Miðvikudagur, 28. nóvember 2007
Söngurinn byrjaður: Ekki má hækka laun
Í hvert sinn,sem kjarasamningar eru lausir og samningaviðræður byrja upphefja atvinnurekendur sama sönginn: Ekki má hækka laun. Efnahagslífið þolir það ekki. Þessi söngur hefur verið kyrjaður stöðugt undanfarna áratugi og er eins og slitin plata. Nú er Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins forsöngvari. Hann segir: Það er óviðeigandi að hækka almenn laun við núverandi aðstæður. Og Sigurjón bankastjóri Landsbankans syngur með og segir að efnahagslífið þoli ekki nema hóflegar launahækkanir. Hann meinar sjálfsagt hófstillar launahækkanir eins og í bönkunum. Sjálfur er hann á ofurlaunum og á þátt í því að skapa þá ólgu í þjóðfélaginu sem skapar kröfur um verulegqr kjarabætur launþega. Bankastjórarnir,sem hrifsað hafa til sín ofurlaun,langt umfram það,sem eðlilegt má teljast, ættu að sjá sóma sinn í því að halda sig til hlés þegar almenna kjarasamninga ber á góma.
Atvinnufyrirtækin eru nú flest rekin með miklum hagnaði og því ættu þau að geta greitt hærri laun. Starfsfólkið á stærsta þáttinn í góðum hagnaði fyrirtækjanna.Það er því eðlilegt að starfsfólkið njóti góðrar afkomu atvinnurekenda. Laun verkafólks eru skammarlega lág. Það er erfitt að draga fram lífið á lægstu launum. Það verður að hækka launin myndarlega og skapa verkafólki sómasamleg lífskjör.
Björgvin Guðmundsson
Miðvikudagur, 28. nóvember 2007
Framsókn vill fá hlutdeild í góðri einkunn Íslands
Alþingi ræddi þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna í gær en þar er þjóðum heims raðað eftir ýmsum þáttum,einkum lífslíkum,menntun og meðalframleiðslu á mann.Skýrsla sú,sem birt var í gær byggist á könnun á árinu 2005. Framsóknarmenn á alþingi spruttu upp og kváðust eiga þátt í góðri einkunn Íslands 2005,þar eð þeir hefðu þá verið í ríkisstjórn og mörg ár á undan. Það má til sanns vegar færa.En á sama hátt má segja,að allir flokkar og öll þjóðin eigi þátt í þeim framförum sem orðið hafa á Íslandi. Ekki lengist meðalaldur Íslendinga við setu einnar ríkisstjórnar,jafnvel ekki þó Framsókn sitji í henni.Sama er að segja um menntun þjóðarinnar. Uppbygging menntunar tekur langan tíma og er löng þróun. Allir stjórnmálaflokkar hafa þar komið við sögu.Þjóðarframleiðslan byggist einnig á langri þróun og uppbyggingu og ytri aðstæður hafa mikil áhrif á þjóðarframleiðluna. Að sjálfsögðu skiptir miklu máli,að stjórnvöld skapi rétt umhverfi og réttar aðstæður fyrir framleiðslu og atvinnulíf.En það sem stjórnvöld geta fyrst og fremst gert er að skipta framleiðslu og lífsgæðum réttlátlega milli þegna þjóðfélagsins. Könnun Sameinuðu þjóðanna mældi ekki hvernig til hefði tekist í því efni. Núverandi ríkisstjórn verður fyrst og fremst dæmd eftir því hvernig henni tekst í því efni.
Björgvin Guðmundsson
elagsins