Fimmtudagur, 22. nóvember 2007
Ríkisstjórnin hefur ekkert gert í kjaramálum aldraðra
Í Morgunblaðinu í dag er grein eftir Björgvin Guðmundsson um málefni eldri borgara undir ofangreindri fyrirsögn. Þar segir svo m.a.:
Eldri borgarar hafa ekki orðið varir við neina stefnubreytingu hjá stjórnvöldum í kjaramálum þeirra við tilkomu nýrrar ríkisstjórnar eftir alþingiskosningar sl. vor. Stefnan í kjaramálum aldraðra virðist alveg sú sama og hún var á meðan Framsókn fór með heilbrigðis-og tryggingaráðuneytið.Þetta eru gífurleg vonbrigði fyrir kjósendur og sérstaklega fyrir eldri borgara.Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2008 er ekki ein króna til þess að efna kosningaloforðin við aldraða frá því sl. vor. Þar er aðeins að finna framlög til þess að efna " samkomulagið" milli fyrri ríkisstjórnar og Landssambands eldri borgara.Mér finnst það nokkuð gróft hjá ríkisstjórninni að hundsa svo algerlega eldri borgara, að ekki skuli eins einasta króna í frumvarpinu til þess að efna öll kosningaloforðin, sem eldri borgurum voru gefin fyrir síðustu kosningar.
Hækka verður lífeyrinn strax
Ef ríkisstjórnin ætlar að reka af sér slyðruorðið verður hún að bæta kjör aldraðra strax en ekki síðar. Það þarf að hækka lífeyri eldri borgara strax um 30- 40 þúsund á mánuði, sem fyrsta áfanga í leiðréttingu á kjörum aldraðra. Lífeyrir aldraðra einstaklinga er í dag 126 þúsund á mánuði fyrir skatta,eða 113 þúsund eftir skatta.Ef þessi lífeyrir er hækkaður um 30 þúsund fer hann í 156 þúsund á mánuði fyrir skatta en ella í 166 þúsund fyrir skatta ef hækkunin væri 40 þúsund á mánuði.Eftir sem áður væri þetta mjög lágur lífeyrir. Þetta verður ekki mannsæmandi fyrr en lífeyririnn fer í 210 þúsund á mánuði fyrir skatta eða sem svarar meðaltals neysluútgjöldum einstaklinga á mánuði.
Björgvin Guðmundsson