008 og leita af framlögum til kjarabóta aldraðra vegna kosningaloforða stjórnarflokkanna.En þessi framlög finnast ekki. Þrátt fyrir mikil kosningaloforð um miklar kjarabætur til handa öldruðum er ekki ein króna til þess að uppfylla þessi loforð. Það eina sem er að finna í þessu efni í frumvarpinu eru framlög til þess að efna samkomulagið,sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar gerði við Landssamband eldri borgara.Að vísu er unnt að breyta frumvarpinu á þingi en er það ekki heldur mikil hógværð af ráðherrum Samfylkingarinnar að koma ekki inn einni krónu í frumvarpið til þess að bæta kjör aldraðra.
Fjárlagafrumvarpið var að vísu samið snemma eftir kosningar. En Samfylkingin kom samt inn í frumvarpið framlögum til barna og ungmenna. Það hefði því eins mátt koma inn framlögum til þess að bæta kjör aldraðra ef vilji hefði verið fyrir hendi.Landssamband eldri borgara sagði í gær, að eldri borgarar hefðu gleymst í eldhúsdagsumræðunum. Eldri borgarar virðast einnig hafa gleymst í fjárlagafrumvarpinu.
Björgvin Guðmundsson