Eru Íslendingar fátækir:Aðeins 1% ellilífeyrisþega fær fullar bætur á Íslandi

Miklar skerðingar á lífeyri aldraðra þekkjast ekki í nágrannalöndum okkar. Þetta er einstakt fyrir Ísland. Það mætti halda, að Ísland væri fátækt land, sem þyrfti af þeim sökum að íþyngja eldri borgurum.

Í Svíþjóð halda ellilífeyrisþegar öllum sínum bótum óskertum þrátt fyrir aðrar tekjur. Og í Danmörku mega þeir hafa 50 þúsund króna atvinnutekjur án þess að sæta skerðingu. Skerðing verður þar aldrei meiri en 30%. Engin skerðing verður þar vegna greiðslna úr lífeyrissjóði, ekki heldur hjá maka. 70% ellilífeyrisþega í Danmörku eru með  fullar og  óskertar  bætur. Í Svíþjóð er hlutfallið 100%.Engin skerðing sem fyrr segir. 

Aðeins 1% ellilífeyrisþega fær fullar bætur á Íslandi 

 En á Íslandi  fær aðeins 1% ellilífeyrisþega fullar og óskertar bætur.Þannig fer ein ríkasta þjóð heims með  eldri borgarana í sínu landi. 

Björgvin Guðmundsson


Íhaldið hefur eyðilagt velferðarkerfið hér

Morgunblaðið ,sem vill vera hlutlaust fréttablað og opið fyrir almenna umræðu,  missir alltaf hlutleysisgrímuna ,þegar kosningar nálgast  og þá gengur Morgunblaðið í lið með íhaldinu og heldur uppi áköfum vörnum fyrir það. Þetta mátti sjá  í Reykjavíkurbréfi um helgina og  í forustugrein í morgun. Nú er aðal áróðursbragðið þetta: Stjórnarandstaðan hefur ekkert á ríkisstjórnina. Hún getur ekki gagnrýnt hana fyrir neitt. Þetta er sniðugt áróðursbragð. Og með Göbbelsaððferðinni ( endurtaka nógu oft) gæti það heppnast.

Íhaldið hefur eyðilagt velferðarkerfið

 Samfylkingin hefur gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega. Stærsta gagnrýnisefnið er þetta: Ríkisstjórnin hefur eyðilagt velferðarkerfið. Hún hefur eyðilagt almannatryggingarnar. Áður  voru íslensku almannatryggingarnar einhverjar þær bestu í heimi. Í dag hafa þær drabbast svo mikið niður og dregist svo aftur úr, að þær standa langt að baki almannatryggingum  á Norðurlöndum  og íslenska velferðarkerfið siglir hraðbyri í átti til þess bandaríska, sem er eitt hið versta í heimi. Kjör aldraðra eru mikið verri hér en á hinum Norðurlöndunum, kjör öryrkja eru mikið verri hér en á hinum Norðurlöndunum, kjör barna eru mikið verri hér en á hinum Norðurlöndunum og þannig mætti áfram telja. Aldraðir  búa við smánarkjör. Þeir fá 113 þúsund úr almannatryggingum ef þeir eru ekki í lífeyrissjóði. 10.000 eldri  borgarar hafa aðeins rúmar 100 þúsund á mánuði. 400 eldri borgarar bíða eftir rými á hjúkrunarheimili, á annað þúsund  býr í tvíbýli eða margbýli á hjúkrunarheimilum. Í Danmörku búa allir eldri borgarar í einbýli eða með maka. 5000 börn á Íslandi eru undir fátæktarmörkum. Ófremdarástand ríkir í heilbrigðiskerfinu. Biðlistar eru í öllum greinum. Það er löng bið  eftir  aðgerðum og geðsjúk börn komast ekki inn á spítala.Þar eru langir biðlistar.Þannig er ástandið hjá einni ríkustu þjóð í heimi. Og svo segir Mbl. , að ástandið sé gott og stjórnarandstaðan finni ekkert sem að sé.

Mörg hagstjórnarmistök

 Stjórn efnahagsmála er í molum. Verðbólgan er langt umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans. Gerð hafa verið margvísleg hagstjórnarmistök  eins og sýnt var fram í skýrslu Samfylkingarinnar um efnahagsmál undir ritstjórn  Jóns Sigurðssonar fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins. Vextir hér eru þeir hæstu  í Vestur- Evrópu. Verðlag er hið hæsta hér í Vestur-Evrópu. Almenningur býr hér bæði við okurvexti og okurverðlag en Mbl. segir allt vera í lagi. Ríkisstjórnin þorir ekki einu sinni að ræða afstöðu Íslands til Evrópusambandsins þó  aðild að Myntbandlagi Evrópu og að ESB mundi færa almenningi hagstæða vexti og hagstætt verðlag,  eða m.ö.o. mikla kjarabót.

Ríkisstjórn valdníðslu

Það er af nógu að taka þegar  gagnrýna á ríkisstjórnina. Og eitt alvarlegasta gagnrýnisefnið er pað,að ríkisstjórnin hefur beitt valdníðslu  og misbeitingu valds gegn þegnum landsins. Það eitt er nægilegt til þess að hún fari frá. Valdið hefur spillt stjórninni.

Björgvin Guðmundsson


Íhaldið ber ábyrgð á misskiptingunni í þjóðfélaginu

Á valdatímabili Sjálfstæðisflokksins hefur misskipting og ójöfnuður í íslensku þjóðfélagi stóraukist.Þetta hefur gerst vegna ranglátrar skattastefnu og vegna  kvótakerfisins, sem fært hefur gífurlega fjármuni  til í þjóðfélaginu,þannig, að þeir sem fengu kvótana gefins eru orðnir  auðmenn á kostnað fjöldans og byggðir landsins eru sem sviðin jörð eftir kvótagreifana sem hafa farið með kvótana frá sjávarbyggðunum út um allt land.Skattastefna Sjálfstæðisflokksins hefur lækkað skatta á hinum efnameiri en hækkað þá á láglaunafólki. Þeir lægst launuðu og þar á meðal aldraðir, sem ekki greiddu neina skatta áður, verða  nú að greiða verulega skatta. Ríkisstjórnin undir forustu Sjálfstæðisflokksins hefur haft tugi milljarða af almenningi með því að láta skattleysismörkin ekki hækka í samræmi við launavísitölu. Ef skattleysismörkin hefðu hækkað í samræmi við hækkun launa væru þau í dag rúmar 140 þúsund krónur á mánuði en þau eru aðeins 90 þúsund á mánuði.Þetta hefur verið sérstaklega íþyngjandi fyrir aldraðra og öryrkja. Aldraðir hafa orðið fyrir barðinu á stefnu íhaldsins bæði vegna ranglátrar skattastefnu og vegna þess,að bætur almannatrygginga hafa ekki fylgt launaþróun eins og lofað var 1995. Fyrir 1995 hækkaði lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum sjálfvirkt þegar lægstu laun hækkuðu. Þegar skorið var á þessi sjálfvirku tengsl 1995 lofaði  forsætisráðherra íhaldsins því,  að þessi breyting mundi ekki rýra kjör aldraðra. Það yrði framvegis bæði miðað við hækkun launa og verðlags. En þetta var svikið. Lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum hefur setið eftir þegar laun verkafólks hafa hækkað. Af þessum sökum hefur ríkisstjórnin haft um 40 milljarða af öldrum sl. 12 ár. Það er krafa eldri borgara að þeir fái til baka það sem haft hefur verið af þeim.  Á sama tíma og íhaldið hefur stóraukið misskiptinguna í þjóðfélaginu hefur  misbeiting valds og valdníðsla einnig stóraukist. Vinir og vandamenn hafa verið skipaðir í æðstu embætti   eins og í hæstarétt og stjórnsýslulög og jafnréttislög brotin við þær embættaveitingar. Stærsta valdníðslan var þó þegar ráðherar íhalds og Framsóknar ákváðu upp á sitt eindæmi að styðja innrás í Írak án þess að leggja það mál fyrir alþingi eða ríkisstjórn. Aldrei mun önnur eins valdníðsla og misbeiting valds hafa átt sér stað. Tveir menn breyttu utanríkisstefnu Íslands upp á sitt eindæmi og létu Ísland styðja árás á annað ríki. Það er kominn tími til þess að refsa stjórnarflokkurnum fyrir þetta athæfi. 

 Björgvin Guðmundsson


Bloggfærslur 23. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband